21.02.1979
Efri deild: 57. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2684 í B-deild Alþingistíðinda. (2099)

148. mál, orlof

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Vestf. talaði um að það væru bara til einstaka svartir sauðir í atvinnurekendastétt, en meiri hluti hennar væru heiðvirðir og góðir menn. Ég er hjartanlega sammála honum um það, og auðvitað er þessari síðari mgr. eingöngu beint gagnvart þessum svörtu sauðum.

Það var komið inn á það áðan af hv. þm. Guðmundi Karlssyni, að kerfið, sem væri núna í Vestmannaeyjum, væri gott. Það hefur að vísu tvo kosti. Það hefur þann kost, að það borgar heldur meiri vexti því að Póstgíróstofan verður af þeim vöxtum, sem hún fær hjá Seðlahankanum þar sem féð er geymt, að borga sinn kostnað, sem er kannske þriðjungurinn af vöxtunum eða jafnvel 40% sem fara í kostnað eins og er, þó að það fari að vísu minnkandi. Hinn kosturinn er að peningarnir eru heima í héraði. Allt annað er mjög til hins verra. Það er sagt að Póstgíróstofan hafi ekki staðið sig við að innheimta. En hvernig í ósköpunum halda menn að bankinn sé betur í stakk búinn til þess að gera það en einhver annar aðili? Nú er það þannig að Póstgíróstofan gefur mánaðarlegt yfirlit um allar greiðslur til verkalýðsfélaganna. Hún gefur ársfjórðungslegt yfirlit til launþega, þannig að miklu betur er að þessum málum staðið en áður var.

Hv. þm. Guðmundur Karlsson talaði um að það væri nóg að endurskoðendur hefðu þetta vald eða eitthvað í þá áttina og vill að alvörufyrirtæki hafi endurskoðendur. Vitanlega verður það þannig í reynd, að Póstgíróstofan snýr sér til endurskoðenda. Ef hún fær þar fullnægjandi svör verður ekkert um frekari rannsókn að ræða og auðvitað lítur hún aldrei á annað heldur en launabókhald, því að sannleikurinn er sá að hjá svona stofnun, opinberri stofnun eins og Póstgíróstofunni, er miklu meiri hætta á að eftirlitið verði of lítið heldur en það verði of mikið. Fyrir því er margföld reynsla.

Það er talað um að dómstólar eigi að koma í staðinn fyrir ákvæði síðari mgr. Ég er hálfhræddur um að það mundi verða þungt í vöfum, og a.m.k. væri ekki hægt að greiða orlofið út á réttum tíma ef þá leið ætti að fara, dómstólar könnuðu þetta og úrskurðuðu hvað ætti að greiða.

Eins og ég kom að áðan ber Póstgíróstofunni skylda til að greiða orlofsféð á réttum tíma þegar fólk ætlar í orlof, þó að atvinnurekendur hafi ekki greitt til Póstgíróstofunnar. Það er veigamikið atriði og veigamesta atriðið kannske. Með tilliti til þess endurtek ég það, að ég er mjög mótfallinn þessari brtt, og tel að hún muni að verulegu leyti eyðileggja það mál sem hér er á ferðinni.