08.03.1979
Efri deild: 67. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3121 í B-deild Alþingistíðinda. (2421)

166. mál, grunnskólar

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Í ræðu minni fyrir nokkrum dögum gerði ég skýran greinarmun á því, sem hefði verið rökstuðningur flm. fyrir þessu frv., og því, sem í frv. er. Í svarræðu sinni sagði hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir, að hún hefði aðeins farið nokkrum orðum um Árósakönnunina og vildi gera sem minnst úr meðhöndlun sinni á þeirri könnun í tengslum við þetta frv. Staðreyndin er samt sem áður sú, að 7 af 15 dálkum framsöguræðu frv. í þingtíðindum eru eingöngu helgaðir þessari Árósakönnun. Ef það eru nokkur orð, þá ætti sjálfsagt öll framsöguræða hv. þm. á sömu mælistiku að vera fáeinar setningar. En ég fagna því að vissu leyti, ef ég get skilið þá ræðu svo, sem hv. þm. flutti sem svarræðu, að hún sjái að hún hafi gengið of langt í árásum sínum á þessa ungu fræðimenn, að hún í svarræðu sinni og með birtingu hennar í opnu Morgunblaðsins daginn eftir og þeim texta, sem þar er valinn, vill greinilega draga í land hvað þessar árásir snertir. Ekki skal ég lasta það, þótt hv. þm. vilji nú gera sem minnst úr þessum atriðum. Ég held að það sé varla með nokkurri sanngirni hægt að telja að öll sú umfjöllun, sem könnunin fékk í framsöguræðu hv. flm., séu nokkur orð, eins og hún sagði í svarræðu sinni, enda kemur fram í framsöguræðunni að þessi könnun er tilefni frv.

Ég benti hv. frsm. á það, að margar aðrar álíka kannanir hefðu farið hér fram um hliðstæð efni, þar sem jafnnákvæmra persónulegra upplýsinga hefði verið aflað, það væri algjörlega ástæðulaust að fara að gera svona mikið mál úr þessari könnun þessara ungu fræðimanna, nema það þjóni ákveðnum pólitískum tilgangi.

Ég mælti gegn því, að þm. væru hér að taka verk fjarstaddra fræðimanna til umr. á þennan hátt og hagnýta þau í þessu skyni þegar af nógu væri að taka. Það er mikill misskilningur hjá hv. þm., ef hún heldur að þessi könnun sé eitthvert einsdæmi. Enn fremur lét ég það koma fram áður og vil undirstrika það aftur nú, að þetta frv. er að nokkru leyti flutt undir merkjum frjálshyggju og merkjum mannréttinda, eins og hvað eftir annað hefur komið fram í málflutningi flm., en bæði í framsöguræðu og eins að nokkru leyti í frv. eru skoðanir og ákvæði sem ganga þvert á þessa frjálshyggju og eru í reynd í ætt við íhaldsstefnu þeirra sem vilja beita pólitískum valdastofnunum, bæði embættisstofnunum og stjórnstofnunum, til þess að setja framþróun mannlegrar þekkingar margvíslegar skorður.

Það er hins vegar ósköp eðlilegt, að þegar allur þungi málflutningsins hjá flm. er byggður á svonefndri Árósarkönnun, þá sé meginsvarið, sem kemur fyrst fram, tengt þessari sérstöku könnun. Enn fremur er ekki óeðlilegt þótt tveir síðustu ræðumenn hafi furðað sig á því, að inn í þessar umr, hafi blandast það sem þeir kölluðu pólitísk skoðanaskipti, vegna þess, að hvað eftir annað í framsöguræðu flm. kemur fram, að hvatinn að flutningi frv. er af pólitískum toga spunninn. T. d. er ákvæði 1. gr. frv. rökstutt á þann hátt, eins og segir orðrétt í framsöguræðu, að „það stingur óþyrmilega í augun vissan pólitískan flokk manna hér á landi. Það undrar mig í sjálfu sér ekki og samrýmist þeim aðferðum sem sá flokkur notar“ o. s. frv. Og enn fremur segir í ræðunni, með leyfi hæstv. forseta:

„Og ekki er síst þörf á því þegar þeir, sem vilja beita pólitískum áróðri í skólum telja sér nú auðvitað alla vegi fremur færa þar sem Alþb., skjól og skjöldur vinstri öfgamanna, fer með þriðjung ríkisstjórnarinnar í landinu.“

Ég vil spyrja hv. síðustu ræðumenn báða, hvort rökstuðningur af þessu tagi fyrir frv. gefi ekki tilefni til pólitískrar umr. og um þann pólitíska tilgang, sem þarna liggur að baki. Eini rökstuðningurinn, sem kom fram fyrir 1. gr. þessa frv. frá hv. flm., var sú staðhæfing hennar, að öfl hlynnt eða undir skjóli Alþb. stunduðu pólitískan áróður í skólum. Það var tilefni greinarinnar.

Ég benti á það í minni ræðu, að slíkt væri algjörlega út í hött, enda hefur flm. ekki nefnt nein sérstök dæmi um það, heldur farið með þessa almennu staðhæfingu, sem lesa má í Morgunblaðinu og víðar, að Alþb.-menn stundi áróður í skólum. (RH: Hvar í ræðunni er sú staðhæfing?) Ég skal lesa þessa tilvitnun aftur fyrir hv. flm., með leyfi hæstv. forseta:

„Og ekki er síst þörf á því þegar þeir, sem vilja beita pólitískum áróðri í skólum, telja sér nú auðvitað alla vegi fremur færa þar sem Alþb., skjól og skjöldur vinstri öfgamanna fer með þriðjung ríkisstjórnarinnar í landinu.“

Hér er sem sagt verið að staðhæfa — (Gripið fram í.) Það má vel vera að ræða — (RH: Hún er ekki þarna.) Nei, það má vel vera að hv. flm. hafi samið ræðuna svo lymskulega að það sé hvergi að finna fullgilda staðhæfingu, heldur sé reynt að gefa eins mikið í skyn og hægt er án þess að þurfa að standa ábyrgð orða sinna. Hún birti hér ítarlega gagnrýni, sem hún kallaði svo, á þetta fræðiverk frá nafnlausum fræðimanni. Það yfirskin, að sá fræðimaður sé staddur í útlöndum, er léttvægt yfirskin vegna þess að það er símasamband við útlönd. Þegar fluttur er hér inn á Alþ. málflutningur af þessu tagi, þá er ekki mikið verk að fá gagnrýnandann til þess að þora að standa við það undir nafni. Það er siðvenja í samskiptum fræðimanna, að það birtist aldrei nafnlaus gagnrýni á fræðiverk annarra. Þar eru öll skoðanaskipti undir nafni, en það er ein af þeim aðferðum, sem beitt er í þessum málflutningi, að birta nafnlausa gagnrýni af þessu tagi, — sagt er að vísu að hún sé eftir þjóðkunnan stærðfræðing. (RH: Það eru beinharðir útreikningar.) En ef þessi gagnrýni er lesin, þá er í henni að finna margvíslegar fullyrðingar sem eru ekki í neinni ætt við stærðfræðikunnáttu, heldur byggjast fyrst og fremst á hugsanlegri þekkingu á uppeldisvísindum og sálarfræði, sem þessi gagnrýnandi greinilega telur sig hafa. Ég skal ekkert um það segja, hver þessi gagnrýnandi er. Það verður fróðlegt að fylgjast með því, ef það verður einhvern tíma upplýst, en það er eitt dæmið um vinnubrögðin í þessu efni.

Ég vil frekar kjósa að skilja það svo, að þá ræðu, sem flm. flutti hér, beri að skilja á þann veg, að hún sé að draga í land með það að nota þessa Árósakönnun sem alfa og ómega þessa máls. Fjölmargir aðrir fræðimenn komu hér við sögu, og ég nefndi þann fremsta á því sviði, dr. Tómas Helgason, — og ég get því miður ekki gert að því þó hann sé bróðir hv. flm., það kemur málinu ekkert við, — nefndi þann fremsta á þessu sviði og gaf honum allt það lof og hót, sem hann á í þessum efnum. Þær rannsóknir hafa verið stundaðar miklu lengur og miklu ítarlegar og eru í raun og veru miklu meira virði, enda ganga þær miklu nær persónulegum högum manna. Það, sem ég sagði í minni ræðu, er að allur þessi málatilbúnaður ásamt skrifunum sem eru í kringum þetta mál í Morgunblaðinu, í kringum þetta mál í leiðara Vísis og á fundum Sjálfstfl., sem ég reikna með að hv. flm. hafi haft einhver afskipti af, er verið að reyna að nota verk ungra fræðimanna sem tilefni pólitískra árása. Eins og ég sagði í ræðu minni er auðvitað hægt að finna sitthvað og oft á tíðum fjölmargt gagnrýnisvert í fræðiverkum sem eru prófritgerðir við erlenda háskóla. Það er einu sinni eðli prófritgerðar. En ég var að mótmæla því og geri það enn og aftur, að pólitíkusar á atkvæðaveiðum telji sér kleift og mögulegt, telji það jafnvel til góðra siða í stjórnmálum að seilast til slíkra fræðiverka og nota þau sem vopn.

Ég verð að segja, að mér fannst málflutningur tveggja síðustu ræðumanna hér í raun og veru vera af allt öðru tagi. Ég sagði í svarræðu minni að það hefði verið hægðarleikur fyrir hv. flm., ef hún hefði viljað fá málefnalega umr. um frv. hér í d., að halda sér frekar við efnislegar röksemdafræðslur af því tagi sem tveir síðustu ræðumenn, væntanlegir stuðningsmenn frv., höfðu hér uppi, eða þá, ef það var ætlun hennar að nota einstakar rannsóknir sem dæmi, að ganga þá í smiðju til þeirra, sem hafa yfirlit yfir þær rannsóknir sem hafa verið stundaðar af þessu tagi, og hafa þá allt með. Mér finnst það satt að segja vera frekar ómerkilegt að vera að ráðast með öllu því valdi, sem hv. formaður menningarmálanefndar Norðurlandaráðs og hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir hefur, á unga fræðimenn sem eru að skila prófritgerðum. Mér finnst það satt að segja ekki sæmandi. Mér finnst það lágt lagst í pólitískum málflutningi. En nóg um það.

Ég ætla að vona að þau orðaskipti, sem hér hafa átt sér stað, geti orðið tilefni til þess, að við í raun og veru látum þessa Árósakönnun algjörlega liggja á milli hluta. Ég vil þó aðeins vekja athygli tveggja síðustu ræðumanna á því, að það má vel vera að spurningar um kynferðismál í þessari könnun séu tilefni til þeirra aths. sem hér komu fram h já síðasta ræðumanni, en eins og komið hefur fram hjá aðstandendum þessarar rannsóknar var m. a. markmið hennar að afla þekkingar sem yrði lögð til grundvallar ákvörðunartöku um kynlífsfræðslu í skólum, — þekkingar sem er fyrirliggjandi í fjölmörgum nágrannalöndum okkar, en liggur ekki fyrir hér. Það er a. m. k. mitt viðhorf, að vísu að lítt athuguðu máli, að það sé gagnlegt, áður en menn ákveða hvernig á t. d. að meðhöndla kynvillu í kynlífsfræðslu í skólum, að hafa einhverja hugmynd um hugsanlega reynslu nemenda eða upplifun af mismunandi tegundum kynlífsneyslu. Ég sé satt að segja ekki hvernig á að vera hægt að byggja upp raunhæfa kynlífsfræðslu í skólum án þess að hafa ítarlegar upplýsingar um þær miklu breytingar, sem orðið hafa á kynlífsupplifun ungs fólks á allra síðustu árum, því þar hafa orðið, eftir því sem fræðimenn í öðrum löndum hafa leitt í ljós, afgerandi breytingar. Ef við hefðum ekki þekkingu um þau efni, þá gætum við lent í þeirri gryfju að vera með algjörlega óraunhæfa kynlífsfræðslu á okkar skólastigi.

Ég held að það liggi alveg ljóst fyrir, að könnun á kynlífsreynslu, kynlífsupplifun unglinga, er nauðsynlegur þáttur til þess að geta skipulagt raunhæfa kynlífsfræðslu í skólum. (RH: Áttu þessir stúdentar að skipuleggja þá fræðslu?) Nei, en ég reikna hins vegar með því, að þau yfirvöld, sem þessa könnun leyfðu, telji nauðsynlegt að hafa einhverjar slíkar upplýsingar, enda var það ekki ætlun stúdentanna að skipuleggja fræðsluna. Sú verkaskipting er mjög algeng á fjölmörgum sviðum, að fræðimenn taka að sér að afla þekkingarinnar og síðan taka embættismenn og önnur stjórnsýsluyfirvöld við þeirri þekkingu og byggja á henni tillögur um nýja skipulagshætti o. s. frv., og má vísa til enn fjölmargra dæma úr hagfræði, úr verkfræði og úr læknavísindum í því sambandi.

Að þessum orðum mæltum ætla ég að víkja nokkrum orðum að því, sem ég hef ekki gert til þessa og það með ráðnum huga, að fjalla um ákveðin, nákvæm efnisatriði í þessu frv. Mér fannst árás flm. á þessa ungu fræðimenn færa umr. á allt annað stig og í raun og veru gera það að verkum að það væri varla virðingu deildarinnar samboðið að ræða frv., sem þannig væri rökstutt, á efnislegum grundvelli, þá væru menn í raun og veru að leggja lið þeirri árásarherferð á þessa ungu fræðimenn sem hefur gengið eins og rauður þráður í gegnum allan þennan málflutning; allt frá ræðu hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur yfir í grein Ragnars Ingimarssonar í Morgunblaðinu, þar sem hann er að leiða líkur að því, að þessir ungu fræðimenn geti kannske selt þessar upplýsingar einhvern tíma síðar til fíkniefnasala og grætt á því stórfé.

Það, sem mér finnst vera megingallinn á því frv. sem hér liggur fyrir, miðað við þann tilgang sem því er greinilega ætlað að ná, er ýmislegt og ég ætla fyrst að taka þær greinar frv., 2. og 3. gr., sem snerta rannsóknarmöguleika í skólum, vegna þess að 1. gr. frv. er af allt öðru tagi. Hún er í raun og veru um allt annað mál. Það er eitt af því sem er e. t. v. ekki heldur tilviljun um upphaf málsins, að þessum tveimur nokkuð óskyldu málum er blandað saman, annars vegar spurningunni um rétt manna til þess að fá fræðslu í samræmi við trúar- og lífsskoðanir og hins vegar rannsóknarstefnu í skólakerfinu, sem er í eðli sínu allt annað.

Markmið þessara greina virðist vera að veita forráðamönnum nemenda verulegan rétt og vald til þess að setja skorður við þeim spurningum sem fræðimenn telja nauðsynlegt að nemendur svari í skólunum, og í öðru lagi að veita menntmrn. nánast alræðisvald, eins og ég skil þennan texta, um hvaða rannsóknir eru stundaðar á íslenska skólakerfinu. (Gripið fram í.) Ja, ekki sýnist mér það nú, eins og ég les þennan texta. Mér finnst að í 3. gr. frv. sé vald menntrmrn. á þessu sviði eflt enn frekar.

Ég skal reyna í stuttu máli að rekja ýmis atriði sem mér finnst vera tilefni til þess að draga í efa að þessir tveir meginþættir, sem þarna koma fram í frv., séu efnislega réttir. Ég rakti það í síðustu ræðu minni, sem flutt var fyrir nokkrum dögum, að á íslensku þjóðfélagi eru að gerast breytingar sem gerst hafa í ýmsum þróaðri þjóðfélögum á síðustu 10–20 árum. Fjölskylduferlið er að taka slíkum breytingum að stór hluti ungmenna eignast fleiri en tvö foreldri á sínum lífsferli. Þessi breyting á eðli fjölskyldunnar hefur knúið fram umr. um nýjan skilning á réttarstöðu forráðamanna barna og nemenda annars vegar og réttarstöðu barnanna eða nemendanna og unglinganna sjálfra hins vegar. Verulegur þáttur þessarar umr. felur í sér að það sé nauðsynlegt að tryggja nemendunum sjálfum ákvörðunarrétt um fjölmörg málefni sem til þessa, í samræmi við eldri þjóðfélagshætti, hafa verið taldir í verkahring foreldra eða forráðamanna. Ein af ástæðunum, sem ég nefndi og hv. flm. virtist eiga nokkuð erfitt með að skilja ef dæma má af hennar svarræðu, var að unglingar með 3–4–5 foreldri lenda oft í átökum við eða milli foreldranna um hvers konar uppeldi, hvers konar lífsstíl, hvers konar fjölskylduhætti nemandinn á að temja sér.

Í þessu sambandi er alveg greinilegt, eftir því sem margvíslegar upplýsingar leiða í ljós, að það er beinlínis nauðsynlegt barnanna, nemendanna og unglinganna sjálfra vegna að tryggja þeim ákveðið forræði eða aðgang að ákveðnu forræði. Lagafrv. nær til grunnskólans sem er með unglinga á því aldursskeiði þar sem nauðsynlegt er að tryggja þeim einnig ákveðinn rétt, ekki bara forræði foreldranna, heldur líka vissan sjálfsákvörðunarrétt nemendanna.

Ég vil aðeins til gamans geta þess hér, að ég var ásamt þremur öðrum þm. í einum af grunnskólum borgarinnar fyrir nokkrum dögum þar sem nemendur í efri bekkjum grunnskólans lögðu fyrir okkur spurningar um þjóðmál. Þessar spurningar voru svo beittar, sýndu svo þroskaðan skilning á því sem er að gerast í stjórnmálalífinu, að ég efast um að þm. hefðu getað orðað þær betur eða skarpar. Við töluðum um það, allir þm., að loknum þessum fundi, hve í raun og veru þekking og áhugi og skarpskyggni nemendanna, þessa unga fólks, á þjóðmálunum hefðu verið rík.

Ég held að allir þeir, sem hafa fylgst með þessum breytingum, hljóti að gera kröfu til þess, að þegar verið er að setja lög af þessu tagi, þá feli það í sér ákvæði um það, hver eigi að vera réttur nemendanna sjálfra.

Hvað snertir rannsóknirnar, þá drap hv. þm. Bragi Níelsson á það áðan, að það er orðið mjög algengt í grunnskólum og framhaldsskólum að nemendurnir eru sjálfir látnir stunda alls konar rannsóknarstarfsemi. Þessi kennsluaðferð er talin nauðsynleg til þess að þroska og þjálfa nemendur í grunnvinnubrögðum fræðimannanna sjálfra. Þessi kennsluaðferð er ekki bundin við félagsvísindi eða uppeldisvísindi. Hún ruddi sér braut fyrst og fremst við eðlisfræðikennslu og efnafræðikennslu. Kennslustefnan byggist á því að þjálfa nemandann frá unga aldri, jafnvel frá fyrstu bekkjum grunnskólans, í grundvallarvinnubrögðum og grundvallaraðferðum þekkingarleitar sem vísindamenn á æðri menntastigum beita. Til að ná þessu fram hefur í eðlis- og efnafræðikennslu skólakerfisins verið innleidd margvísleg ný tækni sem byggist á því að þjálfa nemandann sem rannsóknarmann. Þessari kennslutækni er einnig farið að beita í mannvísindunum svokölluðum. Ein af þeim aðferðum, sem mjög er beitt í þeim efnum, er að gefa nemendum kost á því að semja alls konar spurningalista, þjálfa þá í aðferðunum, veita þeim tækifæri til að fá mismunandi svör, flokka þau, skerpa athygli þeirra við að greina á milli mismunandi tegunda af svörum o. s. frv.

Í þessu frv. er alls ekki ljóst hvort þyrfti leyfi menntmrn. til þess að beita slíkum kennsluaðferðum í grunnskólanum, hvort kennara, sem vill fara með nemendahóp í gegnum einhverja litla rannsókn af þessu tagi, jafnvel spyrja um tómstundalíf eða það sem er kallað heimilishagir í frv., — hvort honum væri það bannað, hvort hann þyrfti að sækja um það til menntmrh. Það fer sjálfsagt eftir því, hvaða skilningur yrði lagður í hugtakið fræðileg rannsókn. Það er hugsanlegt að þröngsýn embættisyfirvöld vildu beita ákvæði þessarar greinar í því skyni að leggja bann við slíkum könnunum eða þá að foreldrar eða forráðamenn notuðu þessa lagagrein til þess að grípa inn á verksvið kennarans og reyna að koma í veg fyrir að fullkomlega eðlilegum kennsluaðferðum af þessu tagi væri beitt. Ég tel þess vegna að þessi grein sé ekki nægilega skýr um það, hvort hún í raun og veru leggur stein í götu þeirra kennsluaðferða í þessum greinum sem færustu uppeldis- og kennslufræðingar, sem á þessu sviði starfa, telja höfuðnauðsyn ef á að vera hægt að beita sams konar þroskaaðferðum við kennslu í þessum fræðigreinum og nú er beitt í raunvísindum. Það er ein af ástæðunum fyrir því, að í fjölmörgum grunnskólum og framhaldsskólum þessa lands eru nemendur að gera margvíslegar kannanir af ýmsu tagi. Þessar kannanir eru kennslutæki. Þær eru ekki fyrst og fremst fræðilegar í þeirri merkingu, að niðurstaða þeirra verði ritgerðir sem gefnar eru út í fræðitímaritum, en þær eru hins vegar brot af fræðilegu uppeldi.

Annað atriði, sem ég vil nefna, er að hvergi í þessu frv. er minnst á þær tvær menntastofnanir sem falið er skv. lögum að annast vísindalegar rannsóknir í uppeldisfræðum á Íslandi. Í þessu frv. er hvergi að finna ákvæði um rétt Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands til rannsókna í uppeldisfræðum í skólakerfinu. Skv. texta frv. virðist vera ætlast til þess, að menntmrn. hafi algjöran úrskurðarrétt um hvaða aðgang þeir fræðimenn, prófessorar og aðrir kennarar við Kennaraháskóla Íslands og Háksóla Íslands sem skv. lögum ber skylda til þess að þróa uppeldisfræði og kennslufræði sem vísindagrein á Íslandi, geta haft til þeirrar starfsemi sinnar.

Nú vil ég taka það fram vegna þess sem ég segi hér á eftir, að ég hef í sjálfu sér enga ástæðu til þess að vantreysta núverandi embættismönnum í menntmrn. né núv. og fyrrv. menntmrh. Þau orð, sem ég segi hér á eftir, má alls ekki skilja á þann hátt, að nokkuð slíkt tilefni sé í þeim að finna. Hins vegar vara ég nokkuð við því að fela einum aðila — og það embættisstofnun — slíkt miðstjórnarvald varðandi vísindastarfsemi sem þarna er gert. Það er væntanlega gert í trausti þess, að viðkomandi embættisstofnun hafi nægilegt víðsýni, nægilegan skilning á eðli og þörfum vísindalegrar framþróunar til að misbeita ekki þessu valdi á þann hátt að þrengja mjög möguleika fræðigreinanna til allrar framþróunar.

Ég held að reynslan úr fjölmörgum löndum öðrum ætti að vera okkur til varnaðar að stiga ekki spor af þessu tagi eða festa enn frekar í sessi þá skipan, að það sé menntmrn. eitt sem fari með þetta vald, en þær tvær vísindastofnanir, Kennaraháskóli Íslands og Háskóli Íslands, sem ætlað er skv. lögum að annast fræðilegar rannsóknir á þessu sviði, hafi nánast engan sjálfsákvörðunarrétt í þessum efnum, ekki nokkurn.

Ég er ekki viss um að kollegar tveggja síðustu ræðumanna, læknar á Íslandi, myndu telja það eðlilega skipan ef rn. í heilbrigðismálum hefði svo algert vald yfir því að ákveða hvaða rannsóknir í heilbrigðismálum væru stundaðar á Íslandi og hverjar ekki. Ég held að tryggingin fyrir því, að fræðimenn misnoti ekki aðstöðu sína, setji ekki fram rangar niðurstöður eða mistúlki ekki heimildirnar sem þeir hafa aflað, — sú trygging geti aldrei til lengdar falist í valdi embættisstofnunar. Sú trygging tel ég að felist til lengdar fyrst og fremst í því, að allar rannsóknirnar séu opnar fyrir gagnrýni annarra fræðimanna, að þær séu allar, gögn þeirra, lögð fram á þeim stöðum þar sem fræðimennirnir vita að samstarfsmenn þeirra, aðrir fræðimenn í þessum greinum, geta tekið rannsóknirnar til gagnrýnnar skoðunar, geta dregið niðurstöður þeirra í efa með þeim gagnrýnisaðferðum sem tíðkast innan fræðigreinanna. Ég er nokkurn veginn viss um að það væri raunhæfari trygging fyrir því, að þessari aðstöðu væri ekki misbeitt, að skylda fræðimenn til þess að leggja gögn sín inn á opinberan geymslustað, t. d. í Kennaraháskóla Íslands eða Háskóla Íslands, þar sem þau væru opin til keyrslu og annarrar meðferðar fyrir aðra fræðimenn. Það væri í raun og veru miklu raunhæfari trygging fyrir eðlilegri þróun þessara rannsókna heldur en að fela þetta eingöngu embættisstofnun sem á síðan að halda sér í tilkynningar í Lögbirtingablaði sem aðhaldsákvæði.

Ég sé, hæstv. forseti, að klukkan er kortér yfir fjögur. Ég vildi spyrja hvað hæstv. forseti hefur hugsað sér. (Forseti: Það var ætlunin að halda fundi áfram dálítið fram yfir venjulegan fundartíma.) Já, en einn þingflokkanna hefur boðað þingflokksfund kortér yfir fjögur. (Forseti: Mér hefur ekki verið tjáð það, heyri það fyrst núna, og mun verða tekið tillit til þess. En hefur ræðumaður senn lokið ræðu sinni? Þá mundi ég hinkra við meðan hann lyki ræðu sinni eða fyndi heppileg þáttaskil.) Ég skal reyna að koma þessum meginatriðum á framfæri á næstu mínútum. Ég er ekki viss um að mér takist að tæma öll þau atriði, en mér gefst þá kannske tækifæri til að gera örstutta aths. síðar ef þörf er á.

Ég tel að við endurskoðun 2. og 3. gr. í nefnd þurfi að kveða miklu skýrar á um rétt forráðamanna nemenda annars vegar og nemendanna sjálfra hins vegar, það þurfi að kveða miklu skýrar á um heimild starfsmanna skólanna til þess að stunda rannsóknarstarfsemi í skólunum sjálfum, það þurfi að kveða á um hlutdeild þeirra vísindastofnana í landinu sem falið er að fjalla um þessi málefni, eins og Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands. Það þarf að tryggja að íhlutunarréttur forráðamanna um rannsóknir í skólunum komi ekki í veg fyrir eðlilegar rannsóknir. Það vita allir, sem fengist hafa við kannanir af þessu tagi, að ef spurningalistinn er kynntur

— (Gripið fram í.) Eðlileg rannsókn er ranasókn sem er ætlað að leiða í ljós ákveðna ný ja þætti í þekkingu manna á skólanum sem uppeldis- og fræðslustofnun og á ýmsum einkennum félagshópa af ýmsu tagi. Óeðlilega rannsókn myndi ég telja þá sem fyrst og fremst beindist að því að kanna persónuhagi einstaklinga sem einstaklinga. Eðli kannana, sem byggjast á spurningalistum eða viðhorfslýsingum og frásögnum af atferli, er nú einu sinni þannig, að ef spurningalistarnir eru teknir til ítarlegrar meðhöndlunar og umræðu, t. d. af starfsmönnum skólans eða foreldrum til kynningar áður en könnunin fer fram, þá getur það jafngilt því að ónýta könnunina vegna þess að þá fara að eiga sér stað gagnkvæmir áhrifastraumar um það, hvernig spurningunum sé svarað, og sjálfsögð og eðlileg svör við spurningunum koma ekki fram. Ákvæði af þessu tagi geta vissulega verið veruleg hindrun á því að hægt sé að stunda eðlilega rannsóknarstarfsemi af þessu tagi, sérstaklega hér í okkar litla þjóðfélagi. Ég er ekki að segja að þar með sé óeðlilegt að forráðamenn viti um hvað könnunin er. En ef íhlutunarrétturinn er t. d. í því fólginn að fá að grandskoða spurningalistann, senda hann heim á heimilin áður hann gengur í skólanum o. s. frv., þá getur það jafngilt því að eyðileggja gjörsamlega allt fræðilegt gildi rannsóknarinnar.

Herra forseti. Ég hafði ætlað mér að ljúka þessari ræðu. En ég sé að hv. flm. frv., hefur ekki sérstakan áhuga á því, að umr. um málið sé lokið nú, með fjarveru sinni úr salnum. Ég ætla þess vegna að fresta ræðu minni, ef ég má, með leyfi hæstv, forseta. [Frh.]