09.03.1979
Sameinað þing: 65. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3167 í B-deild Alþingistíðinda. (2465)

78. mál, smíði brúar yfir Ölfusá við Óseyrarnes

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ekki svo að skilja, að ég ætli nú að lengja umr. um þetta þjóðþrifamál, að mínum dómi, sem hv. þm. Garðar Sigurðsson mælti fyrir. Ég er ekki viss um að haldinn hafi verið öllu gagnorðari eða styttri ræðu um þörf fyrir svo langa brú sem hv. þm. gerði áðan. Ég er honum í öllum atriðum sammála um nauðsyn þess að brúa Ölfusá við Óseyrarnes.

Ég hefði sennilega látið nægja að fylgjast af athygli með ræðu hans og þakka honum fyrir hana á eftir, ef ekki hefði komið þetta innskot, þessar glaðlegu undirtektir frá hv. þm. Ólafi Björnssyni. Ég veit að hv. þm. gerir sér grein fyrir hættunni sem lífi og limum landsmanna er búin af herstöðinni í Keflavík. Ég er næstum því alveg viss um að hann er mér samdóma um að einfaldasta ráðið til þess að stugga þessari hættu burt er náttúrlega að losa okkur við herstöðina og þar með hættuna um leið.

Norðmenn hafa efalítið neytt ýmissa ráða til þess að koma vegum um sitt óralanga land. Hvert stolt þeirra hefur verið í sambandi við þá vegagerð veit ég ekki, en hitt veit ég, að stolt þeirra og vitsmunir hafa komið í veg fyrir að þeir leyfðu Atlantshafsbandalaginu, og þó fyrst og fremst Ameríkumönnum, að koma upp herstöð í landi sínu. Þeim vanda hafa Norðmenn komið yfir á Íslendinga, að hýsa þá herstöð.

Ekki má ég til þess hugsa að við færum að biðja Kanann um að brúa fyrir okkur Ölfusá við Óseyrarnes. Það er á valdi okkar sjálfra. Við höfum efni á því að gera það. Ég er alveg viss um það, að ef við neytum nú nýrra ráða í útreikningum, verðútreikningum og arðsemiútreikningum, eins og hv. þm. Garðar Sigurðsson benti á, förum ekki að miða arðsemina við núverandi umferð yfir Ölfusárós, eins og þessir hv. sérfræðingar virðast í raun og veru gera, heldur miðum við umferð um þessa brú þegar hún verður komin, þá mundi það blasa við okkur að við fengjum þessa peninga ákaflega fljótt til baka. Og vel gæti það haldist í hendur við þá róttæku aðgerð, sem ég minntist á, að stugga burt frá okkur hættunni af Keflavíkurflugvelli.