08.03.1979
Efri deild: 67. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3118 í B-deild Alþingistíðinda. (2419)

166. mál, grunnskólar

Bragi Níelsson:

Herra forseti. Mér varð nú á, eins og sumum frægum persónum í mannkynssögunni, að gleyma ræðunni minni heima. Þetta hefur stundum komið sér illa, en ég veit ekki hvort það skiptir öllu máli hér.

Þetta mál, sem hér er til umr., hefur tekið afskaplega undarlega stefnu í umr. í þessari d., þar sem sáralítið hefur raunverulega verið um efni frv. talað, hins vegar miklu meira um pólitískar skoðanir og þá jafnvel jaðarskoðanir frá vinstri til hægri. Ætla ég engan veginn að taka þátt í slíkum umr., enda þykist ég ekki vera neinn útkanta maður í pólitík.

Hitt var svo, að þegar ég leit þetta frv. fyrst fannst mér líklega ekki vera mikið mál þarna á ferðinni. En ég fór að kynna mér þetta. Ég ræddi við skólamenn, sem ég þekki, og hef þar af leiðandi komist að nokkuð annarri niðurstöðu.

Með auknum áhuga á félagsvísindum hafa skólarnir nokkuð breytt um svip. Þeir hafa breytt um svip m. a. þannig, að allt niður í grunnskóla hafa félagsvísindin svo þrykkt sér inní áhugasvið nemendanna, að 10–12 ára krakkar haga sér í námi sínu eins og þjálfaðir félagsfræðingar. Hins vegar er mér sagt að það séu stundum allundarlegar skoðanakannanir sem börnin eru að gera á sambekkingum sínum. Virðast þá mál koma til greina sem ekki væri alveg heppilegt — a. m. k. frá foreldralegu sjónarmiði — að væri flaggað mikið.

Að sjálfsögðu eigum við mikið ólært í félagsvísindum og mikið órannsakað hér á landi, því félagsvísindin eru ung fræðigrein, fyrst og fremst hér á landi. Ég er því vissulega fylgjandi að rannsóknir fái að fara fram, en ég er líka fylgjandi frv., sem hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir flytur hér, því að mér er fullljóst að verulegar skorður verður að gera gagnvart ungmennum, svo að ekki verði misbeitt valdi sem kennarar eða einhverjir nemendur í félagsvísindum vildu beita gagnvart þessu unga fólki. Mér er t. d. kunnugt um að það þykir ekki við eiga að börn eða unglingar séu yfirheyrð af lögreglu öðruvísi en að viðstaddir séu einhverjir menn, t. d. frá barnaverndarnefnd, svo að tryggt sé að hvorki sé níðst á nemendum né aðstandendum þeirra. Málið er nefnilega tvöfalt. Það er líka verið að hugsa um að vernda nemendurna og aðstandendur þeirra gagnvart utanaðkomandi áhrifum hvort sem það eru lögforeldrar eða aðrir.

Við Íslendingar höfum sjálfsagt verið yfirleitt það bláeygir, eins og sagt er, að við höfum ekki verið að gruna menn um að þeir séu að fara þarna út á vafasamar brautir, t. d. að fara út í svo nákvæma könnunarsöfnun að kannske ekki þeir sjálfir, sem að könnuninni standa, heldur e. t. v. aðrir, sem ekki væru með jafngöfuga hugsun á bak við sig, vildu að fara að kíkja í skýrslur og athuga segulbönd. Þá erum við vissulega komin út á hálar brautir.

Hitt atriðið, sem hefur komið fram í þeim löngu umr., sem hafa orðið um þetta mál, er pólitíkin sem þrýst er inn í skólana. Ég hélt í upphafi að hún kæmi ekki þessu máli við. En ég hef lesið dagblöðin — skrykkjótt eins og aðrir — og sá það m. a. í Þjóðviljanum fyrir skömmu, að æskulýðsnefnd Alþb. gerir nú skipulagsbundna herferð inn í framhaldsskólana með pólitískum áróðri. Þessa heimild hef ég fyrst og fremst frá Þjóðviljanum, þ. e. a. s. orðalagið er mitt, en ekki Þjóðviljans. Þess vegna má vel vera að full ástæða hafi verið fyrir hv. þm. Ragnhildi Helgadóttur að vega nokkuð að þeim stjórnmálaflokki í þessu tilviki.

Mér er sem sagt tjáð af skólamönnum, sem ég hef haft samband við, að svo lausar séu skorður gegn mögulegu misrétti gagnvart börnum og aðstandendum þeirra að full ástæða sé til að herða á í þá átt sem flm. vill gera með þessu frv. Af þeim ástæðum mun ég vissulega styðja það, að þetta mál haldi áfram til mjög vandlegrar skoðunar í n. Ég býst við að þarna séu göt í íslenskri löggjöf sem full ástæða væri til að reyna að stoppa eitthvað í.