15.03.1979
Sameinað þing: 69. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3279 í B-deild Alþingistíðinda. (2590)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég skil ósköp vel, að það komi við kaunin á hv. þm. Sighvati Björgvinssyni, formanni þingflokks Alþfl., þegar drepið er á það hér í þingsölum hvers konar vinnubrögðum Alþfl. hefur beitt gagnvart fjölmiðlum á undanförnum árum. Það vita allir, sem til þekkja, hvernig tengslum Alþfl. m. a. við ríkisfjölmiðlana hefur verið háttað, eins og sjá má m. a. hér í þingsalnum. Ég er reiðubúinn að ræða við hv. þm. Sighvat Björgvinsson löngum stundum í þingsölum um hvernig Alþfl. hefur markvisst reynt að hagnýta sér ríkisfjölmiðlana. (Gripið fram í.) Ég ætla að koma að því.

Ég átti langt samtal við þennan ágæta fréttamann. Hann tók ekki sjálfur við þessari frétt sem flutt var í Ríkisútvarpinu. Ég ræddi einnig við hann um það, að það væru algjörlega ný vinnubrögð þegar fréttastofa Ríkisútvarpsins tæki að sér að flytja fréttir af óorðnum atburðum og það mjög veigamiklum pólitískum atburðum, skýra frá niðurstöðum þeirra atburða og megineinkennum þeirra, eins og gert var í þessari frétt, þar sem því var lýst yfir að megineinkenni samkomulagsins væri að allar tölulegar birtingar þjóðhagsstærða, sem Alþfl. hefði lagt til upphaflega, eins og allir vita, og svokallaðir raunvextir, sem hafa verið slagorð hv. þm. Vilmundar Gylfasonar, væru í frv. (Gripið fram í.) Það er allt í lagi. Ég er í ræðustól og hef ekkert á móti því að ræða við þennan fréttamann, eins og ég mun koma að á eftir. (Gripið fram í.) Það er skemmtilegt fyrir þingheim að sjá óróleikann í þm. Alþfl. þegar farið er að ræða um samskipti Alþfl. við ríkisfjölmiðlana. Það er greinilega dálítið heitt þarna undir.

Ég benti þessum ágæta fréttamanni á að þetta væru algjörlega ný vinnubrögð. Þetta eru að vísu vinnubrögð sem síðdegisblöðin hér hafa tíðkað og gefist vel til söluaukningar, en fréttastofa Ríkisútvarpsins hefur verið bundin öðrum reglum. Ég óskaði eftir því að fá það gefið upp, hver væri heimildarmaður þessarar fréttar, og því var neitað. Ég veit ósköp vel að Gunnar Eyþórsson mun standa við það. Við ræddum þetta mál lengi í símanum.

Við ræddum um heimildarmann fréttarinnar, eðli hans og uppruna, þar sem þm. úr hópi Alþfl. bar mjög oft á góma. Ég er ekkert hræddur við að ræða við fréttamanninn um þetta mál oft og lengi, hvar sem er, og aðra fréttamenn Ríkisútvarpsins. En það er í raun og veru óþarfi, hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, vegna þess að þetta mál má leysa á ofureinfaldan hátt. Í 3. gr. reglna um fréttaflutning Ríkisútvarpsins stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Við skráningu frétta skal þess jafnan gætt að heimildir séu sem fyllstar og að þær séu óyggjandi. Þegar ástæða er til að ætla, að frétt verði vefengd eða aðrar ástæður eru fyrir hendi, skal getið heimildarmanna. Ríkisútvarpið verður jafnan að vera viðbúið að gera grein fyrir heimildum frétta.“

Ef fréttamaðurinn er mættur hér í húsinu og aðrir starfsmenn fréttastofunnar, þá er það einfaldasta í þessari veröld að þeir uppfylli ákvæði 3. gr., eins og ég óskaði eftir á sunnudagskvöld, að þeir upplýsi mig og þá þjóðina um leið, því ég mundi koma því á framfæri, hver væri heimildarmaður þessarar fréttar. Það er í raun og veru kjarni málsins, vegna þess að þessi frétt var ómerkileg tilraun til þess að koma pólitískum áróðri til þjóðarinnar í þágu Alþfl. í gegnum fréttatíma Ríkisútvarpsins og það undir fölsku flaggi. Þess vegna er hægt að leysa þetta mál á mjög einfaldan, skýran og glöggan hátt. Fréttastofa Ríkisútvarpsins uppfylli skilyrði 3. gr. og segi hver heimildarmaður að þessari frétt var. Þá þarf ekkert að deila neitt um það. Þá þarf ég ekki að fara um ganga þinghússins eða annað til að ræða við ágæta fréttamenn, heldur kemur hreinlega í ljós hver heimildarmaðurinn var. Ef hann hefur ekki verið þm. úr Alþfl., þá er ég reiðubúinn að taka orð mín til baka. En ég tek þau ekki til baka fyrr en fréttastofan hefur uppfyllt ákvæði 3. gr. reglna um fréttaflutning Ríkisútvarpsins og skýrt frá því hver heimildarmaðurinn var.