05.03.1979
Neðri deild: 59. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2957 í B-deild Alþingistíðinda. (2355)

190. mál, ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1979

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Áður en ég kem að meginefni máls míns, sem eru nokkur orð í tilefni af skýrslu ríkisstj. um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun og frv. því á þskj. 190, sem flutt er í tengslum við skýrsluna, langar mig að fara örfáum orðum um nokkur atriði, sem fram komu í ræðu hv. 1. þm. Austurl. þegar málið var til umr. fyrir nokkrum dögum.

Hv. 1. þm. Austurl. kvartaði m. a. yfir því að sér hefði ekki tekist þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir að fá í gang almenna umr. um efnahagsmál. Ég held að við þm. getum kvartað yfir flestu öðru en því, að ekki hafi verið rædd efnahagsmál á þessu þingi frekar en á flestum öðrum þingum, því ég man ekki til, að vísu hef ég ekki setið á þingi nema tiltölulega skamman tíma, að í upphafi þings og upphafi ferils nýrrar ríkisstj. hafi eins mikið verið rætt um efnahagsmál og það sem af er þessu þingi.

Ástæðan fyrir hversu okkur hefur oft greint á í málflutningi, Alþfl.-menn annars vegar og Alþb.-menn hins vegar, á hins vegar e. t. v. rætur sinar að rekja til þess, að þegar við Alþfl.-menn fórum inn í þessa ríkisstj. á s. l. hausti fórum við fyrst og fremst til þess að reyna að ná árangri í baráttu við verðbólgu. Markmiðið, sem við Alþfl.-menn settum okkur í kosningunum á s. l. vori, var að fá stuðning til þess að koma verðbólgunni niður á eðlilegt stig, eða a. m. k. jafnlangt niður og hún er hjá helstu viðskiptaþjóðum okkar. Út á þessa meginstefnu okkar, sem var mörkuð af öllum frambjóðendum og málgögnum okkar í kosningabaráttunni, fengum við 14 þm., þrefölduðum nærri því þingmannatölu okkar á Alþ. Þegar við göngum til ríkisstjórnarmyndunar eftir slík kosningaúrslit hljótum við að sjálfsögðu að leggja megináherslu á að sú ríkisstj., sem við gerumst aðilar að, axli þær skyldur að reyna að ná árangri í baráttunni við verðbólguna. Baráttan gegn verðbólgunni var því meginmál okkar þegar við fórum inn í þessa ríkisstj.

Að sjálfsögðu eru mörg önnur þýðingarmikil viðfangsefni í stjórnmálum en bara baráttan við verðbólguna. Það er ekki sagt neinum til hnjóðs þó að ég láti þau orð falla, að það geti vel verið að fyrir Alþb. hafi vakað önnur markmið en endilega þau að ná árangri í baráttu við verðbólgu. Ég held að ástæðan fyrir þeim mikla ágreiningi, sem verið hefur á þessum fyrstu mánuðum ríkisstj. milli Alþfl. annars vegar og Alþb. hins vegar, sé sú, að ekki vakti sama markmið fyrir þessum tveimur flokkum við myndun núv. ríkisstj. Ég er ekki að áfellast Alþb.-menn fyrir það, þó að meginstefnumál þeirra sé ekki það sama og okkar, þó að þeir leggi ekki jafnmikla áherslu á baráttuna við verðbólguna og við. Það er fyllilega heiðarlegt og eðlilegt að menn hafi áhuga á öðrum hlutum. En ég held að ágreiningurinn á milli þessara tveggja flokka hafi fyrst og fremst byggst á því, að við höfum og höfðum megináhuga á því að veita verðbólgunni viðnám með störfum okkar í ríkisstj., en Alþb. hefur áhuga á öðrum málum.

Ég ítreka að þetta er ekki á nokkurn hátt sagt Alþb. til hnjóðs. En það hlýtur að segja sína sögu, að Alþb. á skömmum lífsferli sínum hefur tvisvar sinnum áður átt aðild að ríkisstj., í fyrra skiptið í fyrstu vinstri stjórninni sem endaði sína ævi á því, eins og allir muna, að forsrh. lýsti því yfir að þjóðin stæði á barmi efnahagslegs hengiflugs og ekki væri samstaða í ríkisstj. um neinar leiðir til lausnar. Í annað skiptið, sem Alþb. fór í ríkisstj., tók það við stjórnveli þegar verðbólga hafði að meðaltali verið 10–12%, en skildi við verðbólgu á bilinu 40–50%. Þriðja skiptið, sem Alþb. á aðild að ríkisstj., er nú. Það er kannske ósköp eðlilegt með hliðsjón af forsögunni að Alþb, hafi engan sérstakan áhuga á baráttu við verðbólgu, á því að ná verðbólgu niður, en hafi þeim mun meiri áhuga á öðrum málum. En enginn mætti skilja orð mín svo, að séu lítilsvirðandi. Þarna held ég að sé ástæðan fyrir þeim ágreiningi sem verið hefur á milli Alþfl. og Alþb. Það er ekki ágreiningur sem verið hefur að skapast í þessu stjórnarsamstarfi, heldur er hann sprottinn af því, að flokkarnir höfðu mismunandi áhugamál þegar þeir fóru inn í þessa ríkisstj. Við litum svo á að hún væri sett á stofn fyrst og fremst til að ná niður verðbólgu jafnframt því sem atvinnuöryggi væri varðveitt, það væri meginviðfangsefni ríkisstj. En mætti ekki segja að Alþb. hefði gengið til liðs við ríkisstj. út á meira hefðbundin viðhorf flokks sem ætlar sér inn í ríkisstj. til þess að sinna ýmsum málaflokkum, en gefur engu einu máli og þá ekki verðbólgunni frekar en öðrum sérstakan forgang?

Það er ekki rétt hjá hv. 1. þm. Austurl., að ekki hafi farið fram á Alþ. mjög almennar umr. um efnahagsmálin, sem talsvert vægi hefur verið í. En ég verð að segja eins og er, og það er líka áreitnislaust að öllu leyti, að mér finnst sá munur vera á málflutningi okkar og Alþb.- manna, að við viljum nýta þá sérfræðiþekkingu, sem til er í landinu, bæði hjá einstökum mönnum, sem lagt hafa fyrir sig að nema efnahagsmál hjá erlendum og innlendum háskólum og aflað sér mikillar sérfræðiþekkingar á því sviði, svo og hjá þeim sérfræðistofnunum sem þjóðin á. Við viljum styðjast við þá kunnáttu sem þarna er að finna. En því miður virðist mér málflutningur Alþb. manna oftar en ekki hafa borið svip af því, að þeir séu raunar að deila við þessa sérfræðimenntuðu menn, neita að taka nokkurt tillit til sanninda sem eru jafnvel almennt viðurkennd í hinum vestræna heimi, a. m, k. neita að njóta leiðsagnar og njóta aðstoðar frá þeirri þekkingu og þeim vísindum sem til eru í landinu á þessu sviði. Ég er ekki með þessu að segja að sérfræðingar í efnahagsmálum eigi að ráða ferðinni, þeir eigi að segja stjórnmálamönnum hvað stjórnmálamenn eigi að gera, síður en svo. En það er hrein afturhaldssemi að láta sér detta í hug að þessir menn geti ekki verið til gagns á eina eða neina lund. Það á auðvitað að virkja þessa sérfræðimenntun, þessa þekkingu, eins og aðra þekkingu í landinu, og stjórnmálamenn eiga að nota sér þessa þekkingu, ekki til þess að láta sérfræðingana ákveða fyrir sig, heldur til þess að leita umsagnar og upplýsinga hjá þessum sérfræðingum, nota þá eins og tæki eins og aðrir sérfræðingar eru notaðir sem tæki til þess að auðvelda stjórnmálamönnum starf þeirra. Mér finnst oft að málflutningur Alþb. beri þess merki, að þeir séu að berjast, ekki endilega við skoðanir annarra stjórnmálamanna, heldur gegn því að nokkurt tillit sé tekið til ráðlegginga sérfræðinga og yfirleitt nokkuð sé gert með þá sérfræðiþekkingu á sviði efnahagsmála sem handbær er í landinu. Það er auðvitað öfugmæli fyrir flokk, sem vill kenna sig við sósíalisma, að byggja ekki málflutning sinn á við getum sagt vísindalegum grundvelli eða a. m. k. hafa hliðsjón af þekkingu, viti og reynslu við málflutning í efnahagsmálum eins og öðrum efnum.

Ég held það sé ekki rétt að fara öllu lengra út í þessa sálma, til þess gefast næg tækifæri síðar, en ég vildi aðeins í tilefni af orðum hv. 1. þm. Austurl. um útgjöld fjárlaga samanborið við þjóðarframleiðslu taka það fram, að í þessu sambandi ber mönnum að sjálfsögðu að leita upplýsinga þangað sem upplýsingar er að fá, en ekki láta sér nægja að slá á einhverjar tölur á hné sínu. Ég vil til upplýsingar fyrir hv. 1. þm. Austurl. og þm. alla láta þess getið að þjóðarframleiðsla á árinu 1979 var áætluð á desemberverðlagi 665 milljarðar kr. Þá voru útgjöld fjárlaga á sama verðlagi 202 milljarðar, eða 30.4% af vergri þjóðarframleiðslu, og tekjur fjárlaga á sama verðlagi 209.3 milljarðar, eða 31.6% af vergri þjóðarframleiðslu. Á verðlagi ársins 1979 er þjóðarframleiðsla áætluð 733 milljarðar kr., en spá um tekjur ríkissjóðs á sama verðlagi fyrir árið 1979 er 217 milljarðar kr., eða 29.6% af vergri þjóðarframleiðslu. Ástæðan fyrir þessum mun, hvernig á því stendur að miðað við verðlagsþróun lækkar hlutur tekna ríkissjóðs af þjóðarframleiðslu, er ákaflega einföld. Ástæðan er sú, að hluti af þessum tekjum er bundinn fastur í krónutölu og vex ekki með verðlagsþróun á viðkomandi ári. T. d. eru tekjur ríkissjóðs af tekjuskatti óháðar því, hvernig verðlagið er á viðkomandi ári, vegna þess að skatttekjurnar eru lagðar á tekjur fyrra árs, sem að sjálfsögðu standa ekki í neinu sambandi við verðhækkanir á greiðsluári. M. ö. o.: það má ekki gera eins og hv. 1. þm. Austurl., Lúðvík Jósepsson, gerði, að slá á einhverjar tölur á hné sér, segja að verðlagið vaxi um 30% á árinu og þá megi áætla að útgjöld ríkissjóðs eða tekjur ríkissjóðs vaxi að jafnaði um 15%, þ. e. a. s., helminginn af áætlaðri verðbólguþróun á árinu, eins og hv. þm. gerði, vegna þess að þessar tekjur og útgjöld ríkisins raunar líka eru samsett annars vegar af föstum stærðum, sem ekki verða fyrir neinum áhrifum af verðlagsþróun, og hins vegar af stærðum, sem verða að sjálfsögðu fyrir áhrifum af verðlagsþróun. Þetta verður til þess að prósentan, sem við nefndum hér áðan, hlutfall ríkisútgjalda og ríkistekna af vergri þjóðarframleiðslu, eykst ekki í sama hlutfalli og verðbreytingar á vergri þjóðarframleiðslu. Þetta kom mjög glögglega fram t. d. í fjvn. í desembermánuði, svo aðeins með viðræðum við flokksbræður sína hefði hv. 1. þm. Austurl. getað fengið þessa einföldu viðmiðun uppgefna. Honum til frekari skýringar skal ég taka það fram, að eftir þær kauphækkanir, sem urðu 1. mars, sem urðu 1.9% umfram þá spá sem þessar verðlagsforsendur, sem ég áðan rakti, byggjast á, má búast við að verðlagið á þjóðarframleiðslu ársins 1979 verði allnokkru hærra en 733 milljarðar kr., tekjur ríkissjóðs verði að sama skapi nokkru hærri en 217 milljarðar kr., en mismunurinn þarna vaxi. Eins og nú standa sakir stefnir því tekjuhlið fjárlaga talsvert niður fyrir það 29.6% mark sem ég nefndi áðan. Útgjöld fjárlaga eru að sjálfsögðu enn lægri hundraðshluti, eða um 28.5% af vergri þjóðarframleiðslu, miðað við verðlagsforsendurnar sem ég gat um áðan. Þannig er ljóst að á árinu 1979 stefna bæði útgjöld og tekjur ríkissjóðs nokkuð niður fyrir 30% af vergri þjóðarframleiðslu.

Það er kannske torskilið fyrir marga, hvers vegna menn eru endilega að miða við einhverjar svona prósentutölur, hvers vegna verið er að miða útgjöld eða tekjur ríkissjóðs við einhverja prósentutölu af vergri þjóðarframleiðslu. En menn skyldu gá að því hvað á bak við þetta felst. Á bak við slíka viðmiðun felst sú einfalda staðreynd að þar er ríkisvaldið að lýsa því yfir, að það ætli sér ekki á árinu að auka skattheimtuna frá því sem áformað er við upphaf árs. Með því að binda ríkisútgjöld og ríkistekjur með þessum hætti er verið að gera tvennt í senn. Það er verið að lýsa því yfir, að ríkisvaldið ætli hvað tekjuhliðina varðar ekki að auka skattheimtuna með nýjum sköttum á viðkomandi ári, og tel ég það talsvert þarflega yfirlýsingu ríkisstj. í upphafi árs, ekki síst fyrir launþega, að þeir gætu gengið að því sem gefnu að ekki væri tilgangur ríkisvaldsins að hækka skatta á árinu. Varðandi bindingu á útgjaldahliðinni hins vegar þýðir það yfirlýsingu frá ríkisvaldinu um að það muni halda útgjöldum í skefjum, m. a. þannig að til þess komi ekki, eins og verið hefur undanfarin ár, að þegar tekjur ríkissjóðs hafa ekki nægt fyrir útgjöldunum, þegar útgjöldin hafa á árinu vaxið svo mikið umfram tekjur að hinir nýju tekjustofnar hafa ekki dugað til, þá hefur ríkisstj., eins og menn vita, brugðið á það ráð að láta prenta fyrir sig peninga í Seðlabankanum sem ekkert stendur á bak við, og er nú svo komið að við skuldum Seðlabankanum vegna yfirdráttar ríkissjóðs milli 25 og 30 milljarða kr.

Þessi yfirlýsing um 30% markið er því engin prósentutala út í loftið. Þetta þýðir að ríkisstj. lýsir því yfir varðandi tekjuhlið fjárlaga að hún ætli sér ekki að auka skattheimtuna frá því sem ákveðið er við afgreiðslu fjárlaga, og varðandi útgjaldahlið fjárlaganna, að hún ætli sér ekki að fara út á þá braut, sem fyrrv. ríkisstjórnir hafa farið út á, að eyða umfram aflafé árinu, þannig að það verði að grípa til þess ráðs að auka skuldasöfnun við Seðlabankann með því að láta Seðlabankann prenta seðla fyrir ríkissjóð sem engin innstæða er á bak við.

Hvað varðar önnur atriði, sem fram komu hjá hv. 1. þm. Austurl., fannst mér það atriði einna merkilegast þegar hann lét í það skína að þeim Alþb.-mönnum, sem auðvitað standa að ríkisstj. eins og við Alþfl.-menn og eins og framsóknarmenn gera, hafi nánast komið þessi skýrsla um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun alveg á óvart. Hv. þm. lét þess getið, að sumir kaflar skýrslunnar væru svo torskildir að menn hefðu raunar ekki áttað sig á hvað þeir þýddu. Undir rós var látið í það skína, að þó svo að ríkisstj. hafi lagt fram þessa skýrslu með þeim umsögnum og stefnumörkunum sem í henni felast bæri Alþb: ekki nema takmarkaða ábyrgð á henni vegna þess að sumir kaflarnir hefðu verið of torskildir, það hefði þurft að þýða þá. Ég skal samsinna orðum hv. þm. um að það er heldur hnökrótt orðalag á ákveðnum kafla í skýrslunni, en þó ekki þannig að fólk með almenna skynsemi geti ekki mætavel skilið hvað þar stendur. Hv. þm. virtist sem sé láta í það skína, að það hefði verið einhvers konar slík afgreiðsla á þessari skýrslu að a. m. k. hluti stjórnarsinna hefði ekki áttað sig á hvað í henni fælist.

Ég vil í þessu sambandi láta það koma fram, að ég efast um að nokkurt mál hafi fengið eins miklar umr. í ríkisstj. og eins gagngera skoðun og skýrslan um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun. Ég efast um að ríkisstj. hafi haldið fleiri fundi eða að ráðh. hafi talað meira um nokkurt annað mál en þetta. Að sjálfsögðu fengum við þm. Alþfl. að fylgjast með undirbúningi að gerð skýrslu um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun, og ég vil gjarnan upplýsa það, að bæði inngangskafla, stefnumörkunarkafla skýrslunnar, og eins um einstakar stærðir og töflur fékk ríkisstj. í hendur mörg uppköst. Hún fékk í hendur mörg uppköst af þessum köflum, fyrst frumuppköst, sem ráðh. gerðu tillögur um breytingar við, og síðan hvert uppkastið á fætur öðru. Síðan gerðu ráðh. auðvitað hver um sig sínar aths. við kaflana og endanlega var síðan, eins og hæstv. fjmrh. tók fram, skýrslan í hinni endanlegu mynd samþ. á ríkisstjórnarfundi hinn 1. febr. s. l. Hafi einhver stjórnarflokkurinn ekki vitað eða honum komið á óvart hvað í þessari skýrslu stóð hefur hann ekki við neinn að sakast nema sjálfan sig.

Ég hef ekki trú á því að það geti verið rétt, sem marka mátti af orðum hv. 1. þm. Austurl., að allir ráðh. hafi ekki lesið skýrsluna. Hafi þeir ekki lesið skýrsluna hafa þeir að sjálfsögðu ekki við neinn að sakast nema sjálfa sig. Og hafi ráðh. ekki haft samband við flokksmenn sína um efni skýrslunnar og greint frá henni geta viðkomandi flokksmenn ekki við neina sakast nema eigin ráðh. Þetta segi ég aðeins vegna orða hv. 1. þm. Austurl. og enn fremur vegna þess að daginn sem skýrslan kom á borð þm. og var dreift vitnaði ég í ræðu til nokkurra atriða í skýrslunni sem virtust koma hv. 1. þm. Austurl. mjög á óvart. Þetta fannst mér mjög undarlegt vegna þess að þessi atriði voru búin að liggja á borðum allra ráðh. vikum saman. Það höfðu verið gerð mörg uppköst, sem hafði verið breytt af viðkomandi ráðh. og breytingarnar teknar með í næstu útgáfu, síðan var málið endanlega afgreitt á fundi ríkisstj. 1. febr. Auðvitað er alveg fráleitt að ætla síðan að halda því fram, að menn hafi ekki haft nema kannske óverulega vitneskju um hvað í skýrslunni stóð. Ef menn hafa ekki tíma til þess að lesa jafnmikilvæg gögn og þessi geta þeir auðvitað ekki við neina sakast nema sjálfa sig þó að þeim sé bent á eitthvað, þegar skýrslan er lögð fram, sem þeim virðist koma á óvart.

Í þeim afgreiðslum, sem hæstv, ríkisstj. hefur gert, hefur hún að sjálfsögðu þegar markað ákveðna stefnu. Það vill oft verða svo, að menn sjá ekki skóginn fyrir trjánum, en hitt er heldur verra þegar menn sjá hvorki skóginn né trén, þegar menn sjá ekki skóginn fyrir trjánum og ekki trén fyrir skóginum.

Ég held það sé mála sannast, að það sé ákaflega nauðsynlegt að rakið sé í nokkrum atriðum hvaða stefnu ríkisstj. hefur nú þegar mótað við þær afgreiðslur sem hún hefur gert og lagt fyrir þingheim og við stjórnarsinnar, þ. á m. hv. 1. þm. Austurl., höfum stutt hana í.

Í fyrsta lagi hafa þegar verið afgreidd fjárlög með atkv. allra stjórnarsinna undantekningarlaust. Á þeim fjárlögum voru m. a. gerðar þær breyt. milli 2. og 3. umr., að tiltekin útgjöld voru skorin niður um 1830 eða mig minnir 1834 millj. kr. Hvers vegna var þessi niðurskurður gerður á milli 2, og 3. umr.? Til þess að hægt væri að ná því markmiði að útgjöld og tekjur fjárlaga yrðu á árinu 1979 innan við 30% af vergri þjóðarframleiðslu, eins og einn stjórnarflokkurinn óskaði eftir. Fjárlögin voru sem sé afgreidd og þeim var breytt milli 2. og 3. umr. til þess að þetta væri hægt. Í annan stað var sú stefna mörkuð í fjárlögum að sýna mjög verulegan rekstrarafgang hjá ríkissjóði til þess að tvíþættu markmiði væri náð. Í fyrsta lagi því, að jöfnuður yrði á því tímabili, sem ríkisstj. starfaði á, frá 1. sept. 1978 til 31. des. 1979, þ. e. a. s. að sá halli, sem orðið hafði á ríkissjóði vegna ráðstafana 1. sept., yrði bættur upp með rekstrarafgangi á árinu 1979. Þetta var annað atriðið.

Hitt stefnuatriðið, sem einnig var markað við afgreiðslu fjárlaga, var að hluti af þessum rekstrarafgangi yrði notaður til þess að greiða niður erlendar skuldir ríkissjóðs.

Ég vil vekja athygli hv. þingheims á því, að bæði þessi markmið byggjast á því, að forsenda þjóðhagsspár um verðlagsþróun á árinu 1979 fái staðist. Ef menn ætla ekki að standa á forsendum þjóðhagsspár árið 1979 um verðbólguþróun, sem yrði komin niður í nánast 30% í árslok, gerist einfaldlega það, að grundvöllurinn undir fjárlagaafgreiðslunni hrynur. Þá eru menn að ákveða í marsmánuði að eyðileggja þær afgreiðslur sem þeir gerður í desember. Ef ekki verður staðið við þetta markmið, sem sett var m. a. með grg. með frv. 1. des. og við afgreiðslu fjárlaga, eru þessi þættir fjárlagagerðarinnar hrundir til grunna. Þá verður enginn rekstrarafgangur hjá ríkinu á árinu 1979, heldur rekstrarhalli. Og ef það verður rekstrarhalli er að sjálfsögðu hvorugt hægt að gera: að ná jöfnuði á tímabilinu frá 1. sept. 1978 til 31. des. 1979, eins og ríkisstj. þó lofaði í stjórnarsáttmálanum að gert yrði, og ekki heldur hægt að viðhalda því takmarki ríkisstj. að verja allverulegu fé af rekstrarafgangi ríkisins til þess að greiða niður erlendar skuldir. Menn skyldu því gera sér grein fyrir því, að þeir mega ekki eyðileggja það í síðara verkinu sem þeir hafa gert í því fyrra. Menn skyldu líka muna eftir því, hvað það er sem þeir eru búnir að gera, þegar þeir ræða um og ákveða hvaða viðbrögð og vinnubrögð þeir ætla að hafa í framtíðinni.

Fjórða og mjög mikilvægt atriði var líka ákveðið við fjárlagaafgreiðsluna, en þar var ákveðið að afnema hina svokölluðu sjálfvirkni í útgjöldum ríkisins. Það furðulega hefur gerst, að einn stjórnarflokkur hefur mótmælt því með bókun. Við afgreiðslu fjárlaganna var nefnilega gert ráð fyrir að þessi sjálfvirkni yrði afnumin um mjög verulega þætti fjárframlaga, sjálfvirk fjárframlög úr ríkissjóði, og í þessu frv. á þskj. 190, sem er til umr. nú, er þessari ákvörðun einmitt fylgt eftir. Ég held að hv. 1. þm. Austurl. og aðrir, sem stóðu að afgreiðslu fjárlaga í des., ættu heldur betur að gefa því gaum, því að í þessu frv., í hverri greininni á fætur annarri er sagt: Þrátt fyrir ákvæði þessara og hinna laga. T. d. í 12. gr.: „Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 33. gr. jarðalaga, nr. 65/1976, skal framlag ríkissjóðs til Jarðasjóðs eigi fara fram úr“ o. s. frv. Í 13. gr.: „Þrátt fyrir ákvæði 1. og 4. tölul. 4. gr. l. nr. 45/1971, um Stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám, ræktun og byggingar í sveitum, sbr. l. nr. 68/1973, skal framlag ríkissjóðs til Stofnlánadeildar landbúnaðarins á árinu 1979 ekki fara fram úr 643 millj. og 500 þús. kr.“ Í 14. gr.: „Þrátt fyrir ákvæði C og D-liðar 3. gr. l. nr. 44/1976, um Fiskveiðasjóð Íslands, skal framlag ríkissjóðs til Fiskveiðasjóðs Íslands á árinu 1979 ekki fara fram úr 1 milljarði 275 millj. og 500 þús. kr.“ Í 15 gr.: „Þrátt fyrir ákvæði a-, b-, c- og d-liðar 2. mgr. 4. gr. l. nr. 30/1970, um Húsnæðismálastofnun ríkisins“ o. s. frv.

Í þessu frv. er í hverri greininni á fætur annarri verið að leita eftir staðfestingu Alþ. á afnámi sjálfvirkni í ýmsum framkvæmdum og framlögum úr ríkissjóði, sem ákveðið var við afgreiðslu fjárlaga í desember. Þess vegna kemur það manni mjög á óvart að lesa bókun um það frá einum stjórnarflokknum í miðjum klíðum að þessu sé mótmælt. Það er eins og mennirnir hafi ekki hugmynd um hvað þeir eru búnir að samþ. og hvað þeir eru að leggja til. Hæstv. ríkistj. og flokkar hennar eru búnir að leggja það til og búnir að fá það samþ. við fjárlagaafgreiðsluna, að á þessum tilteknu framlögum, sem eru sjálfvirk og hafa verið sjálfvirk á undanförnum árum, skuli sjálfvirknin afnumin. Og nú leggur hæstv. ríkisstj. fyrir Alþ. samþ. staðfestingu á því afnámi, en í millitíðinni kemur einn flokkurinn og mótmælir því að þetta sé gert! Þetta er nú að lifa kristilega þannig að hægri höndin viti ekki hvað sú vinstri gerir! Ég held að það væri ráð hjá mönnum, áður en þeir halda áfram svona bókunum, að gefa sér a. m. k. tíma til þess að lesa eigin tillögur. Auðvitað geta menn komið með alls konar afsakanir eftir á og sagt: Við áttum ekki við þessa sjálfvirkni, við áttum við allt aðra sjálfvirkni. Það var bara ekki tekið fram í bókuninni. Í bókuninni var því alfarið mótmælt að þessi sjálfvirkni í útgjöldum ríkisins væri afnumin. Annaðhvort virðast menn ekki hafa vitað hvað þeir voru búnir að samþ. áður en þeir gerðu bókunina eða að í bókuninni hafi menn talað þvert um hug sinn.

Ég verð að segja það eins og er, að mér er fullvel kunnugt um að það er álit fjölmargra þm. úr Alþb. að þessi sjálfvirkni, sem bindur á árinu 1979 22.5 milljarða af ríkistekjunum, — 22.5 milljarða af því fjármagni, sem ríkissjóður hefur úr að spila, fara vegna þessarar sjálfvirkni út og inn án þess að stjórnvöld geti haft nokkur áhrif á, — að ýmsir af þm. Alþb., þ. á m. allir þeir þm. Alþb. sem ég hef unnið með í fjvn., eru mjög andvígir því að þessi sjálfvirkni skuli viðhöfð, einkum og sér í lagi gagnvart ýmsum framkvæmdaframlögum, t. d. gagnvart jarðræktarstyrkjum o. fl., vegna þess að þessi sjálfvirkni í jarðræktarstyrkjunum gerir að verkum að það er bókstaflega verið að ýta undir aukna ræktun og aukna uppbyggingu í sveitum, sem kallar á aukna framleiðslu og aukið offramleiðsluvandamál. Þess vegna kemur mér það ákaflega spánskt fyrir sjónir, loksins þegar segja má að framsóknarmenn hafi áttað sig á því, hvílík endaleysa er að binda slíkt sjálfvirkt þannig að menn geti ekki haft stjórn á slíkum hlutum frá ári til árs eða frá tímabili til tímabils, hvort sem tímabilið er eitt ár eða lengra með tilliti til aðstæðna í þjóðfélaginu, að Alþb.-menn skuli rjúka upp. Þegar framsóknarmenn átta sig á þessum hlutum og gera till. um breyt. rýkur Þjóðviljinn upp og segir: Hvað vakir eiginlega fyrir ykkur? Ætlið þið virkilega að fara að afnema sjálfvirkni varðandi landbúnaðarframlög? Hvers konar flokkur er Framsfl. orðinn? — Þetta segir Þjóðviljinn. Þetta kalla ég líka að tala þvert um hug sinn, vegna þess að ég veit að sú er ekki skoðun margra af mætustu þm. Alþb. En hins vegar er alltaf freistingin sú, það skal ég viðurkenna, þegar um erfiðar aðgerðir er að ræða, að koma þá alltaf í bakið á samstarfsmönnum sínum og vera öfugur og snúinn vegna þeirra einföldu sanninda að það verður engu breytt nema einhver verði óánægður. Flokkar, sem alltaf eru að hugsa um að ná sér í atkv. eins margra óánægðra aðila og mögulegt er, eru yfirleitt alltaf á móti öllum breytingum og þá helst ef þeir hafa grun um að aðrir ætli að beita sér fyrir samþykkt þeirra. Þá getur flokkurinn sagt: Ég var á móti, ég vildi ekki láta fara svona með ykkur. Það voru bara hinir sem réðu. Og af því að ég var á móti, þá á ég auðvitað að fá öll óánægjuatkvæði. — Auðvitað geta menn hugsað svona, ef menn vilja tína upp alla óánægða þjóðfélagsþegna, þennan hóp hér, þennan hóp þar, 20 atkv. hér, 100 þar o. s. frv. En auðvitað verður aldrei nein heildarstefna úr þessu mótuð. Það má kannske fá atkv. í svip, en þeim verður ekki einu sinni haldið vegna þess að það er ekki hægt. (Gripið fram í.) Ég held að hv. þm. viti ósköp vel hvaða flokkur það er, ég held að hann kannist við innviðina, þekki sig í þessum heimkynnum.

Það má vel vera að nokkuð vel gangi að afla sér stundarfylgis út á slíkt, en hitt er alveg ljóst, að flokkur, sem ástundar svona tínslu, verður auðvitað aldrei farsæll í ríkisstj. vegna þess að hann getur aldrei stjórnað. Hann getur aldrei tekið afstöðu til neins máls. Hann getur aldrei lagt fram neinar till. sjálfur. Og hann getur aldrei sagt já eða nei við till. annarra. Þetta er einmitt það sem hefur gerst undanfarna 6 mánuði, t. d. í efnahagsmálum, t. d. í viðureigninni við verðbólguna, að Alþb. hefur engar till. getað lagt fram sjálft og Alþb. hefur aldrei getað gert upp hug sinn um að segja já eða nei við þeim till. sem aðrir hafa haft, heldur alltaf sagt: Ja, við erum að skoða, við erum að athuga, við þurfum að stúdera þetta betur. Við verðum að vita hvort einhver annar í þjóðfélaginu vill ekki taka ákvörðun fyrir okkur. Við skulum leita umsagnar þessa aðila og vita, hvort hann vill taka ákvörðun fyrir okkur, eða hins aðilans, svo við getum skotið okkur bak við einhverja. — Þetta er dæmigerð aðferð hjá mönnum sem stunda eggjatínsluaðferðina á atkvæðaveiðum, stela þessu eggi úr hreiðrinu þarna og og hinu egginu úr hreiðrinu þarna o. s. frv., heyja sér 20 óánægjuatkv. þarna og 100 óánægjuatkv. þarna og vita svo ekkert, geta svo ekkert gert við þetta allt saman, vegna þess að þrátt fyrir að það sé búið að heyja sér öll þessi atkv. er flokkurinn gersamlega ófær að beita þeim og gersamlega ófær að valda því hlutverki sem öll þessi atkv. hafa fært honum í íslensku þjóðfélagi. (Gripið fram í.) Það er hætta á því, a. m. k. verður svolítið skrýtið að sjá þegar allir þessir ungar fara að skríða úr eggjunum. Þá verður skrýtið að sjá hvernig sambúðin verður í hreiðrunum þegar allir ungarnir eru komnir úr eggjunum. Það skyldi þó ekki vera að hv. 1. þm. Austurl. vantaði páskaegg líka!

En það er alla vega ljóst að þessi aðferð hlýtur að gera flokki erfitt um vik að sitja í ríkisstj. og innleiða það öfugmæli að flokkar séu að safna atkv. til þess að komast til áhrifa m. a. í ríkisstj. Til þess verður að fá fylgi. Það er auðvitað öfugmæli, ef flokkur fær fylgi, en getur ekki í ríkisstj. farið vegna þess að ef hann fer í ríkisstj. er hann hræddur um að tapa fylgi.

Öfugmælið í íslenskri pólitík viðkomandi Alþb., eins og málin standa núna, því miður, er það, að mjög erfitt er að ná árangri í ríkisstj. sem Alþb. á ekki sæti í, en það er jafnerfitt að ná árangri í ríkisstj. sem Alþb. situr í. Þetta er hið erfiða öfugmæli íslenskrar pólitíkur, að það er nokkurn veginn sama hvað uppi er á teningnum, það er nokkurn veginn sama hvort Alþb. er innan eða utan ríkisstj. — allt virðist vera jafnerfitt þrátt fyrir það. Ég held að menn verði að hugsa sig í alvöru um, og ég segi það líka áreitnislaust, hvort það á að vera meginverkefni þessa stóra og volduga flokks að standa alltaf í vegi fyrir því, að hægt sé að stjórna efnahagsmálum í landinu, án tillits til þess hvort flokkurinn er í ríkisstj. eða utan. Það getur ekki verið í samræmi við hagsmuni neinna að ekki sé hægt að stjórna efnahagsmálum á Íslandi. Það er mjög alvarlegt mál þegar það et orðið helsta hlutverk jafnöflugs flokks og Alþb. er orðið af ýmsum ástæðum sem ég hirði ekki um að rekja hér, m. a. þeim sem ég nefndi áðan, að þora aldrei að styggja neinn, vera alltaf reiðubúinn til þess að heyja sér fylgi frá öllum óánægjuöflum í þjóðfélaginu, — þegar það verður hlutverk slíks flokks, án tillits til þess hvort hann er í ríkisstj. eða utan ríkisstj., að koma í veg fyrir að hægt sé að stjórna efnahagsmálunum, ekki þannig, að hann hafi till. að gera sem aðrir flokkar geti ekki fallist á, heldur hefur hann engar till. að gera sem aðrir flokkar geti fallist á og er ekki heldur í stakk búinn til að segja já eða nei við till. annarra flokka. Það hlýtur að verða talsvert erfitt fyrir þá, sem sitja í þessum flokki og kjósa hann, ef þeir átta sig á því að þetta er staðreynd. Ég vona að svo sé ekki, ég vona að Eyjólfur hressist. En þetta atriði er ástæða til að hugleiða, bæði fyrir Alþb.-menn og aðra. Það er náttúrlega ekki vel gott ef næststærsti flokkur þjóðarinnar, sem nú er orðinn, er þannig að hann getur hvorki verið í ríkisstj. né utan ríkisstj.

Fleiri merkileg atriði koma fram í þessari skýrslu ríkisstj. um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun sem lúta að þeirri stefnu sem ríkisstj. er að marka, í stuttum skrefum að vísu, eins og hæstv. forsrh. sagði, en þó vissulega í skrefum. Það er t. d. athyglisvert, að hér er í fyrsta sinn lögð fram lánsfjáráætlun sem jafnframt er skýrsla um fjárfestingaráætlun, þ. e. a. s. hér er mörkuð sú stefna að jafnhliða áætlun um lánsfjáröflun hins opinbera á árinu 1979 skuli gerð áætlun um fjárfestingu í þjóðarbúskapnum. Og það er markviss stefna um það, hvernig eigi með áætlunarbúskap að standa að þessari fjárfestingu. Þar segir, með leyfi forseta:

„Með samræmdum aðgerðum verði fjárfestingu beint í tæknibúnað, endurskipulagningu og hagræðingu í þjóðfélagslega arðbærum atvinnurekstri.“

Almennt um fjárfestinguna er þetta sagt. Í einstökum atriðum fyrir árið 1979 er hins vegar mörkuð mun ákveðnari stefna. Þar er sagt í fyrsta lagi, — og ég tek það fram enn og aftur að hér er um að ræða stefnuyfirlýsingu ríkisstj. sem er margyfirfarin af ráðh. og var endanlega samþykkt sem stefna ríkisstj. á fundi hennar 1. febr. s. l. Þar segir ríkisstj. nánar um þessa stefnumörkun sína, með leyfi forseta, að „dregið verði úr fjárfestingu á árinu 1979 og heildarfjármunamyndun verði ákveðin takmörk sett.“ Í öðru lagi segir hún, „að gerðar séu strangar og samræmdar kröfur til þjóðhagslegrar arðsemi þeirra framkvæmda sem framlög eða lán eru veitt til.“ Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að heildarfjárfesting nemi um 24.5% af þjóðarframleiðslu. Það segir hæstv. ríkisstj. beinum orðum á bls. 5 í þessari áætlun sem stefnu sína. Enn fremur má benda á að samkv. þessu er ráð fyrir því gert að samdráttur verði um 5% að raungildi milli ára, hitaveituframkvæmdir dragist sérstaklega saman, um 13–14%, o. s. frv., o. s. frv.

Þetta er hin nákvæma stefnumörkun hæstv. ríkisstj. í sambandi við þá fjárfestingaráætlun sem hún er hér að gera. Auðvitað geta menn ekki komið á eftir og sagt að þeir hafi aldrei séð þessar tölur eða bókað mótmæli við þessum tölum þegar á að staðfesta þær með lögum. Það er nákvæmlega sams konar athæfi og að samþykkja í fjárl. þær afgreiðslur, sem þar voru gerðar á sjálfvirkum framlögum, og ætla svo að neita að staðfesta þær í frv. til l. um heimild til lántöku o. s. frv. á þskj. 190 sem hér er til umr. Ég veit ekki til að neinn stjórnarflokkur ætli sér að gera það, þó svo í millitíðinni hafi einn stjórnarflokkur gert bókun þar sem hann mótmælir því, að staðfestar séu þær samþykktir og ákvarðanir sem hann hefur þegar gert.

Það eru ýmsar fleiri stærðir ákveðnar í þessari lánsfjáráætlun. Á bls. 44 er t. d. vikið að öðrum mikilvægum þætti í stefnumörkun hins opinbera, þ. e. a. s. ákvörðun peningamagns í umferð. Á bls. 44 í lánsfjáráætluninni segir ríkisstj., að á peningamagni í umferð á árinu 1979 samkv. þeirri lánsfjáráætlun, sem hún er að biðja Alþ. að staðfesta, verði 24.9% aukning frá árinu áður. Í margumræddu frv. Ólafs Jóhannessonar er þessi tala 25%.

Því hefur verið harðlega mótmælt og óskað eftir því að Alþ. staðfesti lánsfjáráætlun upp á 24.9. Þetta er ekki mjög lágt mark. Mörg ár, sem við getum bent á, hefur þessi ákvörðun verið sett við lægra mark en þetta. Ég vil aðeins benda á að að sjálfsögðu verður frá þessu marki vikið ef það sýnir sig að þetta eru of miklar hömlur á aukningu peningamagns í umferð, m. a. þannig að atvinnuöryggi stafi hætta af. En ef þetta er ákveðið svona, þá er m. a. komið í veg fyrir að ríkisvaldið geti brugðið á það ráð, sem reynst hefur ansi dýrkeypt, mælt á verðbólguskala á undanförnum árum, að fyrirskipa Seðlabankanum að prenta stöðugt seðla þegar tekjur ríkissjóðs nægja ekki fyrir útgjöldum. Þannig er í þessari lánsfjáráætlun mörkuð stefna varðandi beitingu peningapólitíkur sem er í margumræddu frv. Ólafs Jóhannessonar og einn stjórnarflokkurinn, sem leggur þessa skýrslu fram með þessum tölum, hefur mótmælt í millitíðinni. Það er alveg furðulegt að eftir mótmælin skuli hann samt sem áður leggja slíka afgreiðslu fyrir Alþingi.

Varðandi fjárfestingarhlutfallið, sem ég nefndi áðan, vil ég segja örfá orð. Auðvitað kemur mönnum dálítið spánskt fyrir sjónir að það skuli vera deilt um hvort fjárfesting eigi að vera 24.5 eða 25% af þjóðarframleiðslu eða eitthvað slíkt. Hvað munar um hálft prósent í þessu sambandi? Er þarna ekki verið að deila um keisarans skegg? Nei, aldeilis ekki. Á bak við þessar tölur standa auðvitað efnahagslegar stærðir sem einhverju máli skipta. Ef t. d. fjárfesting yrði meiri en 24.5%, eins og gert er ráð fyrir í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun 1979, og færi t. d. upp 25% af vergri þjóðarframleiðslu, þá þýddi það einfaldlega, að til þess að það væri hægt yrði að afla erlends lánsfjár umfram það, sem gert er ráð fyrir í lánsfjáráætlun, um ca. 5 milljarða kr. Þessi litli 1/2% munur þýðir aukningu á erlendum skuldum um 5 milljarða. Ef það væri gert væri búið að auka erlendar skuldir þjóðarinnar á árinu 1979 um 17 milljarða kr. og þá væri meiri aukning á erlendum skuldum á árinu 1979 en dæmi eru til um frá öðrum árum. Það er að sjálfsögðu í algerri andstöðu við stefnu ríkisstj., eins og hún er sett fram í stjórnarsáttmálanum, og í algerri andstöðu við þær yfirlýsingar sem t. d. hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. hafa gefið hér á Alþ. í nafni ríkisstj.

En á bak við deiluna um hinn litla mismun, hálft prósentustig, sem mönnum finnst svo hlægilegur — hvort heldur fjárfesting eigi að miðast við 24.5 eða 25% af vergri þjóðarframleiðslu — er þetta: Þeir, sem berjast fyrir hækkun á þessu margumrædda prósentustigi, eru að berjast fyrir því m. ö. o. — annað væri ekki hægt — að afla þessa fjár, þessara tæpu 5 milljarða, með erlendum lántökum. Skuldin yrði aukin um tæplega 5 milljarða kr., sem yrði til þess að erlend skuldasöfnun hefði slegið öll fyrri met á árinu 1979. Þessu atriði ætti að sjálfsögðu að koma á framfæri við þá sem af einhverjum ástæðum vilja ekki skilja að deila um 24.5% eða 25% af vergri þjóðarframleiðslu er engin deila um keisarans skegg, heldur deila um hvort eigi að standa við eitt af meginatriðunum í sjálfum stjórnarsáttmálanum, þ. e. a. s. stöðvun á erlendri skuldasöfnun. Þeir, sem heimta að það verði ekki gert, eru að heimta meiri framkvæmdir en lánsfjáráætlunin gerir ráð fyrir. Þeir eru að heimta að það verði ekki staðið við ákvæði í stjórnarsáttmálanum. Þeir eru að krefjast þess, að erlendar skuldir þjóðarinnar verði á þessu ári auknar um 17 milljarða kr.

Það er fleira athyglisvert um stefnumörkun í þessari skýrslu en varðandi fjárfestingarmörkin, peningamagn í umferð og fleira slíkt. Ákveðin stefna er mörkuð varðandi fjárfestingarmál, því að berum orðum segir í II. kafla skýrslunnar að setja skuli samræmdar lánareglur fyrir fjárfestingarsjóðina. Þetta er eitt af meginatriðunum í frv. hæstv. forsrh. Það er dálítið undarlegt að sjá því mótmælt að lánareglur fjárfestingarlánasjóða skuli samræmdar, en lesa það svo nokkrum dögum seinna í þinginu að sömu aðilar og því eru að mótmæla eru að leggja til við okkur þm. að við staðfestum þetta við afgreiðslu lánsfjáráætlunar.

Það er líka ákvæði um vaxtastefnuna í skýrslu ríkisstj. um lánsfjáráætlun. Í þeirri áætlun, sem hún er að biðja okkur óbreytta þm. um að samþykkja og leggur fram eftir samþykkt sína 1. febr., segir:

„Raunhæf vaxtakjör stuðla að auknum innlendum sparnaði og eru þannig forsenda þess að lánsfjárþörf til framkvæmda verði í ríkari mæli en ella mætt með innlendu fé. Lánskjörin þarf einnig að samræma milli lánastofnana.“

Það dylst engum hvað hér er boðað. Hér er boðuð stefna um raunvexti, hvort heldur sem það á að gera með háum vöxtum eða verðtryggingu og lágum vöxtum. Það skiptir ekki neinu máli. Niðurstaðan er sú sama. En auðvitað verða menn að vera sjálfum sér samkvæmir. Ef þeir ætla að boða slíka stefnu, eins og þeir hafa gert í grg. með 1. des. frv. margfræga, og ætla sér að óska eftir því að Alþ. staðfesti hana með umfjöllun sinni um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun, þá geta menn að sjálfsögðu ekki mótmælt henni þegar á að staðfesta þessa stefnu í frv.

En einna athyglisverðast frá sjónarmiði ýmissa aðila er þó sú stefna sem boðuð er í sambandi við kaupgjaldsmálin. Menn hafa haldið því fram úr þessum ræðustól, að boðorðið sé að marka enga launamálastefnu. Auðvitað er það rangt, auðvitað hefur alltaf vakað fyrir ríkisstj. að marka launamálastefnu. Það er megininntakið í því sem við Alþfl.-menn börðumst fyrir í síðustu kosningum, kjarasáttmálanum. Þar er mörkuð launamálastefna, samningar milli ríkisvalds og verkalýðshreyfingar um mörkun launamálastefnu. Auðvitað þarf mörkun launamálastefnu. Þegar 1. des. s. l. var gert um það samkomulag við verkalýðshreyfinguna að hún breytti kjarasamningum sínum, félli frá kauphækkunum sem hún átti rétt á samkv. gildandi kjarasamningi, var auðvitað launamálastefna í því fólgin — sú stefna, að ekki sé rétt að ákveðin prósentuhækkun á kaupgjaldi komi til framkvæmda. En hvað segir hæstv. ríkisstj. um launamálastefnu sína í skýrslunni um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun á árinu 1979 — í málsgrein sem hlýtur að hafa verið lesin 10 sinnum 10 sinnum af öllum ráðh. í ríkisstj. og maður skyldi ætla að bæði ráðh. Alþfl. og ráðh. Alþb. hefðu gefið meiri gaum en nokkurri annarri setningu í þessari skýrslu? Hvað segir ríkisstj. um stefnu sína í launamálum? Hún segir: „Í forsendum þjóðhagsspár fyrir árið 1979 er miðað við að neysluvöruverð hækki um 33% að meðaltali á þessu ári og um 30% frá upphafi til loka ársins. Þetta fæli í sér umtalsverða verðbólguhjöðnun á þessu ári.“ — Þetta er stefnan, sem mörkuð var 1. des. um umtalsverða verðbólguhjöðnun, fjárlagaafgreiðslan miðaðist við, lánsfjáráætlunin miðaðist við, allar aðgerðir ríkisstj. hafa miðast við, og spurningin er hvort hún ætlar að standa við það eða ekki. Síðan segir um stefnuna í launamálum: „Sá árangur næst þó ekki nema fylgt verði þeirri stefnu í kauplags- og verðlagsmálum að hækkun peningalauna verði minni en fylgir óbreyttu kerfi vísitölubindingar launa.“ — Þetta, herra forseti, er álit allra 9 ráðh. núv. ríkisstj., sem þeir hafa fjallað um á mörgum og löngum fundum í ríkisstj., fleiri og lengri fundum en um nokkra aðra lánsfjáráætlun hafa fjallað. Þetta er sú stefna sem þeir boða hér, og það er ekki bara ábyrgðarleysi, það er ekki bara ódrengskapur, heldur er það lítilmannlegt af mönnum, sem styðja þessa ríkisstj., að ætla að afsaka sig með því, þegar slík yfirlýsing kemur fram, að plaggið sé á svo torskildu máli að þeir hafi ekki skilið það, eða að segja að ráðh. hafi gleymt að lesa þetta, eða að segja að einhverjar stofnanir úti í bæ hafi samið þetta fyrir ráðh. og laumað þessu atriði inn í skýrsluna fram hjá þeim, eða að segja að ráðh. hafi gleymt að sýna þingflokknum þetta. Þetta eru auðvitað lítilmannlegar afsakanir. Þær eru að sjálfsögðu ósannar, þær eru að sjálfsögðu ódrengilegar, en þær eru lítilmannlegar, það er það sem mestu máli skiptir.

Ég held að það sé ljóst, hæstv. forseti, að sú stefna, sem ríkisstj. hefur þegar markað og kemur fram í fjárlagaafgreiðslu hennar og í þessari skýrslu hennar, er við það miðuð að þau atriði, sem þjóðhagsspáin fyrir árið 1979 felur í sér, standist. Ef nú í miðjum klíðum verður beitt þeirri afsökun að menn hafi ekki lesið frv., menn hafi ekki skilið það, einhver úti í bæ hafi platað þá eða einfaldlega það hafi gleymst að segja þeim frá því, — ef þeim afsökunum verður beitt til að hlaupa undan árunum, hætta í miðjum klíðum og hopa af hólmi með einum eða öðrum hætti, skulu menn átta sig á því, að þá er fjárlagaafgreiðslan frá því í des., sem allir þm. stjórnarflokkanna stóðu að, hrunin. Þá stendur ríkissjóður uppi með miklum greiðsluhalla á þessu ári, þá verður ekki hægt að ná jöfnuði á því tímabili sem ríkisstj. lofaði að jöfnuði skyldi náð á, þá verður ekki hægt að standa við fyrirheitin um greiðslu erlendra skulda, þá er hruninn grundvöllurinn undan þeim afgreiðslum sem ríkisstj. hefur þegar gert í efnahagsmálum.

Auðvitað geta menn hlaupið undan árunum og flúið af hólmi ef þá lystir. Auðvitað geta þeir hlaupið aftur af stað til þess að stela eggjunum úr hreiðrinu með því að mótmæla þessu hér og hinu þar. En menn geta aldrei hlaupist undan því að þeir hafa greitt atkv. sitt hér á Alþ. með ákveðinni stefnu, og þeir geta aldrei hlaupist undan því að þeirra eigin ráðh. hafa beðið óbreytta þm. að samþykkja aðra þætti í þessari stefnumótun — þætti sem menn eru kannske að gefast upp við núna og þora ekki annað en hlaupa frá. Undan slíkum tvískinnungi getur enginn flúið, vegna þess að þá eru menn að flýja sjálfa sig. Og hvað svo sem einstakir menn hlaupa hratt, þá geta þeir aldrei stungið sjálfa sig af.