27.02.1979
Sameinað þing: 58. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2816 í B-deild Alþingistíðinda. (2229)

Umræður utan dagskrár

Kjartan Ólafsson:

Herra forseti. Hv. 4. þm. Vestf., Sighvatur Björgvinsson, hafði orð á því áðan, að þeim Alþfl.-mönnum þætti ganga of hægt að fá upp suðuna hjá okkur í Alþb. Ég vil segja í tilefni af þessum orðum, að það er víst enginn vafi á því að suðan er búin að koma upp hjá Alþfl., ekki bara einu sinni og ekki bara tvisvar, heldur ærið oft á undanförnum mánuðum. Og ég held að eftir þær umr., sem hafa farið fram í dag, og þann málatilbúnað, sem hafður hefur verið uppi af a. m. k. nokkrum hluta hv. þm. Alþfl., sé farið að sjóða ærið mikið upp úr potti þeirra og jafnvel vafi á því hvort ýkjamikið sé eftir í honum. En það er kannske bættur skaðinn.

Það er að sjálfsögðu sjaldgæfur atburður sem hefur gerst á þessum þingfundi í dag, þegar synjað er um að veita afbrigði um að taka mál á dagskrá. Ég hygg þó að flestir hv. þm. muni geta verið sammála um það, að svo sérstakur og óeðlilegur — leyfi ég mér að segja — málatilbúnaður var hér á ferð að það getur vart talist nema við hæfi að þessari beiðni hafi verið synjað.

hv. þm., sem hóf þessar umr. utan dagskrár í dag, hv. þm. Vilmundur Gylfason, hefur trúlega ekki valið daginn í dag fyrir neina tilviljun. Ástæðan er þó varla sú, að dagsetningin 1. mars sé svo mjög á næstunni. Það er nefnilega rétt að allir hv. þm. hafi það vel í huga, að í því margumtalaða frv. eða frv.-drögum hæstv. forsrh. er ekki kveðið á um að neinar mikilvægar efnahagslega ráðstafanir eigi að ganga í gildi sérstaklega 1. mars. Málið er því ekki á dagskrá þess vegna. Ég hygg hins vegar að hv. þm. Vilmundur Gylfason hafi kvatt sér hljóðs utan dagskrár í dag vegna þess að það var einmitt nú sem yfirlýsing eða umsögn miðstjórnar Alþýðusambands Íslands um þau frv.-drög, sem hér hefur verið fjallað um, var lögð fram, og það er að sjálfsögðu sú umsögn um frv. sem hefur valdið þessum óróleika hjá hv. þm.

Það er nú svo, að enda þótt hv. þm. Vilmundur Gylfason og félagar hans vilji gera frv.-drögum hæstv. forsrh. svo hátt undir höfði sem hér hefur komið fram, þá er ærið mikill munur á málflutningi þeirra annars vegar og hins vegar málflutningi hæstv. forsrh. Hv. þm. Vilmundur Gylfason og Sighvatur Björgvinsson hafa sjálfsagt tekið eftir því eins og aðrir landsmenn, að í hvert sinn sem hæstv. forsrh. hefur rætt um þessi frv.-drög hefur hann — alltaf frá upphafi — tekið skýrt fram, að hann sé til viðtals og viðræðna um breyt. á frv. Þetta hefur hæstv. forsrh. undirstrikað við hvert einasta tækifæri alveg sérstaklega. Þm. Vilmundur Gylfason og Sighvatur Björgvinsson, sem hér hafa talað, hafa hins vegar lagt áherslu á að frv. beri að samþ. nákvæmlega óhreytt. Sú till., sem hv. 7. þm. Reykv., Vilmundur Gylfason, lagði fram í dag, gerir m. a. s. ráð fyrir að frv. verði í heild borið undir þjóðaratkvgr.

Ég býst við að ærið margir hv. alþm. geti gjarnan hugsað sér, að hér séu mál oftar borin undir þjóðaratkvgr. en gert hefur verið, og ég er sjálfur í þeim hópi. En hugmynd um að bera undir þjóðaratkvgr. lagafrv. upp á 60 greinar, lagafrv. sem fjallar um fjöldamörg atriði, ekki kannske öll ýkjaskyld hvert öðru, og ætla kjósendum að segja til með jái eða neii, hygg ég að sé svo langsótt að ekki finnist dæmi um annað eins í nálægum löndum eða þeim þjóðfélögum sem okkur eru skyldust.

Það eru að sjálfsögðu til stjórnvöld sem viðhafa á stundum þá aðferð að láta fara fram sýndarþjóðaratkvgr. um margbreytt og flókin mál. Slík stjórnvöld er helst að finna í þeim ríkjum þar sem lýðræði er af skornum skammti, þar sem einvaldsherrar, keisarar eða kóngar vilja auka dýrð sína með því að kalla þjóðina til sýndaratkvgr. um mál sem útilokað er að svara af nokkru viti með jái eða neii. Það mætti jafnvel halda að hv. 7. þm. Reykv. sjái orðið sjálfan sig í hlutverki einhvers þvílíks einvaldsherra hér í landinu.

Það eina, sem getur verið eðlilegur gangur mála varðandi frv.-drög forsrh., er að sjálfsögðu, að þeir flokkar, sem aðild eiga að ríkisstj., haldi áfram að fjalla um frv. í framhaldi af þeim umsögnum sem um það hafa borist frá fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar og öðrum aðilum sem þar kynni að verða um að ræða. Það er vart nokkur vafi á að hæstv. forsrh. gangi til þeirra umr. með það í huga að óhjákvæmilegt sé að breyta frv. í ýmsum greinum, og að sjálfsögðu verður á það að reyna á þessum vettvangi, hvort þær breyt., sem kostur kann að vera á að fá fram, dugi til þess að stjórnarflokkarnir geti komist að sameiginlegri niðurstöðu. Ef það tekst ekki, þá er stjórnin að sjálfsögðu fallin.

Það er opið fyrir hv. þm. Alþfl. hvenær sem er að leggja fram till. sínar í frv.-formi á Alþ. Kjósi þeir að gera það mun verða um þær fjallað og þær fá sína þinglegu meðferð. Enginn meinar þeim slíkt. Ef hv. þm. Alþfl. eru hins vegar þeirrar skoðunar, að óviðunandi sé að breyta hinum margumtöluðu frv.-drögum forsrh., þá er ekki gott í efni fyrir þá ríkisstj. þriggja flokka, sem hér situr, því ef við slíkri kröfu ætti að verða væri verið að ganga í berhögg við grundvallaryfirlýsingar stjórnarsamstarfsins um samráð við verkalýðshreyfinguna.

Ég vil vænta þess, að sá tillöguflutningur um þjóðaratkvgr. um frv.-drögin óbreytt, sem við höfum orðið vitni að, hafi ekki stuðning Alþfl. alls. Ég hafði reyndar hugsað mér að spyrja sérstaklega hvort svo væri. Ég sé að það eru heldur fáir af forustumönnum Alþfl. hér í þingsalnum, en þó er ég ekki frá því að ég hafi séð formanni þingflokks Alþfl. bregða fyrir í hliðarherbergi. Vegna þess að formaður flokksins er ekki viðstaddur vil ég beina þeirri spurningu til hans og óska svara við henni, hvort till. hv. 7. þm. Reykv. um þjóðaratkvgr. sé borin fram eða sé studd af þingflokki Alþfl. í heild eða hvort lita beri á till. sem till. þess einstaka þm., sem hana flytur eingöngu. Ég óska eftir svörum við þessu.

Ég ætla ekki að fara langt út í að ræða um efnisatriði þess máls sem hér er að baki, þ. e. a. s. um hugmyndirnar sem fram koma í frv.-drögum hæstv. forsrh. Það hefur þó verið tekinn af þessum drögum trúnaðarstimpillinn og með tilliti til þess vil ég leyfa mér að koma inn á örfá atriði að gefnu tilefni.

Ég vil minna á að þau atriði í þessum frv.-drögum, sem Alþb. leggur allra mesta áherslu á að fá breytt og verkalýðshreyfingin á Íslandi leggur allra mesta áherslu á að fá breytt, lúta að vísitölugreiðslunum á laun verkafólks í þessu landi. Það ei öllum kunnugt að í frv.-drögunum, þessum frv.-drögum sem hv. 7. þm. Reykv. vill leggja undir þjóðaratkvgr. og fá þannig samþ., gerir sér vonir um það, þar er kveðið á um að kaupgjald megi ekki hækka, hvorki 1. júní, 1. sept. né 1. des., nema um 5% í krónutölu, hvað svo sem verðlagshækkunum í landinu líður. Þetta er að sjálfsögðu bein árás, ef af yrði, á kjarasamninga verkafólks í þessu landi og hvorki Alþb. né verkalýðsfélögin í landinu munu una slíkri ráðstöfun — ekki frekar nú en á síðasta ári. Og ég vil minna á það, að önnur atriði varðandi vísitöluna, þar sem fyrir liggur eindregin og afdráttarlaus andstaða þessara sömu aðila, bæði Alþb. og verkalýðshreyfingarinnar, lúta að því, að í frv.-drögunum er gert ráð fyrir að óbeinir skattar og niðurgreiðslur verði tekin út úr útreikningi kaupgjaldsvísitölunnar.

Ég veit ekki hvort hv. þm. Alþfl., sem hér sitja nú, eru búnir að gleyma hvernig þessi mál stóðu fyrir réttu ári, í febr. 1978. Þá var flutt hér á Alþ. frv. þar sem kveðið var á um að óbeinir skattar og niðurgreiðslur skyldu tekin út úr vísitöluútreikningnum. Alþýðusamband Íslands andmælti þá mjög harðlega þessum áformum og voru flutt af þess hálfu þau rök í málinu, þá eins og nú, að væri þetta gert gæti ein ríkisstj. hvenær sem er hækkað söluskatt eða vörugjald og þar með vöruverðið í landinu eins og henni sýndist, en þær verðlagshækkanir, sem af því leiddi, kæmu í engu fram í kaupgjaldi. Þannig gæti líka ríkisstj., hver sem hún væri, viðhaft þá aðferð að skera t. d. niðurgreiðslur niður um helming eða kannske alveg á einum degi, þannig að allt vöruverð í landinu hækkaði sem því svaraði, en kaupgjaldið ætti að haldast óbreytt í krónutölu eftir sem áður. Menn skulu ekki halda að það séu nein gamanmál hér á ferðinni eða að Alþýðusamband Íslands hafi verið að mótmæla þessum ráðagerðum eingöngu vegna þess að forsrh. var í febr. 1978 formaður Sjálfstfl., en ekki einhver annar. Svo er ekki. En hv. þm. Alþfl., hv. 7. þm. Reykv. og félagar hans, eru máske búnir að gleyma hver það var sem beitti sér harðast í þessum ákvörðunum Alþýðusambandsins fyrir réttu ári og mótaði þá afstöðu sem þá var tekin. Skyldu þeir muna það? Ef ekki, þá ætla ég að leyfa mér að minna þá á það úr þessum ræðustól. Það var forseti Alþýðusambands Íslands, Björn Jónsson, sem reyndar var kjörinn á þing fyrir Alþfl. í síðustu kosningum og ætti hér sæti ef hann hefði heilsu til. Og ég held að þeir hefðu gott af því, hv. 7. þm. Reykv. og hv. 4. þm. Vestf., að fletta upp á þeim orðum sem þá féllu af hálfu forseta Alþýðusambandsins.

Hv. 4. þm. Vestf., Sighvatur Björgvinsson, hélt hér alllanga ræðu og við könnumst mörg svolítið við málflutning hans og kemur kannske þess vegna ekkert á óvart, en næsta furðulegt er þegar þessi hv. þm. kemur og segir að það að binda kaupið fast í krónutölu, burt séð frá því hvað verðlag kynni að hækka í landinu breyti engu um kaupmáttarstigið. Menn geta að sjálfsögðu verið þeirrar skoðunar og haft leyfi til að vera þeirrar skoðunar, að kaupgjaldið hjá verkafólki í þessu landi sé of hátt og þurfi að lækka það. Það er ekkert við því að segja. Það getur verið skoðun og hana er hægt að ræða. En þegar menn koma og halda því fram, að þó að það sé bundið í lög að krónutala kaups megi ekki hækka nema um 5% á þriggja mánaða fresti, hvað sem verðlagshækkunum í landinu líður, þá breyti það engu um kaupmáttarstigið, þá eru menn að fara með hreint rugl. Og það er kannske vegna þess hversu mjög sýður í potti þeirra Alþfl.-manna að slíkt'hendir hér á Alþ.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson heldur því fram í öðru orðinu, að það þurfi að leggja byrðar á þjóðina. Gott og vel. Sjálfsagt eru flestir sammála um að byrðar þurfi að leggja á einhvern hluta þegnanna í landinu. Það hefur löngum þurft. Spurningin er: Hverjir eiga að bera þessar byrðar? Og þó að ég hafi ekki hugsað mér að fara langt út í að ræða efni þeirra frv.-draga, sem hv. þm. Vilmundur Gylfason vill leggja undir þjóðaratkv., þá vil ég minna á að í þessu frv. er ekki bara gert ráð fyrir því að kaupið hjá lægst launaða fólkinu í landinu verði bundið við 5% hækkun hvað sem verðlagsþróuninni líður, heldur er í frv. á sama tíma gert ráð fyrir að það þak, sem verið hefur á vísitölugreiðslum, það þak sem skert hefur laun þeirra hæst launuðu í landinu þannig að þeir hafa aðeins fengið sömu krónutölu og aðrir, sem hafa miðlungslaun, en ekki sína fullu prósentu, — það þak verði afnumið, sem þýddi stórkostlega kjarabót fyrir þá hæst launuðu í þessu landi, eins og t. d. okkur sem sitjum á hinu háa Alþingi.

Þetta vill hv. 7. þm. Reykv., Vilmundur Gylfason, og félagar hans kalla að leggja byrðar á þjóðina, væntanlega þá á þann hátt sem þeir telja réttlátan, og hafa svo mikið við að nauðsynlegt sé að gefa þjóðinni kost á að binda sig sjálfa í þessum efnum í þjóðaratkvgr. Ég geng út frá því, að þeir leggi þessa till. fram vegna þess að þeir geri ráð fyrir að hún muni njóta meirihlutastuðnings og verði samþ.

Hv. 4. þm. Vestf., Sighvatur Björgvinsson, leyfði sér að fara með hinar grófustu falsanir varðandi afstöðu Alþýðusambands Íslands til vísitölumálanna. Það hefur legið fyrir frá upphafi og það liggur fyrir enn, að verkalýðshreyfingin á Íslandi er til viðtals um að tengja viðskiptakjörin með nokkrum hætti við vísitölugreiðslur. Hún lætur sig miklu skipta hvernig þetta verður gert, ef af yrði, og hún leggur höfuðáherslu á það, eins og Alþb., að þetta komi því aðeins til greina að kaupgjaldið fylgi viðskiptakjörum, alveg jafnt annars vegar þegar viðskiptakjörin fara versnandi og hins vegar þegar þau fara batnandi. En ýmsar þær till., sem fram hafa komið, — ég tek þó fram, að það er ekki í frv. hæstv. forsrh., — gerðu ráð fyrir að kaupið ætti aðeins að lækka þegar viðskiptakjörin versnuðu, en ekki að hækka með sama hætti sjálfkrafa þegar þau bötnuðu. Það er full von til þess, að samkomulagi sé hægt að ná um tengingu verðbótavísitölu við viðskiptakjör, ef ákvæði gilda jafnt á báða vegu. En þegar hv. þm. Sighvatur Björgvinsson vill halda því fram, að Alþýðusamband Íslands hafi fyrr í þessum mánuði gert samþykkt, sem hægt sé að túlka svo að það hafi nánast fallist á að taka óbeina skatta og niðurgreiðslur út úr vísitölunni, þá er það alger fölsun, vegna þess að í þeirri samþykkt Alþýðusambandsins, sem hann las upp úr þessum ræðustól áðan, er aðeins sagt á þá leið, að Alþýðusambandið geti hugsað sér að þetta mál verði kannað, en geti þó alls ekki mælt með þessari leið, nema því aðeins að það fái fullgilda tryggingu fyrir því að vísitölugreiðslur á laun verði ekki lakari en áður. Og hver á sú trygging að vera? Menn geta gjarnan leitað að henni. Gerið þið svo vel! Hv. þm. Alþfl. geta leitað að henni bæði innanlands og utan, en það er heldur ólíklegt að þeir finni hana. Það væri fróðlegt að heyra um hugmyndir þeirra í þessum efnum, en þeir eru nú farnir úr salnum.

Ég ætla ekki að svara málflutningi þessara hv. þm. lið fyrir lið. Til þess er ekki ástæða, en væri þó auðvelt verk. En ég vil aðeins að lokum segja það, að hv. þm. Alþfl. töluðu mikið um það á síðasta ári, sérstaklega fyrir kosningar, að þeir vildu koma hér á því sem þeir kölluðu kjarasáttmála, sem átti að vera samningur ríkisstj., hver sem hún væri, við verkalýðshreyfinguna í landinu. Þetta er sjálfsagt fallegt orð, og þeir notuðu það mikið. En þeir voru alltaf og hafa verið til þessa dags heldur fámálir þegar þeir hafa verið krafðir sagna um hvað ætti að felast í þessum kjarasáttmála. Má vera að það séu að þeirra dómi þau atriði sem okkur greinir nú hvað harðast á um, sem þeir vilja leiða í lög og að verkalýðshreyfingunni snúa, en við neitum að leiða í lög. Þau hafa verið rifjuð upp og það er ekki þörf á að tína þau hér öll til. Menn geta flett í blöðunum. Menn geta lesið m. a. samþykkt miðstjórnar Alþýðusambandsins frá fundinum í gær. En öll þessi fallegu orð um kjarasáttmála, um samráð við verkalýðshreyfinguna, eru æðifljót að breytast þegar í ljós kemur að þessir hv. þm. geta ekki snúið verkalýðshreyfingunni í landinu utan um sjálfan sig eins og skopparakringlu. Og þá koma upp aðrir orðaleppar, eins og hv. þm. Vilmundur Gylfason leyfði sér að nota áðan úr þessum ræðustól þegar hann kemst svo að orði að þetta samráð ríkisstj. við verkalýðshreyfinguna væri nú orðið að „pólitískum ógnunum“. Var það ekki hæstv. forsrh. sem óskaði eftir því að Alþýðusamband Íslands léti í ljós umsögn sína um þau margumræddu frv.-drög? Og er nokkur maður í vafa um að hæstv. forsrh. hafi átt von á því og hafi vitað það fyrir fram, að Alþýðusamband Íslands mundi hafa sínar aths. fram að færa og tilmæli um vissar breytingar á ýmsum greinum? Ég held varla. En í munni hv. 7. þm. Reykv. heita það pólitískar ógnanir þegar miðstjórn Alþýðusambandsins leyfir sér að bera fram óskir um breytingar á till. Hverjum er verið að ógna? Ja, það er best að aðrir svari því en ég. Það er gott að menn velti því fyrir sér.

Það er að sjálfsögðu svo, að hvaða aðili sem er, einstaklingar og félagasamtök, hefur fyllsta rétt til að tjá sig um svo mikilvæg mál sem hér er um að ræða, láta í ljós þá skoðun að þessari eða hinni greininni í frv.-drögunum þurfi að breyta á þennan veginn eða hinn, eftir því sem skoðanir manna falla til. Í því felst að sjálfsögðu engin pólitísk ógnun. Það er hins vegar svo, að þegar ólíkir aðilar vinna saman kemur oft upp það ástand, að menn eru ekki fyllilega sammála. Slíku fylgja auðvitað deilur og í hverju tilviki verður á það að reyna, hvort menn að lokum ná samkomulagi eða ekki. Og ég vil segja að lokum., að ég hef þá trú, hvort sem hún á eftir að reynast rétt eða ekki, að hæstv. forsrh. hafi frá upphafi reiknað með að umsögn Alþýðusambandsins um þessi frv.-drög yrði ekkert mjög ólík því sem nú hefur reynst. Ég vil líka treysta því, meðan annað kemur ekki í ljós, að hæstv. forsrh. muni hér eftir sem hingað til í þessu stjórnarsamstarfi einsetja sér að hafa fyllsta samráð við verkalýðshreyfinguna í landinu og taka tillit til þeirra atriða sem hún leggur mesta áherslu á.

Næstu dagar og vikur munu að sjálfsögðu leiða í ljós hvort mér verður að þessari minni trú eða ekki. Ef það bregst, ef þeir félagar, sem hér hafa staðið fyrir upphlaupi í dag, reynast standa nær hæstv. forsrh. þegar á reynir en verkalýðshreyfingin í landinu, þá verður það að koma í ljós. En þá tekur líka við í landinu annað stjórnarfar en það sem við höfum búið við undanfarið hálft ár.