21.02.1979
Efri deild: 57. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2683 í B-deild Alþingistíðinda. (2097)

148. mál, orlof

Guðmundur Karlsson:

Herra forseti. Það er rétt sem hv. þm. Stefán Jónsson sagði, ég er ekki þingvanur maður, og þess vegna kemur þessi till. fram eins og raun ber vitni. Ég skrifaði undir nál. með fyrirvara, en hefði að sjálfsögðu átt að skila séráliti, ég geri mér grein fyrir því nú orðið.

Það er rétt sem fram kom hjá honum og öðrum þeim, hv. þm., sem á undan hafa talað, auðvitað er það launþeginn sem er þolandi í þessu máli, og það eru hagsmunir hans sem menn hljóta að hafa fyrir augum. En mér hefur heyrst á mörgum launþegum, að þeir teldu að Póstgíróstofan hefði alls ekki staðið sig sem skyldi við innheimtu orlofsfjárins til þessa og erfiðleikar við að fá upplýsingar væru ekki síður frá henni en frá vinnuveitendum sjálfum, a.m.k. væri það reyndin úti á landsbyggðinni. Það má vel vera að öðru máli gegni hér í Reykjavík. Þess vegna held ég að þetta ákvæði eitt í lögum muni ekki tryggja endilega hag launþegans, eins og stefnt er að. Eins og ég sagði áðan eru ákaflega sterkar raddir innan launþegasamtakanna, a.m.k. hafa þær raddir heyrst ákaflega sterkt í Vestmannaeyjum, að þeir vilji afnema þetta starf Póstgíróstofunnar og taka það í eigin hendur. Þá sýnist mér að gæti farið svo, að það væru ákaflega margir aðilar sem þarna ættu hlut að máli og því mundi þetta valda vissu öryggisleysi, ef menn mættu eiga von á því að maðurinn af götunni kæmi og vildi fara að gægjast í bókhaldið og athuga hvort orlof hefði verið greitt sem skyldi. En auðvitað hef ég ekki frekar en aðrir áhuga á því að halda hlífiskildi yfir einhverjum skálkum í vinnuveitendastétt.

Það má vel vera, eins og hv. þm. Karl Steinar Guðnason sagði áðan, að ég geri mér ekki fullljóst hvernig ástandið er í orlofsmálum. En satt að segja hef ég frá fyrstu tíð litið á orlofsféð sem hluta af launum og talið skyldu að greiða það jafnharðan og laun væru greidd, hvort sem það er vikulega eða mánaðarlega. Mér sýnist að það mætti vel staðreyna þetta, t.d. með vitnisburði frá endurskoðendum fyrirtækjanna. Þeir eru trúnaðarmenn, má segja, beggja aðila og þeir gætu staðreynt þetta í hverju fyrirtæki um sig. Ég held að öll alvörufyrirtæki og allir alvöruvinnuveitendur séu með löggilta endurskoðendur og það mætti afla þessara upplýsinga t.d. með milligöngu þeirra.