13.03.1979
Sameinað þing: 66. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3203 í B-deild Alþingistíðinda. (2496)

342. mál, endurgreiðsla almannatrygginga vegna ferðakostnaðar sjúklinga

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Það er ljóst að margt fólk þarf iðulega að takast skemmri eða lengri ferð á hendur vegna lækniserinda og sér í lagi er það þá dreifbýlisfólk, eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda. Meiri hluti slíkra ferða er ýmist ekki svo kostnaðarsamur eða svo vel aðgreinanlegur frá öðrum erindum fólks að rétt eða fært hafi þótt að fella kostnað við þær undir bótagreiðslur sjúkratrygginga. Hins vegar er á stundum um verulegan og óhjákvæmilegan kostnað að ræða, þegar sömu sjúklingarnir komast ekki hjá því að ferðast hvað eftir annað, jafnvel um langan veg, til þess að njóta sérfræðilegrar læknishjálpar.

Það var til að bæta úr brýnni þörf af þessu tagi sem ákvæði í staflið j í 44. gr. laga um almannatryggingar var sett inn á s. l. vori, en það tók gildi nú um áramótin. Tryggingaráð samþykkti reglur um ferðakostnað sjúklinga á fundi sínum 13. des. s. l. Reglurnar eru svo hljóðandi, með leyfi forseta:

1. gr. Þegar sjúklingur þarf ítrekað að takast ferð á hendur til þess að njóta óhjákvæmilegrar sérfræðilegrar meðferðar eða eftirlits á spítala eða göngudeild spítala tekur sjúkrasamlag þátt í ferðakostnaði hans, svo sem segir í næstu greinum.

2. gr. Um endurgreiðslu ferðakostnaðar getur orðið að ræða þegar sjúklingur er talinn þurfa að koma til meðferðar eða eftirlits a. m. k. þrisvar á 12 mánaða tímabili, en tvisvar á 12 mánuðum eftir fyrsta árið, ef þá verður þörf á framhaldsmeðferð.

3. gr. Eftir fyrstu ferðina leggur sjúklingurinn inn hjá sjúkrasamlagi sínu skýrslu frá sérfræðingi við þá stofnun, sem meðferðina veitir, þar sem gerð sé grein fyrir sjúkdóminum og nauðsynlegri meðferð, hversu títt sjúklingurinn þurfi að koma og — ef unnt er — hversu oft. Skýrsluna má, ef henta þykir, senda Tryggingastofnuninni beint, en annars sendir samlagið stofnuninni skýrsluna til greiðsluákvörðunar.

4. gr. Tryggingastofnunin sendir samlaginu ákvörðun um greiðsluheimild samkv. skýrslunni, en samlagið geymir hana ásamt afritum af greiðslukvittunum. Eftir að önnur ferðin er farin endurgreiðir samlagið fyrstu ferð að frádregnum 10 þús. kr., en síðari ferðir að frádregnum 5 þús. kr. Til endurgreiðslu reiknast aðeins fargjald með áætlunarferðum. Fargjald fylgdarmanns telst því aðeins til ferðakostnaðar að sjúklingurinn sé 12 ára eða yngri eða ósjálfbjarga.

5. gr. Endurgreiðsla ferðakostnaðar kemur einkum til greina vegna: 1) geislameðferðar æxla, 2) lyfjameðferðar æxla, 3) nýrnabilunar, 4) gláku, 5) starfrænnar blindu, 6) sjónhimnuloss af völdum sykursýki, 7) lýtalækninga í brýnum tilfellum, 8) dreyrasýki, 9) polypsydomia, 10) bæklunarlækningar, þegar um barn er að ræða, 11) hvítblæðis og annarra sambærilegra tilfella. — Læknisvottorð skal lagt fram eftir hverja ferð.“

Í því, að meðferðin verður að vera óhjákvæmileg, liggur að erindin verða að vera nokkuð brýn. Eru í reglunum til leiðbeiningar taldir upp 11 sjúkdómsflokkar sem veita mundu ástæðu til greiðslu ferðakostnaðar, sbr. 5. gr. Endurgreiðsla kemur einnig til greina í öðrum sambærilegum tilfellum. Reglumar bera þess merki að þessar greiðslur eru taldar nokkuð vandmeðfarnar og það er aðeins allverulegur kostnaður sem stefnt er að að bæta. Reglurnar má taka til endurskoðunar þegar reynsla er fengin af framkvæmdinni og verður það að sjálfsögðu gert að nokkrum tíma liðnum.