01.03.1979
Neðri deild: 56. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2916 í B-deild Alþingistíðinda. (2307)

203. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Frsm. meiri hl. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Sjútvn. Nd. hélt fund um frv. þetta í dag og fékk til viðræðna við sig fulltrúa Landssambands ísl. útvegsmanna, Sjómannasambands Íslands og Fiskveiðasjóðs.

N. varð sammála um að gera till. um breytingu á 3. gr. frv., sem er á þskj. 412. Efnisatriði þeirrar brtt. er að þær breytingar, sem gerðar eru með 1. og 2. gr. frv., verði ekki í gildi lengur en frá febrúarmánuði 1979, eins og frv. gerði ráð fyrir, til áramóta 1979, frá og með 1. jan. 1980 taki síðan gildi eldri ákvæði laga nr. 5 frá 1976.

Þessi breyting er gerð vegna þess að í frv., sem er 202. mál þessarar d. og þetta frv. er fylgifrv. með, er gert ráð fyrir að breytingar samkv. því gildi aðeins til n. k. áramóta. Þess vegna telur sjútvn. Nd. að eðlilegt sé að þær breytingar, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, hafi sama gildistíma og það frv. sem þetta frv. er flutt sem fylgifrv. við.

Að öðru leyti klofnaði n, um afstöðu sína til frv. Meiri hl. n., sem auk mín er myndaður af hv. þm. Páli Péturssyni, Lúðvík Jósepssyni, Garðari Sigurðssyni og Eiði Guðnasyni, leggur til að frv. verði samþ. með þessari breytingu, sem ég greindi frá áðan og n. stendur öll að, en minni hl. sjútvn. mun skila séráliti.