27.02.1979
Sameinað þing: 58. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2828 í B-deild Alþingistíðinda. (2233)

Umræður utan dagskrár

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. síðasta ræðumanni, að úr því sem komið er á vantrauststill. á hæstv. ríkisstj. sannarlega rétt á sér og er eðlilegt framhald af þeim umr. sem fram hafa farið í dag.

Umr. þær, sem barið hafa eyru okkar í dag, þar sem stuðningsmenn ríkisstj. hafa enn einu sinni deilt miskunnarlaust hver á annan og ráðh. ekki látið sitt eftir liggja, vekja hjá mér þá spurningu, hvort ríkisstj. sé í raun og veru starfhæf. Er ríkisstj. í raun ekki fallin? Mér dettur í hug lítil saga sem ég heyrði fyrir löngu. Það getur vel verið að einhverjir fleiri hafi heyrt hana, en hún er svo hljóðandi:

Læknir nokkur kom inn í baðstofu í sjúkravitjun og sat þá eiginkonan á rúmstokki eiginmannsins og reyndi að koma ofan í hann meðali. Þá sagði læknirinn: „Hann er dáinn, væna mín.“ „Það getur vel verið að hann sé dáinn,“ sagði konan, „ en það er líka þrjóska.“

Í mínum huga er hæstv. ríkisstj. óstarfhæf, hún er dauð. Það er aðeins þrjóska, má segja, sem eftir er. Forsrh. reynir að troða í hana pólitísku meðalasulli sem heldur henni uppi. Mér er næst að halda að hann einn geri sér ekki ljóst að ríkisstj. hefur misst traust þjóðarinnar. Og eins og komið hefur fram í þessum umr. hefur hún einnig misst traust þeirra sem næst henni standa. Það virðist ekkert sameina stjórnarflokkana, en margt virðist sundra þeim. Ríkisstj., þessari skattpíningarstjórn, her skylda til að segja af sér. Hún hefur hvorki starfsfrið né starfsgrundvöll. Nýjar kosningar hljóta að vera á næsta leiti, enda er það þjóðinni fyrir bestu og þjóðinni nauðsynlegt. Því miður er forsrh. fjarverandi, en við hann hefði ég viljað segja: Þér hafið ekki samstarfsmenn, þér verðið að vakna og velja — velja milli áframhaldandi öngþveitis í íslenskum stjórnmálum eða nýrra kosninga sem gefa þjóðinni kost á nýrri og farsælli ríkisstj. fyrir okkar kæra land.

Það hefur sýnt sig enn einu sinni, að þjóðin þolir ekki vinstri stjórn frekar en svo oft áður. Ég ítreka: Vaknið, ráðh. Íslands, fljótið ekki lengur sofandi að feigðarósi.