31.10.1978
Sameinað þing: 11. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í B-deild Alþingistíðinda. (232)

323. mál, málefni áfengissjúklinga

Fyrirspyrjandi (Bragi Níelsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. kærlega fyrir þau svör sem hann veitti mér og þm. í sambandi við þessar spurningar mínar, og þó að ég vilji ekki gera neinar verulegar aths. við þau svör, þá er sumt af því, sem þar kemur fram, mjög athyglisvert. Það er mjög athyglisvert, að á þessu ári, frá 1. jan. til 1. okt., skuli yfir 200 manns þurfa að leita til útlanda til meðhöndlunar á sjúkdómi sínum. Þetta er ekki síður athyglisvert þar sem ég hef upplýsingar um að ríkisspítalarnir hafi t.d. vistrými á Kleppi fyrir 17 sjúklinga, sem er notað sem svokölluð afvötnunardeild. Þá er vistrými fyrir 23 í Víðinesi og 46 í Gunnarsholti. Þetta gerir samtals 86 vistrými. En hinar frjálsu stofnanir eru með meira, þær eru með 108 vistrými. Forsvarsmenn SÁÁ segja mér, að þeir séu stöðugt með á biðlista núna 30–40 sjúklinga þrátt fyrir að nú nýlega hafi tekið til starfa á þeirra vegum hæli að Sogni, þar sem eru 26 vistrými. Þeir hafa hins vegar haft hug á að bæta úr þessu vandamáli, sem er vistun sjúklinga í Bandaríkjunum, sem mér skilst að kosti í dag um 750 þús. kr. á mann. Þeir hafa lengi haft hug á skólabyggingu, sem er í Krýsuvík, og telja að ekki skorti á nema um 100 millj. kr. til þess að fá þar húsnæði, og aðstöðu til þess að þar verði hægt að vista 20–30 sjúklinga til afvötnunar og 40–50 sjúklinga til framhaldsmeðferðar. Þetta telja þeir að mundi spara allt að því 200–300 millj. kr. á ári. Þetta með öðru álít ég að upplýsi okkur um það, eins og ráðh. sagði, að þeim peningum, sem er varið til þess að kosta sjúklinga erlendis, væri betur varið til uppbyggingar þjónustunnar hér á landi.