12.03.1979
Efri deild: 68. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3177 í B-deild Alþingistíðinda. (2474)

197. mál, söluskattur

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst og fremst lýsa stuðningi mínum við þetta frv. Snjómokstur er mjög þýðingarmikið atriði af mörgum ástæðum. Við vitum hvað einangrun hefur nú á dögum mikil áhrif á fólk. Þetta er í raun og veru líka sálfræðilegt atriði. Margir eiga erfitt með að þola að vera einangraðir og sætta sig við að vera innilokaðir — kannske langtímum saman. Á snjómokstri, jafnvel í ríkari mæli en sinnt hefur verið hingað til, er því mikil þörf um allt land.

En það, sem ég vil vekja sérstaklega athygli á, er hvort ekki sé kominn tími til að athuga hvort sveitarfélögin gætu ekki undir vissum kringumstæðum framkvæmt snjómokstur með meiri árangri og með ekki meiri kostnaði en Vegagerðin. Sveitarfélögin eru komin með margs konar tæki sem þau þurfa að nota til ýmissa verka, og mætti segja mér að þau, sem vita hvar skórinn kreppir, væru ekki síður fær um að moka snjó af vegum innan sveitar og jafnvel úti á þjóðvegum í næsta nágrenni og gætu gert það á auðveldari hátt og þegar veruleg þörf er fyrir, ekki síður en sá aðili sem nú sér um þessar framkvæmdir. Ég veit að það hefur verið vilji ýmissa sveitarfélaga að fá að vinna þetta verk, en erfitt hefur verið að ná samningum um það við Vegagerðina. Ég vildi sérstaklega vekja athygli þeirrar n., sem fær þetta mál til athugunar, á því, hvort ekki væri ástæða til að athuga þennan möguleika, sem ég held að gæti orðið til þess að verkið yrði ekki síður vel unnið, en gæti líka orðið til sparnaðar og hagkvæmni.