26.02.1979
Neðri deild: 53. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2786 í B-deild Alþingistíðinda. (2202)

73. mál, samvinnufélög

Jónas Árnason:

Herra forseti. Hvernig dettur mönnum nú í hug að fara með hálfkveðna vísu um tengsl samvinnuhreyfingar og Framsfl. og láta að því liggja að um einhverja misnotkun sé að ræða af hálfu Framsfl. á samvinnuhreyfingunni? Hvernig dettur mönnum þetta í hug? Það vita náttúrlega allir, að þetta er algerlega tilhæfulaust!

Þó verða reyndar ýmsar tilviljanir, eins og sú t.d., að dagblað, sem nefnist Þjóðviljinn, fékkst ekki selt, það var sett bann á sölu þess í tveimur kaupfélögum — um það getur borið fyrrv. ritstjóri Þjóðviljans staddur hér í salnum — af því að í blaðinu var fundið að rekstri þessara kaupfélaga. Þetta var að sjálfsögðu tilviljun.

Mér dettur í hug önnur tilviljun. Hún varð á Vesturlandi fyrir kosningarnar í vor. Maður ætti náttúrlega, eins og hv. þm. Halldór E. Sigurðsson sagði, að slást um þau mál, sem þar gerast, heima í héraði. En ég get ekki stillt mig um að nefna þessa einkennilegu tilviljun mína. Ung og efnileg kona skipaði þriðja sætið á lista Framsóknar. Ekki löngu áður en kosið var kemur heilsíðuauglýsing í málgagni Framsfl. í kjördæminu þess efnis, að þessi unga stúlka sé tekin við Samvinnutryggingum fyrir Snæfellsnes, og ekki aðeins Samvinnutryggingum, heldur líka Samvinnuferðum, og allir þeir, sem þurfi að athuga eitthvað varðandi Samvinnutryggingar og Samvinnuferðir, geri svo vel og snúi sér til þessarar ungu konu. Nafn hennar var birt stóru letri, heilsíðuauglýsing svona rétt fyrir kosningar. Að sjálfsögðu helber tilviljun.

Það er enginn tími til að fara út í þessa sálma eins og vert væri. En þegar hv. þm. Halldór E. Sigurðsson stendur hér upp áðan, þá er það náttúrlega ekki til þess að ræða þessi mál almennt séð, heldur til þess að vega að mér, og það gerir hann með þeim hætti að túlka ræðu mína um daginn sem sérstaka árás á Kaupfélag Borgfirðinga. Ég minntist á dæmi sem ég veit um sjálfur, þess efnis að kaupfélagið innheimtir Tímann án þess að viðkomandi bóndi hafi nokkurn tíma pantað hann — fleiri en eitt, fleiri en tvö dæmi. Það vill svo til, að ég er hér með vélritaða ræðuna, og þar segir um forsvarsmenn Kaupfélags Borgfirðinga:

„Því fer þó fjarri, að þetta séu einhverjir sérstakir ofríkis- eða ofstækismenn, sem stjórna Kaupfélagi Borgfirðinga, því fer fjarri, þetta eru yfirleitt hinir ljúfustu menn.“

En síðar rek ég ástæðuna fyrir því, að jafnvel hinir ljúfustu menn eiga vissan þátt í þessu, og ástæðan er sú, að kaupfélagið á þessu svæði og kaupfélögin víðast hvar eru í vitund fólksins tiltekið vald, og þessu valdi hefur mönnum tekist að hræra saman í vitund fólksins við annað vald, sem er Framsfl. Sama hvað menn héldu langar ræður til þess að bera á móti þessu, þetta veit hver einasti maður í landinu. Hitt er svo annað mál, að það má að sjálfsögðu margt gott um þessi kaupfélög segja, guði sé lof, allflest, og ekki síst Kaupfélag Borgfirðinga, sem er ágætlega rekið að flestu leyti. Það breytir ekki hinu, að Tíminn er innheimtur þar.

Aðalkaflinn í ræðu hv. þm. Halldórs E. Sigurðssonar varðandi mig fjallaði um það, að ég hefði sagt að Tímanum væri dreift á vegum kaupfélagsins. Hann talaði ekki um það, sem var aðalatriðið hjá mér, að hann væri innheimtur af hálfu kaupfélagsins, kaupfélagið sæi um innheimtu. Hann ræddi reyndar ýmislegt fleira sem varðar innheimtuatriði kaupfélaganna. Þar er verið að innheimta ótrúlegustu hluti, eins og þinggjöld o.s.frv. Ég veit ekki hvort þetta er beinlínis heppilegt. Ég er ekki alveg viss um að mönnum sé það hollt að leggja sjálfa sig svo algerlega í kjöltu kaupfélagsins.

Sums staðar gengur þetta kaupfélagsvald svo fram af mönnum, að ungir menn fá útrás fyrir uppreisnarhneigð sína með hinum ótrúlegasta hætti. Ég veit t.d. um eitt kaupfélag norður í landi, þar sem menn gerðust íhaldsmenn vegna ofríkis kaupfélagsins. (Gripið fram í.) Já, það var af því að þessir ungu menn vissu ekki upp né niður í pólitík. (Gripið fram í.) Ég vona að þeir séu komnir í Alþb. núna. Það er nokkuð langt síðan þetta var. Þeir voru ungir þá og ekki búnir að átta sig á lögmálunum til fulls, trúi ég.

Það væri sem sagt ástæða til að taka þessi mál rækilega til athugunar, og þá er ég ekki endilega að tala um þau í tengslum við það frv. sem hér liggur fyrir. Það má um það deila, hvort rétt sé að setja það í lög, eins og ég sagði í ræðu minni um daginn, að menn skuli hafa áhuga á sínum lýðræðislegu réttindum. Það, sem að er viða í fjöldahreyfingum, því miður, — við erum sammála um það, ég og flm. þessa frv., — er að þátttakendur í þessum fjöldasamtökum hafa ekki þann áhuga á að beita lýðréttindum sínum sem þyrfti. Ég er ekki sannfærður um að það lagist með lagasetningu. En hitt vil ég segja, að þessi umr. er að mínum dómi hin þarfasta, því að ég tel að hún ýti við mönnum í þessu efni, veki þá til umhugsunar um það að beita betur réttindum sínum en þeir gera. En jafnvel þó að sett væru einhver lög um að menn skuli gera það, þá er ekki þar með sagt að brotið sé á bak aftur það vald sem við er að etja í fjöldahreyfingum, þ. á m. samvinnuhreyfingunni.

Samvinnuhreyfingin er komin óralangt, og þá fyrst og fremst siðferðilega séð, frá þeim hugmyndum sem sá góði maður Jakob gamli Hálfdánarson ól í brjósti sér, þegar hann byrjaði að afgreiða pantanir fátækra þingeyskra bænda í fjörunni norður á Húsavík. En, eins og ég sagði, hér er um að ræða svo víðtækt mál, svo stórt mál, að það er ekki tími til þess að fara frekar út í það á þessum fundi.