07.03.1979
Sameinað þing: 63. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3029 í B-deild Alþingistíðinda. (2380)

207. mál, þingrof og nýjar kosningar

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég held að öllum sé ljóst og ekki síst sjálfstæðismönnum sjálfum, sem bera fram þá þáltill. sem hér liggur fyrir um þingrof og nýjar kosningar, að ekki býr nein alvara á bak við slíkan tillöguflutning. Það, sem á bak við býr, er fyrst og fremst að láta reyna á þolrif þm. Alþfl. vegna þess að þeir hafa hvað harðast knúið á um að brotið verði blað í þróun efnahagsmála undanfarinna ára og áratuga, þannig að skammtímalausnum á fárra mánaða fresti linni sem gert hafa alla uppbyggingu atvinnuveganna erfiða, atvinnuöryggi ótryggt, auk þess sem launafólk hefur þurft að heyja harða baráttu til að reyna að viðhalda kaupmætti tekna sinna frá ári til árs. Hefur sú barátta oft kostað 40–50% krónutöluhækkun launa árlega og skapað sífellda hringrás kaupgjalds og verðlags, og hefur verðbólgan í reynd alltaf bitnað mest á þeim sem minnst mega sín, enda er launafólki farið að skiljast að einasta kjarabótin, sem það getur treyst á, er hjöðnun verðbólgunnar, en ekki aukning á verðlausum krónum í umslag þess á fárra mánaða fresti, sem oft og tíðum halda ekki einu sinni í þann kaupmátt sem það áður bjó við.

Víxlgangur kaupgjalds og verðlags, sem nú gefur aukningu í krónum talið í umslag launafólks, en viðheldur oft ekki einu sinni kaupmætti launa þess, vindur upp á verðbólguna og grefur undan atvinnuöryggi þess og enginn græðir á nema þeir sem í skjóli forréttindaaðstöðu geta hagnast á henni og það eingöngu á kostnað heildarinnar og þá sérstaklega láglaunafólks. Tilburðir Alþb. til að reyna að sýna launafólki í reynd fram á annað en að það er hjöðnun verðbólgunnar og það eitt sem skilar því aukningu á kaupmætti eru því að verða úreltir og úr sér gengnir, því launafólki er farið að skiljast að annað getur ekki skilað því betri kjörum.

Ég skal upplýsa þá Alþb.-menn um það, sem halda að blekkingaleikur þeirra um annað skili árangri til launafólks, sem gerist aðeins með samstilltu átaki á öllum sviðum efnahagsmála, að það er ekki ósjaldan sem ég hef heyrt það hjá láglaunafólki, meira að segja ellilífeyrisþegum, að það væri tilbúið til að fórna einhverju af láglaunatekjum sínum ef það mætti verða skerfur til að vinna á verðbólgunni. Dagar slíkra blekkingatilrauna eru því á undanhaldi undan staðreyndum þeirra sem tilbúnir eru í slaginn við verðbólguna. Fyrir breytingu á þeirri þróun, sem verið hefur á efnahagslífinu undanfarin ár, hefur Alþfl. barist allt frá stjórnarmyndunarviðræðunum s. l. sumar og ekki síður eftir að ríkisstj. var mynduð 1. sept. s. l., en við dræmar undirtektir samstarfsflokkanna í ríkisstj. og þá sérstaklega Alþb., sem hefur haldið uppi sýndarmennsku og blekkingum við launafólk og það á svo grófan hátt, að það hefur fjarstýrt fáeinum forustumönnum verkalýðshreyfingarinnar, beitt þeim fyrir sinn pólitíska vagn til yfirlýsinga gegn ýmsum mikilvægum verðbólguhjaðnandi markmiðum í frv. því sem liggur fyrir ríkisstj. um samræmdar aðgerðir gegn verðbólgu og jafnvægi í þjóðarbúskapnum, sem getur í reynd tryggt viðunandi lífskjör og atvinnuöryggi. En það mega þeir Alþb.-menn vita og ættu ekki að fara í grafgötur um eftir þá baráttu sem Alþfl. hefur háð undanfarna mánuði, að Alþfl. hefur ekki áhuga á að skipa sér í þá fylkingu verðbólguflokka sem ber ábyrgð á 40–50% verðbólgu undanfarinna ára og þar með versnandi afkomu alls launafólks og ótryggu atvinnuástandi. Og það er reyndar grátbroslegt að Sjálfstfl., sem ekki síður en Alþb. ber ábyrgð á slíkri verðbólgu og ekki nema örfáir mánuðir síðan hann yfirgaf valdastóla, innbyrðis sundraður og rassskelltur af þjóðinni í kosningunum s. l. sumar fyrir fjögurra ára óstjórn, helstu undirstöðuatvinnuvegirnir við að stöðvast, ótryggt atvinnuástand og ókyrrð á vinnumarkaðinum, — hann þykist nú hafa efni á eftir sex mánaða valdasetu þessarar ríkisstj., sem notaðir hafa verið til þess að hreinsa til ettir hann, að biðja um þingrot og biðla til þjóðarinnar um nýtt umboð til áhrifa.

Það hlýtur að vera erfitt og ósannfærandi, að í raun sé takandi mark á slíkum tillöguflutningi, enda býr pólitísk afbrýðisemi þar á bak við eins og hjá hinum flokkunum sem ábyrgð bera á 40–50% verðbólgu undanfarinna ára, vegna þess að Alþfl. er einn allra flokka undanskilinn þeim verðbólgustimpli undanfarinna ára og hefur það einkennt hann frá þeim flokkum sem ábyrgð bera á örri verðbólgu með þeim afleiðingum að afkoma þjóðarhússins og atvinnuöryggi hefur verið í hættu og stuðlað hefur verið að versnandi afkomu alls launafólks í landinu.

Ég sé ekki ástæðu til að endurtaka og segja hér frá baráttu Alþfl. undanfarna mánuði til breytinga á því efnahagsástandi sem þjóðin hefur þurft að búa við mörg undanfarin ár, svo mjög hlýtur það að vera í fersku minni, og hve djarft þar hefur stundum verið nauðsynlegt að spila til að koma þessum flokkum í skilning um þá alvöru sem að baki býr hjá Alþfl. að ná þjóðinni út úr verðbólgunni, enda náðist sá árangur, að í grg. frv. um viðnám gegn verðbólgu 1. des. varð samkomulag um verðbólguhjaðnandi markmið, sem allir flokkarnir í ríkisstj. stóðu að og frv. Alþfl. í des. s. l. var að verulegu leyti byggt á og einnig það frv. sem nú er til umfjöllunar í ríkisstj. Og það er rétt að undirstrika það sérstaklega til að hressa upp á minni Alþb.-manna, því að þeir virðast stundum gleyma fljótt hvað þeir samþykkja hér á hv. Alþ., að þeir stóðu einnig að þeirri grg. og ýmsar þjóðhagsstærðir og markmið, sem frv. byggist á, hafa þeir samþykkt þar og einnig í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun, þó að upp á síðkastið virðist hafa verið uppi önnur sjónarmið. Þegar á þarf að reyna og ábyrgðina þarf að axla til að ná árangri í baráttunni við verðbólguna, — árangri sem fært getur launafólki raunverulega kaupmáttaraukningu og tryggt atvinnuöryggi og atvinnuuppbyggingu, þá sýna þeir sitt rétta andlit að þora ekki að bera ábyrgðina.

Þó að þeir flokkar, sem þessa ríkisstj. mynda, þurfi nú á næstu dögum að gera það upp við sig hvort þeir þori í slaginn við verðbólguna og þar með að axla þá ábyrgð sem þeir voru kosnir til, þá tel ég að sá flokkur, sem enn er í sárum vegna dóms þjóðarinnar fyrir 9 mánuðum eftir fjögurra ára óstjórnartímabil þeirra og innbyrðis sundurlyndi, sé ekki rétti aðilinn til að kveða upp úr um stund fyrir flokkana, sem þessa ríkisstj. mynda, til að gera upp hug sinn um hvort þing verði rofið og efnt til nýrra kosninga.

Enn hefur ekki reynt á hvort meiri hl. sé á Alþ. fyrir frambúðarlausn í efnahagsmálum sem náð getur tökum á verðbólgunni. Fyrr en það er fullreynt tel ég að enginn ábyrgur stjórnmálamaður, hvorki þeir, sem mynda núv. ríkisstj., né stjórnarandstaða, geti skorast undan að taka afstöðu til eins mikilvægra mála og frambúðarlausn efnahagsmála er. Til þess að svo megi verða er nauðsynlegt að flytja þær umr. um efnahagsmál, sem nú um tíma hafa legið fyrir ríkisstj., inn á Alþ. Þá fyrst fæst úr því skorið, hvort meiri hl. er hér á Alþ. fyrir að axla þá ábyrgð sem því fylgir að vinna á verðbólgunni og koma á fót þeirri undirstöðu undir heilbrigt efnahagslíf sem tryggir framgang undirstöðuatvinnuveganna, atvinnuöryggi og varanlega tryggingu fyrir hættum hag launafólks. Þeim mun óábyrgari er sú afstaða á þessari stundi, þegar enn er ekki fullreynt hvort meiri hl. er fyrir ábyrgri efnahagsstefnu, að þingrof verði nú, áður en sú afstaða liggur fyrir. Það getur orðið dýrkeypt fyrir þjóðina, þar sem það þýðir nokkurra mánaða stjórnlaust ástand og yfirvofandi er holskefla olíukreppunnar ofan á aðra erfiðleika sem þjóðin á við að glíma. Þetta mega þeir hugleiða sem bjóða þjóðinni stjórnlaust ástand í nokkra mánuði, sem verður undanfari nýrra kosninga ef þing væri nú rofið áður en — og ég undirstrika: áður en fullreynt er hvort meiri hl. er hér á Alþ. fyrir ráðstöfunum sem geta leitt þjóðina út úr vítahring þeirrar óðaverðbólgu sem m. a. sá flokkur, sem nú gerir till. um þingrof, hefur leitt yfir þjóðina.