19.02.1979
Sameinað þing: 54. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2645 í B-deild Alþingistíðinda. (2053)

57. mál, fæðingarorlof kvenna í sveitum

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að taka undir það sem kom fram hjá flm. þessarar þáltill. um nauðsyn þess að athuga þennan þátt mála, þ.e.a.s. fæðingarorlof kvenna í sveitum. Þetta hefur oft borið á góma, og það er rétt, sem kom fram hjá honum, að bændasamtökin hafa ekki getað komið þessu máli í höfn og þess vegna er tímabært að taka það til skoðunar. Ég vil alveg sérstaklega taka undir með síðasta ræðumanni um það, að þegar verið er að ræða um þessi mál, þá kemur undireins upp þessi staða: Hví ekki að greiða fæðingarorlof til allra kvenna á Íslandi?

En það, sem aðallega fékk mig til að taka þátt í þessari umr., um leið og ég vil taka undir stuðning við gott mál, er þörfin á að fara að taka tryggingalöggjöfina á Íslandi til gaumgæfilegrar endurskoðunar. Við erum alltaf að reka okkur á það í okkar þjóðfélagi, að það eru víðs vegar dæmi um að það þarf að veita fólki aðstoð á margvíslegan hátt, en ekki er nein grein í okkar tryggingalöggjöf sem verndar það eða veitir þann rétt sem er sjálfsagður. Þess vegna vil ég nota þetta tækifæri og taka undir með síðasta ræðumanni um það, að við eigum að sameinast um að gera þá kröfu að tryggingalöggjöfin verði tekin nú þegar til rækilegrar endurskoðunar. Það er ekki aðeins þetta atriði í sambandi við fæðingarorlof kvenna, heldur eru víðs vegar í okkar kerfi dæmi um það, að þeir, sem þurfa verulegrar aðstoðar við í þjóðfélaginu, njóta þess ekki í gegnum það tryggingakerfi sem við þykjumst vera stoltir af að hafa í gildi í okkar landi. Ég gæti nefnt um það mýmörg dæmi þar sem verið er að reyna að hafa áhrif á löggjafann og opinberar stofnanir til þess að rétta hlut þeirra sem minna mega sín í þjóðfélaginu, að við rekumst alltaf á þetta sama, að það þarf að finna samnefnara til þess að hægt sé að vernda þetta fólk og koma því til aðstoðar.

Ég endurtek: Ég vonast til að þetta mál og önnur slík verði til þess, að nú verði farið að taka til höndum við að setja hér tryggingalöggjöf sem fyllilega hefur þann tilgang, sem við allir erum sjálfsagt sammála um, að vernda þá og styðja sem helst þurfa á því að halda í okkar þjóðfélagi.