31.10.1978
Sameinað þing: 11. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í B-deild Alþingistíðinda. (241)

323. mál, málefni áfengissjúklinga

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Ég leyfi mér að undirstrika alveg sérstaklega ummæli hv. 1. þm. Reykv. um áhugamannastarfið. Hann hefur vakið athygli á því gífurlega starfi sem áhugamenn vinna í þessu efni og í mörgum tilvikum samtök áfengissjúklinganna sjálfra. Þetta starf er miklu meira en svo, að hægt sé að gera nokkra grein fyrir því í ræðum eða yfirleitt gera sér grein fyrir því án persónulegra kynna. Ég held að það sé alveg gífurlegt atriði að nýta þá feiknaorku, sem býr í þessum samtökum, með því að greiða sem allra best fyrir því að þau fái notið krafta sinna.

Það hefur verið minnst á Krýsuvíkurskólann. Það er rétt sem fram kom hjá hæstv. ráðh., að það var efnt til þessa skóla fyrir frumkvæði sveitarfélaganna í þeim landshluta sem hann tilgreindi. Síðan hafa viðhorf öll gjörbreyst svo að ekki er þörf fyrir þetta hús til þeirra nota sem þá var fyrirhugað, og allir eru um það sammála. Menntmrn. hafði frumkvæði um umr. um þetta, fyrst við sveitarfélögin, þar sem þessu var slegið föstu, síðan við Samtök áhugamanna um áfengisvarnir.

Ég held að það, sem fram hefur komið í þessum umr., gefi alveg ótvírætt til kynna að fjölgun áfengissjúklinga er mjög ör og það verði að neyta allra ráða, það megi hvergi slaka á og verði að leita allra úrræða til að mæta þessum vágesti. Hitt er svo merkilegt, að það skuli helst ekki hvarfla að neinum í sambandi við þessi mál, að það sé ástæða til þess fyrir hið opinbera að breyta háttum sínum og hætta þeirri siðvenju að gera allt sem unnt er til þess að rótfesta þá skoðun, að dagamunur og góðra vina fundur sé óhjákvæmilega tengdur áfengisneyslu. Það held ég að menn ættu að íhuga í leiðinni, þegar þessi vandamál eru rædd.