27.02.1979
Sameinað þing: 58. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2820 í B-deild Alþingistíðinda. (2230)

Umræður utan dagskrár

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Það er gamall og góður siður á Íslandi að haldið sé upp á sprengidaginn. Ég sé ekkert á móti því að það sé líka gert á Alþ. Það veitir sannarlega ekki af að gera sér dagamun, þegar löng og ströng fasta fer í hönd.

Við stöndum nú í þeirri einkennilegu stöðu, að verið er að fjalla um mál sem Alþ. hefur nýlega tekið ákvörðun um að ekki skuli vera á dagskrá þessa fundar. En vegna þess að málið er tímabundið sér hæstv. forseti sér þann kost vænstan að láta allt að einu ræða um málið utan dagskrár. Þykir mér það í sjálfu sér rétt ráðstöfun af hálfu hæstv. forseta. Það má vera að hv. Alþb.-menn telji þá, sem svo hugsa, hafa tekið snert af almanaksveikinni sem svo er kölluð og talin hrjá fyrst og fremst Alþfl.-menn.

Nú eru tæpir 30 klukkutímar þangað til 1. mars rennur upp, og þessi till., sem við höfum verið að ræða um í dag, er tímabundin. Flm. þessarar till. hefur hlotið ámæli, að ég held frá öllum ræðumönnum hér í dag, fyrir að hafa sett fram fáránlega till. Afstaða mín er sú, að þessi till. kunni e. t. v. að vera að einhverju leyti um fáránlegt efni, en engu að síður er hún, þegar á allt er litið, eðlileg miðað við aðstæður og sálatástand það sem hlýtur að ríkja hjá Alþfl.-mönnum eftir allt það sem á undan hefur gengið í vetur, eftir að hver merkisdagurinn af öðrum hefur liðið án þess að staðið yrði við þau orð sem ætlað var að efna á tilteknum dögum.

Þessi till., sem fjallar um þjóðaratkvgr., vekur einkennileg viðbrögð; hjá Alþb.-mönnum fyrst og fremst. Það eru þeir menn sem tala um nauðsyn þess að hafa samráð við alþýðusamtökin í landinu. En þá meina þeir ekki almenning,. þeir meina nokkra pólitíska forustumenn alþýðusamtakanna í landinu. Þeir vilja sem sé hafa miklu lengri tíma til að kokka málið, láta það liggja í pæklinum svo að unnt sé að ræða betur við þessa tiltekna forustumenn. Þeir vilja samráð við þessa forustumenn. Samráð við þjóðina sjálfa varðar þá engu.

Þessi till., sem flm. hefur mjög hlotið ámæli fyrir, fjallar einmitt um samráð við þjóðina. Ástæðan til þess, að mér finnst þessi till. eðlileg og skiljanleg miðað við aðstæður, er sú, að þetta er till. þm. sem hefur gefist upp, sem hefur misst trú á þeim sem hann ætlaði að reyna að styðja. Það er ljóst að þetta er till. þm. sem hefur gefist upp gagnvart ríkisstj. sem hefur gefist upp líka. Þetta er yfirlýsing um að ríkisstj. landsins hafi gefist upp og nú verði almenningur að taka í taumana, og það er rétt. Eftir umr. í dag er deginum ljósara, að það getur ekkert verið rökrétt í stjórnmálum Íslands núna nema að almenningur kveði upp sinn dóm.

Menn hafa mælt hér hraustlega. Formaður þingflokks Alþfl. sagði: Alþfl. er reiðubúinn til þess að láta þjóðina dæma. — Formaður þingflokks Alþb. sagði líka: 1. mars höfum við tapað. — Svo bætti hann við: 4%. En það er sama. Það er skoðun hans að það, sem tapast hafi, séu einungis 4 prósentustig. Það, sem raunverulega liggur fyrir, er að ríkisstjórnarflokkarnir hafa tapað í þeirri glímu sem þeir stofnuðu til þegar þeir tókust á hendur að reyna að stjórna þessu landi.

Hv. þm. Kjartan Ólafsson mælti á þá lund, að hann komst í raun og veru að sömu niðurstöðu. Hann sagði: Ef sameiginleg niðurstaða fæst ekki er stjórnin fallin. — Mér sýnist það líka vera ljóst. Ég held að það hljóti að vera fullreynt.

Fyrir nokkru hlustaði ég og margir fleiri landsmenn á kvöldútvarpið. Þar komu til viðtals menn sem miklar vonir voru bundnar við væntanlega, því að það voru þrír ráðh. sem áttu að sjóða saman frv. sem fæli í sér heildarúrlausn efnahagsmála. Þar kvað við nýjan tón. Ég verð að segja, þó að ég sé ekki sérlega hrifin af Framsfl. almennt, að mér finnst alltaf skemmtilegt þegar einhverjum flokki Alþ. fer fram, og svo var um Framsfl. að þessu sinni. Hingað til hafa verið þekkt orðtæki eins og „að fara hina leiðina“, „já, já — nei, nei“ afstaða o. fl., en fréttamaður Ríkisútvarpsins spurði hæstv. dómsmrh. hvernig tekist hefði að koma til móts við Alþfl. í þessum efnahagsmálatill. eða frv., eins og það var kallað, og hæstv. dómsmrh. sagði: Ja, það er eins og gerist í stjórnmálum. Þegar við fundum lausn fórum við bil beggja. Út úr því kom málamiðlun eins og gerist í lýðræðinu. — Við þekkjum þessar skýringar. Síðan kom erfiðari spurning. Hæstv. dómsmrh. var spurður: Hvernig tókst ykkur að koma til móts við Alþb. og þess sjónarmið? Þá sagði dómsmrh. þetta, sem mér finnst mjög eftirminnilegt og lærdómsríkt: Ja, við höfum reynt að fara bil — hann ætlaði að segja: bil beggja, en ráðh. er stærðfræðilega sinnaður, svo að hann gat ekki sagt það, þegar um þrjá var að ræða, svo að hann sagði: Við fórum bara leið allra. — Þetta frv. var einfaldlega leið allra, svo að það er von að hinir bjartsýnu ungu þm. Alþfl. vilji óhræddir leggja þetta frv. undir dóm þjóðarinnar, er þarna var farin leið allra. Hins vegar þykjast hv. þm. og ráðh. Alþb. sjá annan flöt á þessu máli, sem sjálfsagt er réttur frá þeirra sjónarmiði, að þetta sé eftir allt saman ekki allra leið. Það hafi komið töluverð lykkja á þessa leið og nú sé ekki lengur um að ræða leið allra, heldur leið sem Alþb. er ekki fært að ganga. Þess vegna verður óttinn við dóm almennings sterkasta aflið í huga Alþb. nú og þeir vilja fyrir engan mun láta fram fara þjóðaratkvgr. eða kosningar. Ég legg nefnilega þessa till. að ýmsu leyti að líku við almennar kosningar. Ég ætla að skýra það nánar.

Ástæðan er þessi: Efnislega getur ekkert komið út úr þjóðaratkvgr. um þetta margnefnda frv., sem aldrei hefur verið lagt fyrir Alþ., nema ákvörðun um hvort á að leggja málið fyrir Alþ. eða ekki. Svo örvæntingarfullur er hv. þm. Vilmundur Gylfason, flm. þessarar till., orðinn, svo gersamlega vonlaus um að ríkisstj. leggi nokkurn tíma efnahagsmálafrv. fyrir Alþ., að hann vill skjóta því til þjóðarinnar, spyrja þjóðina hvort ríkisstj. eigi að leggja fram frv. eða ekki. Varla getur spurningin öðruvísi orðið, því að fjalla verður um frv. á Alþ. hver sem niðurstaðan verður. Þar verður málið, hvort sem það verður í einu frv. eða mörgum, að fá sínar þrjár umr. í hvorri d., eins og venja er til eftir þingsköpum. Að þessu leyti til skil ég þá hugsun flm., sem að baki liggur. Þetta byggist á vonleysi og örvæntingu. Von hv. þm. Vilmundar Gylfasonar er fólgin í því, að þjóðin telji að í þessu frv. sé farin allra leið — eða a. m. k. velflestra — og að þjóðin samþykki að ríkisstj. eigi að leggja þetta frv. fyrir Alþ. En þá kemur upp hinn stóri galli á þessari hugmynd og þessari till. til þál., þ. e. kostnaðarhliðin. Óhjákvæmilegt er að önnur þjóðaratkvgr. verði að fara fram, ef það er einungis þetta sem þjóðin er spurð um. Það er vegna þess að ef þjóðin segir já, þá þarf að leggja frv. fyrir Alþ. og það að fá sína meðferð þar. Ef þjóðin segir nei verður ríkisstj. að segja af sér og þjóðin að ganga á ný til kosninga. Ef þjóðin segir já og frv. er lagt fyrir Alþ. sjáum við í dag að ríkisstj. nær ekki samstöðu. E. t. v. dregst þá næsta þjóðaratkvgr. eða almennar kosningar um nokkra mánuði. Þess vegna er miklu einfaldara að ganga heldur hreint til verks af þeirri ástæðu sem um getur í niðurlagi grg. þessarar þáltill. og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er skoðun flm., að þar sem þessar efnahagstill. hafa verið í fæðingu um margra mánaða skeið og liggja nú fyrir í fullmótuðu frv., þá sé ástæðulaust að halda áfram því skæklatogi, sem stundað hefur verið nú um nokkra hríð. Einfaldara er að spyrja þjóðina beint og milliliðalaust.“

Ég hefði viljað halda áfram þar sem punktur var settur í grg. og segja: Einfaldara er að spyrja þjóðina beint og milliliðalaust, hvort ríkisstj. skuli fara frá og nýjum flokkum, nýju þingi, nýrri ríkisstj. verði falin forustan — eða á að halda áfram því sem flm. þessarar till. kallar svo réttilega skæklatog?

Því miður sýnist mér niðurstaðan í þessum umr. vera dapurlegri en svo, að við getum látið marga daga líða án þess að kveða upp úr með að kosningar skuli fara fram og það fyrr en síðar. Ég segi: því miður. Ég hefði gjarnan viljað að unnt hefði verið að finna einhverja lausn á ýmsum vandamálum sem við blasa og krefjast skjótrar lausnar. En mér sýnist, eins og raunar flm. þessarar þáltill. um þjóðaratkvgr., að það sé gersamlega vonlaust, eina úrræðið sé að ríkisstj. hafi ekki lengur einungis samráð við forustu alþýðusamtakanna, við forustu samtaka vinnumarkaðarins, heldur verði og höfð samráð við sjálfa þjóðina, það verði borið undir þjóðina hverjir skuli fara með stjórn, því að þessi ríkisstj. hefur sannað að hún getur það ekki.