26.02.1979
Neðri deild: 53. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2776 í B-deild Alþingistíðinda. (2199)

73. mál, samvinnufélög

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Það var út af fyrir sig rétt ábending hjá hv. 1. flm. þessa frv., Finni Torfa Stefánssyni, að auðvitað er það fyrst og fremst samvinnuhreyfingin, sem hér er til umr., og aukin lýðréttindi í þeirri hreyfingu, en ekki verkalýðshreyfingin í landinu. Þó verða menn auðvitað að taka því, að þegar slíkt stórmál sem þetta er til umr. er engin furða að hliðarröksemdafærslur fjalli einnig um þessa stærstu fjöldahreyfingu sem í landinu er. Hitt er aftur kjarni málsins, að hér er um að ræða tiltekna breytingu á starfsháttum stórs fyrirtækis sem er — og það ber að undirstrika — fyrirtæki fyrst og fremst, sem er rekstrarform, og verið er að leggja til í þessu frv. aukin lýðréttindi þess fólks sem þessari hreyfingu tilheyrir og þessa hreyfingu skipar.

Það má út af fyrir sig taka undir ýmislegt af því sem fram kom hjá síðasta hv. ræðumanni, Guðmundi J. Guðmundssyni. Einkum og sér í lagi hjó ég eftir því, sem ég veit eins og samfélagið allt að er rétt, að það er allmikill munur á tilteknum fjöldahreyfingum í Bretlandi og hér á Íslandi að því er tekur til hörkunnar í vinnustöðvun. Hér hafa t.d. fyrirtæki eins og sjúkrahús blessunarlega verið látin í friði þegar um verkföll hefur verið að ræða, sem ekki hefur reynst vera gæfa Breta. Svona getum við haldið áfram endalaust. En það kemur væntanlega að því fyrr en síðar, að hér verður umr. um hvort löggjafinn eigi að grípa inn í og með einhverjum hætti reyna að lagfæra þau augljósu vandkvæði sem í öðrum fjöldahreyfingum eru. Það er að þessu sinni hins vegar rétt að halda sig við Samband ísl. samvinnufélaga sem hér er til umr.

Mér sýnist þetta frv. til l., sem hér er til umr., vera afskaplega einfalt. Það er verið að leggja til aukinn rétt fólks í tiltekinni hreyfingu, sem auðvitað er að öðrum þræði fjöldahreyfing, en að hinum þræðinum rekstrarform. Ég get út af fyrir sig tekið undir margt af því, flest af því, held ég, sem hv. þm. Jónas Árnason sagði þegar þetta mál var til umr. fyrir helgi. Það er svo auðvitað sitthvað að athuga við rekstur bæði Sambands ísl. samvinnufélaga sem heildar og einstakar deildir þess, og er eðlilegt að umr. um það blandist inn í þetta. Ég vil t.d. spyrja hv. þd. um það, hvað sé mat annarra á því, hvernig það megi vera að Samband ísl. samvinnufélaga er fjórðungseigandi í fyrirtækinu Íslenskir aðalverktakar. Það fyrirtæki er ekki rekið með samvinnuformi og þá með þeim ítökum og lýðréttindum sem samvinnuformið býður upp á, heldur er það rekið sem hlutafélag, m.ö.o.: með allt öðru rekstrarformi en grunnhugsunin í samvinnurekstri gengur út á. Og eins hitt: Hvenær hafa samvinnumenn á Snæfellsnesi, Akureyri eða Egilsstöðum verið um það spurðir hvort þeir vildu eiga í þessu fyrirtæki, og ef þeir vildu það, þá með hverjum hætti slíkt skyldi vera? Auðvitað er það svo, að þarna vantar stórkostleg lýðræðisleg réttindi sem samvinnuhreyfingin gerir þó ráð fyrir á grundvelli sínum. Þetta er orðið að heljarinnar rekstrarformi, en á ekkert skylt við þau lýðréttindi sem um var talað á árunum kringum aldamótin þegar þessi hreyfing var stofnuð. Svona gætum við haldið áfram. Ég nefni hér stórt dæmi. Hv. þm. Jónas Árnason nefndi dæmi af smærri tagi sem hann þekkir úr sínu byggðarlagi í Borgarfirði, og ég efast ekki um að hann hafi farið þar með rétt mál.

Þegar allt þetta er skoðað í heild sinni þarf engum að koma á óvart, enda engin ástæða til pólitískrar taugaveiklunar eins og hér hefur verið höfð í frammi, þó að um það séu gerðar till. að löggjafinn með þeim hætti hlutist til um að teknar verði upp árlegar beinar kosningar til æðstu stjórnar þessa rekstrarfyrirkomulags sem samvinnureksturinn óneitanlega er til þess að auka völd og áhrif hins almenna félagsmanns í þessum rekstri.

Það er eðlilegt að þessar umr. beinist að nokkru leyti a.m.k. inn á nokkuð aðrar brautir, sem þær hafa gert fyrst og fremst fyrir tilstilli hv. 1. þm. Austurl., Lúðvíks Jósepssonar, snúist um þá einföldu grundvallarspurningu: hvenær á og má löggjafinn setja lög þegar um félagslegar hreyfingar af einu og öðru tagi er að ræða? Um það er auðvitað ekki nokkur spurning, að löggjafinn setur margháttuð lög. Í félagslegu tilliti voru það hin mestu framfaraspor, sem hafa verið stigin, þegar vinnudagur var styttur í 12 stundir og að endingu niður í 8 stundir. Það var gert með löggjöf. Og við sérhvert spor af þessu tagi, sem var stigið, stóðu auðvitað upp, — við skulum láta skilgreiningarnar liggja á milli hluta, en það er eins og mig minni að einhverjir hafi kallað þá íhaldsmenn á sínum tíma sem upp stóðu og sögðu: Það er ósæmilegt að löggjafinn fari að setja lög um hluti eins og þá sem frjálsir einstaklingar eiga að semja um sín á milli. Þetta gildir um alls kyns félagsleg réttindi. Nærtækast er að taka þá þróun sem varð stig af stigi þegar hinn almenni vinnudagur var styttur og allt niður í 8 stundir eins og hann er nú.

Annað mál af þessu tagi má nefna: Ég veit ekki betur en það sé á stefnuskrá beggja flokkanna, bæði Alþfl. og Alþb., að koma á atvinnulýðræði. Og hvað þýðir atvinnulýðræði? Atvinnulýðræði þýðir t.a.m. að í fyrirtækjum, sem eru yfir ákveðinni stærð, fái starfsmenn fyrirtækjanna lögbundinn rétt til þess að tiltekinn fjöldi þeirra, 2 af 5 eða 3 af 7, setjist í stjórnir. Auðvitað standa eigendur þessara fyrirtækja upp og setja: Hér er verið að ráðast á hin frjálsu félagaréttindi. — Verjendur þess háttar sjónarmiða segja þetta á öllum tímum. Af þessum ástæðum þykir mér skjóta nokkuð skökku við þegar talsmaður Alþb. stendur upp og gerir það að „prinsip“atriði að ekki megi setja lög um tiltekna hluti. Mér sýnist satt að segja að í sögulegum samanburði a.m.k. séu þetta sjónarmið sem þeir, sem kallaðir hafa verið íhaldsmenn á hverjum tíma, hafa gert að sínum.

Hv. þm. Stefán Valgeirsson spurði hvort þeir talsmenn Alþfl., sem eru flm. að þessu frv., vildu ekki breyta reglum um eigin flokk í hliðstæða veru. Ég veit að hv. þm. er um það kunnugt, að að hluta til höfum við þegar breytt reglunum í þessa veru. Við lögbundum í samtökum okkar fyrir tveimur árum reglur um prófkjör. Ég fyrir mína parta hef lýst því úr þessum stól áður, að ég er ekki í hinum minnsta vafa um að þessi lögbinding öðrum atvikum fremur á sinn þátt í þeim góða árangri sem við höfum átt að fagna í kosningum síðan, vegna þess að fólk í landinu mat þessi lýðréttindi. Ég held einnig að almennir stuðningsmenn Alþfl. séu um þessa hluti á engan hátt frábrugðnir almennum þátttakendum í samvinnurekstri. Lýðréttindi eru nokkuð sem skilar sér bæði í auknum áhuga, aukinni upplýsingu, og fólk kann að meta slíkt.

Hv. þm. spurði, hvort Alþfl. vildi þá ekki leggja til að almennir forustumenn hans væru kosnir slíkum almennum kosningum. Því er til að svara um þetta, að í samtökum okkar hafa miklar umr. farið fram um nákvæmlega þetta. Eru margir þeirrar skoðunar, að það sé eðlilegt framhald af þeim lýðræðissporum, sem við þegar höfum stigið, að slíkar kosningar fari einmitt fram þannig að í þeim geti allir, sem í samtökin eru ritaðir, tekið þátt. Það má auðvitað ræða kosti og lesti á þessu eins og öðrum slíkum breytingum, en um margt má þó álykta að þetta væri einungis beint framhald af þeim sporum sem við höfum þegar stigið í lýðræðisátt og hafa án efa átt mikinn þátt í velgengni Alþfl. í síðustu kosningum. Og það er út af fyrir sig rétt, að ákveðinn skyldleiki er á milli reynslunnar, sem við höfum í Alþfl. af auknu lýðræði, og svo hins, að við skulum vera að ræða hugmyndir á Alþ. um lýðræðisaukningu í stórum samtökum eins og Sambandi ísl. samvinnufélaga og öðrum álíka.

Hv. 1. þm. Austurl., Lúðvík Jósepsson, fór nokkrum orðum um þau rök sem við höfum viðhaft til stuðnings þessu máli, og hann hefur áður haft stór orð um einkum yngri menn í Alþfl., sem honum eru augljóslega ekki alls kostar að skapi. Þ. á m. sagði hv. þm. í blaðagrein ekki alls fyrir löngu, og fann það yngri þm. Alþfl. helst til foráttu að því er skilja mátti, að þeir hefðu aldrei rekið hænsnabú, eins og hann komst að orði. Það hefði einhvern tíma þótt saga til næsta bæjar, að það væri orðið helsta deilumál á launþegavæng íslenskra stjórnmála að menn hefðu aldrei ástundað nokkurn atvinnurekstur. Það er svo út af fyrir sig alveg rétt, að margir í Alþfl. hafa sáralitla reynslu af atvinnurekstri, og ég efast ekki um að hv. 1. þm. Austurl, hefur allmiklu meiri reynslu af atvinnurekstri en ég og mínir líkar í Alþfl. höfum haft.

Hv. 1. þm. Austurl. óð svo á súðum út frá þessari lífsskoðun sinni og mismun á lífsskoðunum kannske, þegar þetta mál kom til umr. Hann ávarpaði okkur sem nýíhaldsmenn og dró sínar ályktanir þar af, og síðan bætti hann því við, að það væri alveg áreiðanlegt að þótt Alþfl. hefði unnið nokkurn kosningasigur, þá mundi sá kosningasigur hrynja niður í næstu kosningum. — Kannske erum við þarna að tala um kjarna málsins. Ég vildi gjarnan prófa að heyja kosningar og kosningabaráttu við hv. 1. þm. Austurl. eða aðra slíka. En mér er samt ekki alveg sama hvernig þær kosningar mundu fara fram. Ef hann flytti sig til Reykjavíkur og við færum að heyja hér stríð, þá mætti stríðið auðvitað ekki fara þannig fram að fyrst væri gengið frá uppstillingarnefnd, í uppstillingarnefndinni sætu Svava Jakobsdóttir, Ólafur Ragnar Grímsson og Svavar Gestsson, þessi uppstillingarnefnd veldi síðan frambjóðendur og þeir frambjóðendur væru síðan talsmenn einhverra þúsunda. Reynslan hefur margsýnt að allt jarðsamband skortir þegar þessum aðferðum er beitt. Ég held þvert á móti að þær aðferðir, sem Alþfl. hefur tekið upp, þ.e.a.s. að hafa opin prófkjör þar sem þúsundir taki þátt, sé allnokkur trygging fyrir nokkru jarðsambandi. Og því eru þessi mál svo reifuð, að hér er nákvæmlega um þann höfuðmun að ræða sem verið er að leggja til að því er tekur til þessara heljarrekstrarsamtaka sem eru Samband ísl. samvinnufélaga. Það er verið að leggja til fráhvarf í þessum samtökum frá fámennum uppstillingarnefndum, frá fámennisstjórnum, og til þess að gera fyrirkomulagið þannig úr garði að allur fjöldinn fái um það að segja í hvern rekstur slíkt fyrirtæki eigi að ráðast, hvort það t.d. eigi að eiga stóran hlut í umdeilanlegu fyrirtæki, svo að ekki sé meira sagt, eins og Íslenskum aðalverktökum, og yfir höfuð hverjir skipi æðstu stjórn og fari með æðstu völd. Ég er sannfærður um að það þarf ekki annað en líta yfir hið almenna stjórnmálasvið í landinu, horfa á hvern árangur svokölluðu prófkjör hafa haft, til þess að sannfærast um yfirburði þeirra aðferða sem hér er verið að bera saman.

Hv. þm. Stefán Valgeirsson spurði um það áðan, hvort flm. vissu nokkuð hver vilji væri til slíkra breytinga í hinum almennu samvinnufélögum. Nú er það auðvitað svo, að um þetta hefur engin skoðanakönnun verið gerð mér vitanlega. En þó er mér nær að ætla eftir að hafa setið allnokkra stjórnmálafundi víðs vegar um landið, að breytingar, sem horfa í lýðræðisátt í samvinnufélögunum, eigi sér mikinn stuðning, — kannske ekki meðal fyrirmanna í samvinnufélögum eða í æðstu stjórn SÍS, heldur meðal hinna almennu félagsmanna. Þetta marka ég bæði af fundum, sem ég hef setið með fjöldanum öllum af þessu fólki, og eins reynslunni af slíkum breytingum sem orðið hafa í öðrum almannasamtökum, og þar þekki ég allvel til og tel þess vegna Alþfl. vera nærtækast dæmi. Það væri auðvitað gott og hyggilegt ef við hefðum fleiri gögn í höndunum um undirtektir við slíkar hugmyndir.

En hitt vil ég þó segja að lokum, að mér þykir lítil ástæða vera til þeirrar pólitísku taugaveiklunar sem mér hefur þótt gæta hér hjá mörgum að ég hygg sjálfskipuðum málsvörum þessara samtaka. Stundum finnst mér eins og hér sé ekki um að ræða málsvara fólksins, sem í þessum samtökum er, heldur þess valdafyrirkomulags, sem í gegnum árin og áratugina hefur byggst upp í þessum samtökum. Mér þykir stundum að allnokkurs jarðsambandsskorts hafi gætt, og slíkt held ég að sé aldrei nokkrum samtökum til heilla.