02.03.1979
Efri deild: 64. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2924 í B-deild Alþingistíðinda. (2328)

56. mál, Hæstiréttur Íslands

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Þegar þetta mál kom hér fyrst til umr. lét ég í ljós ýmsar efasemdir um að það spor, sem hér væri stigið til breytingar á Hæstarétti Íslands, væri rétt og sú röksemdafærsla, sem væri að finna í grg. frv., styddi alls ekki þau efnisatriði sem í frv. eru. Í störfum n. lét ég í ljós áframhaldandi efasemdir um það, að þetta frv. til l. um breyt. á l. um Hæstarétt Íslands ætti á þessu stigi erindi til þess að breyta skipan dómsins. Eftir því sem lengra hefur liðið á meðferð málsins hef ég sannfærst æ meir um að það sé ekki rétt á þessu stigi að fjölga dómurum í Hæstarétti. Ég hefði kosið að hæstv. dómsmrh. væri viðstaddur þessa umr:, en hann er nú fjarverandi, situr ekki á þingi, og mér er ekki kunnugt um hver fer með málefni dómsmála nú, þannig að ég á erfitt með að kalla til viðkomandi ráðh. En mér finnst að það mál, sem hér er til umr., sé svo veigamikið að það geti ekki orðið afgr. hér frá d. eða þinginu án þess að nánari skýringar o röksemdafærslur komi fram hjá hæstv. dómsmrh. Ég mun þó núna vegna fjarveru ráðh. þess, sem fer með dómsmál, samt sem áður gera grein fyrir meginröksemdum mínum fyrir andstöðu við þetta frv. í núverandi búningi.

Í fyrsta lagi lét ég — (Forseti: Má ég vekja afhygli hv. ræðumanns á því, að verið er að freista þess að fá þann hæstv. ráðh., sem gegnir störfum dómsrh., til að ganga í salinn.) Já, ég þakka fyrir. (Gripið fram í: Nú þykir mér hv. ræðumaður hugsa sig lengi um.) Hv. ræðumaður bíður spenntur eftir að vita hvaða ráðh. birtist í dyrunum, til að sjá hvaða ráðh. fer með dómsmál um þessar mundir. En ef hæstv. forseti óskar, þá get ég haldið áfram ræðu minni. (Forseti: Hv. þm. er frjálst að halda áfram.) Ég þakka fyrir.

Þegar þetta mál kom fyrst til umr. henti ég á það, að sú fjölgun, sem lagt er til að verði í Hæstarétti, og sú skipting á dómnum í undirdóma, sem fjölgunin gerir mögulega, feli í sér viss þáttaskil í eðli dómsins. Það er greinilegt, að sú hugsun liggur að baki þessu frv., að Hæstiréttur eigi í æ ríkari mæli en hingað til að fara að starfa í einstökum deildum, hann eigi að starfa í tveimur þriggja dómara deildum. Það er meginröksemdin fyrir því, að talið er að þessi breyting flýti gangi dómsmála.

Ég vek hins vegar athygli á því, að slík skipan skapar margvíslega möguleika, ef ekki hættur á því að ólíkir túlkunarskólar kæmu upp í réttinum um gildi laga og réttmæti úrskurða hverju sinni. Um þetta hafði ég nokkur orð í framsöguræðu, sem ég tel ekki ástæðu til að ítreka hér, en vil þó strax í upphafi geta þess sem fyrstu ástæðu varúðarorða minna gagnvart breytingu af þessu tagi, að þarna er stigið mun stærra spor til breytinga á eðli Hæstaréttar en menn almennt gera sér grein fyrir og fram kemur í grg. frv.

Meginröksemd stjórnvalda og þeirra, sem að þessu frv. standa, fyrir fjölgun dómara í Hæstarétti er sú, að málum hafi fjölgað svo í réttinum að nauðsynlegt sé að fjölga dómurum ef eigi að hraða meðferð dómsmála. Nánari athugun á fjölda mála fyrir réttinum á síðustu árum leiðir í ljós að þessi grundvallarforsenda frv. er ekki rétt. Árið 1974 var stigið það spor að dómurum í Hæstarétti var fjölgað í sex. Síðan þá hefur fjöldi mála í réttinum verið á þessa leið: 1974 223 mál, 1975 185 mál, 1976 244 mál og 1977 240 mál. M. ö. o.: málum hefur ekki fjölgað að neinu ráði og meira að segja á einu ári, 1975, hefur orðið allveruleg fækkun mála. Það er því ljóst að fjölgun dómara úr 5 í 6 árið 1974 hefur ekki haft nein áhrif á að hraða málsmeðferð fyrir réttinum á þeim fjórum árum sem síðan eru liðin. Dómararnir hafa verið fleiri. Málunum hefur ekkert fjölgað. Í frv. eða í umfjöllun þess í n. komu ekki fram neinar röksemdir fyrir því, að fjölgun um einn dómara í viðbót kynni að hraða málsmeðferð enn frekar, nema það sé ætlunin, að rétturinn fari í mjög ríkum mæli að starfa í tveimur deildum, að deildaskiptur Hæstiréttur verði miklu tíðara starfsform en hefur verið til þessa. Sú grundvallarforsenda, að málum hafi fjölgað í réttindum, finnst mér alls ekki koma þarna fram, og árangurinn af fjölgun dómara 1974 hefur alls ekki orðið sá sem menn vilja vera láta.

Ég lýsti því jafnframt við 1. umr. þessa máls, að það væri veruleg hætta á því, að hér væri verið að gera tilraun til að gera umbætur í réttarfarskerfi landsmanna með því að byrja á öfugum enda, ef svo mætti orða það. Miklu nær væri að fara aðrar leiðir til úrbóta til að hraða meðferð dómsmála og það væri mjög villandi, ef ekki beinlínis hættulegt, að leggja mjög þunga áherslu á að fjölga bara dómurum í Hæstarétti.

Í þessu sambandi vil ég nefna þrjár aðrar leiðir til að hraða meðferð dómsmála hér á landi. Tvær þeirra tengjast Hæstarétti sjálfum og hin þriðja felur í sér nýtt dómstig.

Í fyrsta lagi vil ég koma því á framfæri hér, að Hæstiréttur hefur á undanförnum árum hvað eftir annað sótt um sérstaka fjárveitingu til fjárveitingavaldsins, fjmrn. væntanlega, til þess að hægt sé að ráða aðstoðarmenn, löglærða starfskrafta, í réttinn til þess að aðstoða dómara við gagnaöflun, til að fletta upp í dómsskjölum, dómabókum, lagasöfnum og öðrum gögnum sem nauðsynleg eru til þess að kveða upp úrskurði í málum. Fjárveitingavaldið, að því er mér skilst fjmrn., hefur ár eftir ár neitað að verða við þessari beiðni réttarins. Ég tel að það sé mjög varhugavert að neita Hæstarétti um aðstoðarfólk, sem alls staðar í nágrannalöndum okkar er talinn nauðsynlegur þáttur við dómsstörf af þessu tagi, en fara í staðinn þá leiðina, sem var gert 1974 og virðist eiga að gera enn, að fjölga dómurum í réttinum sjálfum og skipta honum í deildir. Ég held að það hefði verið miklu eðlilegra og réttara og í samræmi við þær starfsvenjur, sem tíðkast á okkar tímum, að gera Hæstarétti kleift að ráða sér það aðstoðarfólk sem dómstóllinn óskar eftir. Ég tel það satt að segja mjög varhugaverða stefnu af fjárveitingavaldi að neita Hæstarétti ár eftir ár um þá starfskrafta sem hann óskar eftir. Ég tel að það geti skapað margvíslegar hættur fyrir réttarfar í landinu, ef misskilin sparnaðarstefna hjá fjmrn. og öðrum fjármálayfirvöldum þrengir svo að æðsta dómstóli landsins að eina ráðið til úrbóta eftir nokkur ár verði að breyta um eðli dómstólsins, fjölga dómurum og skipta honum. Það hefði verið miklu réttara að verða við óskum dómstólsins sjálfs um aðstoðarfólk, um viðbótarstarfskrafta, en að fara sí og æ þá leið sem stjórnvöld virðast ætla að fara nú. Ég hefði talið réttara, áður en þetta spor væri stigið til breytinga á eðli réttarins, að gefa honum kost á að fá það aðstoðarfólk sem dómararnir hafa ítrekað óskað eftir á undanförnum árum.

Í öðru lagi má benda á það, að frá fyrri tímum tíðkaðist í Hæstarétti mjög langt réttarhlé, u. þ. b. þriggja mánaða réttarhlé á ári, þar sem dómurinn starfar ekki og dómararnir eru í fríi, ef svo má orða það. Miðað við almenna vinnuhætti í okkar þjóðfélagi finnst mér á margan hátt óeðlilegt að dómstóllinn, einkum og sér í lagi ef svo brýna nauðsyn ber til að hraða afgreiðslu mála sem látið er liggja að í grg. þessa frv., haldi áfram uppteknum hætti frá fyrri hluta þessarar aldar að taka sér þriggja mánaða starfshlé á ári. Það væri þá miklu nær að breyta starfsháttum réttarins á þann veg, að þar væri eðlilegt sumarleyfi eins og í öðrum stofnunum í þessu landi, en fjórðungur ársins væri ekki dauður starfstími í réttinum. Það má geta þess, að miðað við núverandi dómarafjölda og það, að eingöngu væri um mánaðar sumarleyfi að ræða eins og í öðrum opinberum stofnunum, jafngildir sú viðhót, sem þannig fengist, þeim viðbótarmanni sem hér er verið að óska eftir. Með breyttum starfsháttum dómaranna sjálfra og með ráðningu þess aðstoðarfólks, sem Hæstiréttur hefur óskað eftir, tel ég miklu eðlilegra að reyna að hraða afgreiðslu mála í Hæstarétti en að fara einfaldlega þá leið enn og aftur að fjölga sjálfum dómurunum.

Þriðja og kannske veigamesta ástæðan er hins vegar sú, að erfiðleikar í meðferð dómsmála, seinagangurinn, stafa að mínu viti alls ekki af þeim atriðum sem látið er að liggja að knýi á um fjölgun dómara í Hæstarétti, heldur fyrst og fremst að það vantar öflugt og sterkt nýtt dómstig, hið svokallaða lögréttudómstig, fjórðungsdóma, sem séu öflugar og virkar dómsstofnanir og geti kveðið upp fullnaðarúrskurði í miklum fjölda þeirra mála sem nú ganga beint og milliliðalaust úr héraði og fyrir réttinn. Með því að setja á stofn slíkt nýtt dómstig, slíka lögréttuskipan sem verið hefur í undirbúningi, væri miklu líklegra að hægt væri að minnka streymi mála til réttarins, vegna þess að ef lögréttudómstigið væri vel mannað mætti vænta þess, að innan tíðar mundi það hljóta þá virðingu með þjóðinni að þeir úrskurðir, sem þar væru uppkveðnir, væru af málsaðilum taldir fullnaðarúrskurðir. Þess vegna óskaði ég eftir því við 1. umr. þessa máls að fá nánari upplýsingar um það, hvað liði undirbúningi og endurframlagningu lögréttufrv. Það var upplýst í allshn., að verið væri að vinna að undirbúningi þess, en ekki lá neitt ljóst fyrir um hvort málið yrði lagt fram nú á þessu þingi.

Mér finnst því allt stefna í það, að hið eina, sem gert hafi verið á þessu ári, á síðasta ári og árinu þar á undan, fyrir utan nýskipan rannsóknarlögreglunnar, en hvað snertir dómstólaskipunina sjálfa í landinu,— hið eina til að hraða gangi dómsmála sé að fjölga í Hæstarétti. Það tel ég alranga stefnu og — eins og ég sagði áðan — gersamlega tekið í öfugan enda dómstólaskipunarinnar í landinu. Nauðsynlegt er að mínum dómi, að allveruleg festa sé um þennan æðsta dómstól í landinu, og mjög varhugavert að vera að hreyfa eðli hans til og frá, fjölga í dómstólnum, skipta honum í starfsdeildir o. s. frv., eingöngu á grundvelli röksemda um seinagang í dómstólakerfinu, þegar liggur ljóst fyrir að rétturinn hefur sjálfur óskað eftir ýmsum öðrum leiðum, þegar liggur ljóst fyrir að fjölgun dómara í sex fyrir fjórum árum hefur ekki borið þann árangur sem menn ætluðu, og þegar liggur þar að auki ljóst fyrir að með ýmsum breytingum á starfsháttum dómaranna sjálfra væri hægt að koma á allverulegum hreytingum.

Ég vil taka það skýrt fram, að það er ekki ætlun mín að fara að efna hér til pólitískra deilna um Hæstarétt, — ég vil taka það alveg skýrt fram, — og ég var þess vegna lengi vel að velta því fyrir mér, hvort ég ætti að láta afgreiðslu málsins afskiptalausa og sitja hjá við afgreiðslu þess. Ég var fjarverandi lokaafgreiðslu í n. En mér finnst, eftir því sem ég kynni mér þetta mál nánar, sífellt fleiri og fleiri röksemdir mæla gegn því, að þessi leið sé farin og þess vegna sé nauðsynlegt að röksemdir komi fram hér í deildinni, ábendingar um aðrar leiðir séu undirstrikaðar með andstöðu við frv., til þess að knýja bæði fjármálayfirvöld, sem hafa neitað Hæstarétti um nauðsynlega fyrirgreiðslu á starfskröftum á undanförnum árum, og einnig forstöðumenn dómsins sjálfs til að íhuga aðrar leiðir í þessum efnum. Mér þykir einsýnt að fjölgun dómara nú í 7 muni ekki frekar bera afgerandi árangur heldur en fjölgun dómara í 6 fyrir fjórum átum. Ef menn fara ekki inn á aðrar brautir í þessum efnum, þá munu ekki líða mörg ár þangað til kemur fram frv. um enn eina fjölgunina í Hæstarétti. Eins og ég sagði áðan finnst mér að það eigi að vera síðasta aðgerð manna til þess að hraða meðferð dómsmála í landinu að breyta skipan Hæstaréttar, það eigi að leita allra annarra leiða fyrst. Þeirra leiða hefur ekki verið leitað, það liggur ljóst fyrir. Undirbúningi lögréttufrv. hefur ekki verið hraðað nægilega til að það geti legið fyrir þinginu, þó að dómsmrh. hefði um það góð orð þegar hann lagði þetta frv. fram, fjármálayfirvöld hafa neitað Hæstarétti á undanförnum árum um nauðsynlega starfskrafta og þannig mætti lengi telja. (Gripið fram í.) Já, það væri hugsanlegt að leyfa það á fyrsta degi hvers mánaðar og í samræmi við ýmis önnur stefnumál þess flokks. Burt séð frá þessari aths. hv. þm. Stefáns Jónssonar vil ég undirstrika að það er ekki ætlun mín að efna til deilna um þetta frv. hér í d., en mér finnst málið, eins og ég sagði áðan, eftir því sem ég kynni mér það meira vera tilefni til alvarlegra aths. sem ég hef hér sett fram.