31.10.1978
Sameinað þing: 11. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í B-deild Alþingistíðinda. (240)

323. mál, málefni áfengissjúklinga

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Rétt til upplýsingar og eins til að reyna að koma í veg fyrir niðurskurð á fjárveitingum til gæsluvistarsjóðs vil ég gefa smáupplýsingar sem ég fékk fyrir nokkrum dögum frá forstöðumönnum heimilisins að Ránargötu 6 og 6A. Þar eru 20 manns í heimili. Hver þessara aðila kostaði Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar 500–600 þús. kr. á ári, áður en þeir fóru til þeirrar meðhöndlunar sem þeir hafa fengið. Nú vinna þessir 20 menn, sem ýmist hafa haldið sig frá áfengi í rúmt ár eða upp í tvö og hálft ár síðan heimilið tók til starfa, — þeir vinna sér inn samtals 65 millj. kr. í tekjur á ári. Það er talið að þeir greiði niður þá fjárfestingu, sem Reykjavíkurborg hefur lagt í þessi hús, á 3–5 árum ásamt rekstrarkostnaði. Fjárveiting til þessara mála skilar sér því mörgum sinnum til baka á mjög skömmum tíma. Þess vegna vil ég vara við því að skera framlag til gæsluvistarsjóðs mikið niður nú.

Ég vil líka geta þess, að á þessu heimili, þar sem 20 manns eru til heimilis, eru aðeins tveir starfsmenn í fullu starfi og tveir aðrir í hálfu starfi. Ég held að það sé leitun að heimili eða sjúkrastofnun — eða hvaða nafn þið viljið gefa þessum rekstri — á vegum hins opinbera sem er rekið eins vel af jafnfáum og á jafnódýran hátt og þessi áhugamannastarfsemi er rekin. Þess vegna vil ég undirstrika það, að ég vona, að hv. Alþ. geti verið sammála um að standa vel við bakið á þessum merkilega félagsskap sem hefur rutt sér til rúms í áfengisvarnamálum undanfarin ár.