28.02.1979
Efri deild: 61. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2838 í B-deild Alþingistíðinda. (2250)

202. mál, tímabundið olíugjald til fiskiskipa

Frsm. (Stefán Jónsson):

Herra forseti. Svo sem hv. dm. er kunnugt bar mál þetta skjótt að, sem hæstv. sjútvrh. er þó saklaus af. Við höfðum skamman tíma til umfjöllunar í n. í dag, en tókst þó að fá til viðtals við okkur forsvarsmenn sjómannasamtaka og útvegsmanna, Aflatryggingasjóðs og Fiskveiðasjóðs og fræddumst nokkuð af þeim ágætu mönnum á skömmum tíma.

Því er ekki að neita að sjálfur hefði ég gjarnan viljað, og hið sama veit ég að gildir um hv. þm. Geir Gunnarsson, hann hefði einnig viljað að við hefðum getað tekið 2. gr. frv. til sérstakrar athugunar og leitað annarra fanga en þar eru ráðgerð til tekjuöflunar. Forsvarsmenn sjómannasamtakanna hafa andmælt þessari grein, a. m. k. forsvarsmenn nokkurs hluta sjómannasamtakanna, þótt aðrir geri minna úr. En vegna þess, hversu ástatt er með tímann hjá okkur, einnig vegna þess, að í ljós kom að samkomulag gat náðst í sjútvn. um að mæla með samþykkt frv. í heild með þeim hætti og ekki er um stærri fjárhæðir að ræða en raun ber vitni, þá létum við þetta gott heita og samkomulag varð í n. um að mæla með því, að frv. verði samþykkt með þeirri breytingu einni, að 4. gr. orðist svo: „Lög þessi öðlast gildi 1. mars 1979 og gilda til loka þess árs.“