19.03.1979
Neðri deild: 63. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3383 í B-deild Alþingistíðinda. (2635)

125. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Frsm. meiri hl. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Ég var búinn að ætla mér að svara nokkru af því, sem sagt hefur verið hér um þetta mál, en því miður eru þeir sem tóku til máls um málið, að undanskildum hæstv. landbrh., ekki hér í salnum.

Þegar ég talaði fyrir nál. og brtt. í dag höfðu ekki komið á borð þm. till. Sjálfstfl., eða þeirra hv. þm. Pálma Jónssonar og Eggerts Haukdals, þannig að þó að ég hefði grun um að slíkar till. kæmu fram vissi ég ekki nema lítið um efni þeirra. En það er dálítið athyglisvert einmitt hvernig þessar till. eru, ef maður athugar þær umr. sem urðu í landbn. Þar var skoðun margra þm. og ekki síst hv. þm. Sjálfstfl. í n., að það þyrfti að hafa þessi heimildarákvæði mjög þröng, það væri aðalatriðið. Ég reyndi að þreifa á því eftir föngum að hafa heimildirnar rúmar, en menn aðhylltust yfirleitt að hafa þær þröngar og ekki síst einmitt sumir þm. Sjálfstfl. Hv. þm. Þorvaldur Garðar tók það hvað eftir annað fram, að hann vildi hafa þessar heimildir mjög þröngar. Hv. þm. Eyjólfur K. Jónsson var aftur á móti með till., sem ég skýrði frá áðan í framsöguræðu minni, um beinar greiðslur til bænda í staðinn fyrir það frv. sem lá fyrir. Hins vegar gat ég aldrei fundið að hv. 1. þm. Suðurl., Eggert Haukdal, hefði neina skoðun á málinu. Mér kom því ákaflega spánskt fyrir sjónir, þegar ég sá till. þeirra hv. sjálfstæðismanna, eftir þær umr. sem fóru fram í landbn. og sérstaklega af þeirra hálfu.

Hv. þm. Pálmi Jónsson sagði um þessar brtt., sem hann þó skrifaði undir, að vísu með fyrirvara, að það væri lengi hægt að bæta um betur. Ég geri ráð fyrir því, að það sé þannig um flestar till. okkar og flest mannanna verk, að það megi lengi bæta um betur, og e. t. v. væri hægt að segja það sama um þær till. sem hann er þarna flm. að.

Hv. þm. Pálmi Jónsson sagði að það væri álitleg leið að greiða beint til bænda, eins og hann komst að orði. Mér þótti þetta dálítið athyglisveri vegna þeirrar umr., sem hefur farið fram um þetta mál, og ég hef misskilið hv. þm. ákaflega mikið, ef hann aðhylltist þær leiðir sem hv. þm. Eyjólfur K. Jónsson kom fram með í landbn. Hann hefur a. m. k. breytt mikið um skoðun frá því að við hættum að ræða um þessi mál í landbn. En það er auðvitað hans mál.

Það er líka athyglisvert að þeir sjálfstæðismenn ræddu um það, þegar var verið að ræða um það sem ég kalla framleiðsluskatt, eins og sjömannanefnd lagði til, að mjög hastarlegt væri að leggja háan skatt á þá bændur sem væru með t. d, yfir 500 ærgilda bú. Nú skilst mér að það sé komin dálítið ný stefna hjá Sjálfstfl. í þessu máli. Miðað við þá útreikninga, sem var verið að vitna í og ég geri ráð fyrir að liggi á bak við þessa heimildargrein, er gert ráð fyrir því að skerðingin hjá mönnum, sem eru með meira en 400 eða 500 ærgilda bú, verði eftir þeirri aðferð langtum meiri en sjömannanefndarálitið gerði ráð fyrir. Ég kem því ekki þessu öllu heim og saman.

Hv. þm. Pálmi Jónsson sagði, að þó að nefnd væri að störfum til að ræða um landbúnaðarmál og um úrræði í þeim vandamálum sem blasa nú við landbúnaðinum, þá mætti það ekki verða til þess að ekki væri komið með till. inn á hv. Alþ. til lausnar þessum málum, og raunar komst hv. 1. þm. Austurl., Lúðvík Jósepsson, eitthvað svipað að orði. Ég hélt að það væri fyrst og fremst markmið a. m. k. þeirra, sem bera umhyggju fyrir landbúnaði og fyrir atvinnulífinu á þeim þéttbýlisstöðum sem byggja afkomu sína mikið á úrvinnslu úr landbúnaðarvörum, og þeir mundu frekar hugsa um það og hefðu það frekar að markmiði að reyna að finna lausn á þessum vanda en leggja fram einhverjar sýndartillögur á Alþ. En það er auðvitað mál þessara manna. Ég hefði haldið að það væri í raun og veru þýðingarlítið að ræða þessi mál hér á Alþ. fyrr en það lægi fyrir að einhver samstaða væri um einhver úrræði, og það væri grunnurinn að málinu.

Hv. þm. komst þannig að orði í lok ræðu sinnar, að það væri hyggilegt að reyna að ná samstöðu um þetta mál. Ég veit ekki betur en það hafi verið reynt að ná samstöðu. Við héldum 10 fundi um málið, marga þeirra langa. Við reyndum að miða tillögugerðina við þá umr. sem fram fór, og það var mitt mat og það var mat margra annarra, að það væri ekki samstaða um neitt annað. Það kann að reynast rangt mat, en þetta var okkar mat. Og það var reynt að leitast við að teygja sig eftir að ná samstöðu, ekki einungis með stjórnarflokkunum, heldur enn fremur með stjórnarandstöðunni, en þrátt fyrir það hefur því miður ekki tekist betur en raun ber vitni.

Ég ætla ekki að ræða á þessum vettvangi um það sem þessi viðræðunefnd er að reyna að gera, reyna að glöggva sig á stöðunni og á þeim möguleikum sem kunna að vera fyrir hendi í þessum málum. Það er ekki viðeigandi, finnst mér að ræða það mál nú, enda eru þessar athuganir komnar allt of skammt á veg til þess að hægt sé að draga af þeim nokkra lærdóma, og því mun ég leiða það alveg hjá mér.

Hv. þm. Ellert Schram ræddi þetta mál verulega. Ég verð að segja það, að mér fannst hann ræða málið af meiri hreinskilni en ýmsir aðrir hafa gert. Verð ég að segja það, að gott væri ef menn tækju sér það út af fyrir sig til fyrirmyndar, þó að ég sé ekki sammála hv. þm. um ýmis atriði sem fram komu í máli hans. Hann viðurkenndi það náttúrlega, sem þarf ekki að efast um eða gera mikið að umræðuefni hér, að það væri ágreiningur í Sjálfstfl. um þetta mál. Það getur beðið betri tíma að ræða um þann ágreining og hvernig hann er vaxinn, en við sem fylgdumst með málum í síðustu ríkisstj., gerum okkur e. t. v. ljóst hvernig þessi ágreiningur er.

Hv. þm. Ellert Schram tók undir það, að gerð væri úttekt á landbúnaðarframleiðslunni og það væri nauðsynlegt. En honum kom það á óvart hve þetta frv. gengur skammt. Sannleikurinn er sá, að þetta frv. er fyrst og fremst til þess að reyna að koma í veg fyrir að vandinn vaxi á meðan verið er að athuga um aðrar leiðir í þessu efni. En það er eins og sumir hv. þm. geri sér þetta ekki ljóst.

Ég sé að hv. þm. Ellert Schram er ekki hér inni, en hann ræddi um að sér sýndist að stefnt væri að því að litlu búin mundu stækka. Bæði var það í till. sjömannanefndar og ég held að það hafi verið — a. m. k. hér um bil undantekningarlaust — skoðun þeirra sem best þekkja til þeirra mála, að það verði að skerða að einhverju leyti framleiðslu allra framleiðenda. Ef sú leið er farin áfram, sem er nú til í heimildum, verður að leggja sama verðjöfnunargjald á hverja einingu hjá þeim smæsta og hjá þeim sem eru með stærstu búin. Þarna er verið að reyna að finna leið til þess að milda þetta, en það má ekki fara þannig að að þeim, sem eru með 500–600 ærgilda bú, sé gert í raun og veru ókleift að halda rekstri sínum áfram. Það er sannleikurinn að bændur, sem eru með t. d. marga unglinga, þurfa að hafa slíkt bú til þess að geta séð fjölskyldu sinni farborða. Og þeir, sem hafa verið í framkvæmdum á undanförnum árum, — ég er hræddur um að það væri verið að kveða yfir þeim dauðadóm ef ætti að fara eftir þeim till. sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson hefur verið að tala fyrir.

Hv. þm. Ellert Schram sagði að það mundi verða mikil skriffinnska við þá leið sem felst í þessum till. í sambandi við fóðurbætisskattinn. Ég held að það sé misskilningur að mjög mikil skriffinnska felist í því. Hún er auðvitað nokkur eins og hvaða leið sem við notum, en aðalatriðið í því að fara inn á þessa leið með fóðurbætinn er það, að þá næst miklu meiri stjórnun á framleiðslunni en að öðrum leiðum.

Hv. þm. ræddi um að það þyrfti að koma því á, að útflutningsbætur yrðu ekki greiddar á hverja einingu nema upp að vissu marki. Mér skildist að þetta ætti að verða til þess að menn drægju úr framleiðslunni, ef þeir vissu um þessa ákvörðun fyrir fram. En í þessu sambandi vil ég bara minna á að fyrir einum 4 árum var hægt að fá fyrir framleiðslu sauðfjárafurða á erlendum mörkuðum milli 80 og 90%, 82–83%, af grundvallarverðinu eða heildsöluverðinu, en í dag helmingi minna, þannig að þó það væri tekin einhver ákvörðun í þessu efni meðan verðlagsþróunin hér og annars staðar er eins og hún er, þá geta menn ekki mikið áttað sig á því löngu fyrir fram hvernig þróunin kann að verða, því að það gæti farið svo að aðrar þjóðir tækju upp aðra stefnu í þessum málum en þær hafa gert, en þær hafa greitt niður landbúnaðarvörur sínar til þess að geta svo flutt inn t. d. kjöt og aðrar landbúnaðarvörur fyrir sem lægst verð.

Hæstv. landbrh. sagði að þessi leið væri hörkuleg, þ. e. a. s. beinar greiðslur til bænda, eins og hún mun vera hugsuð og túlkuð. Ég vil alveg taka undir það. Ég held að það þurfi að athuga hana miklu betur. Hins vegar er í sambandi við þessa grein, miðað við það frv. sem hefur verið samið af framleiðsluráðslaganefndinni, einmitt í 18. gr., heimildarákvæði til þess að taka upp að borga á frumstigi. Sé ég ekki betur við fljótan lestur en það í raun og veru næði þessu atriði, ef slík grein yrði samþ. eins og hún er í frv. meiri hl. nefndarinnar.

Hæstv. landbrh. óskaði eftir því, að það yrði athugað í n. að gefa heimild til þess að leggja á fóðurbætisskatt, sem sagt flatan skatt, sem yrði þá endurgreiddur að einhverju leyti. Þetta var rætt dálítið í n. og það hefur þá eitthvað breyst ef auðvelt verður að fá n. til þess að breyta afstöðu sinni, en það er sjálfsagt að athuga það. Ég veit hver rök hæstv. landbrh. eru fyrir þessari beiðni, þó að ég ætli ekki að ræða það nú á þessum vettvangi.

Ég ræddi um það í landbn., hvort ekki væri skynsamlegra að taka upp 4–5% flatan skatt á allt kjarnfóður til þess að hægt væri að selja fóðurvörur á svipuðu verði allsstaðar í landinu. Undir þetta var ekki tekið. En ég held að það sé ekki vansalaust af Alþ., þegar bændastéttin hefur farið fram á að fá slíkar heimildir, að verða ekki við því að gefa möguleika til að verðjafna flutningskostnaðinn með einhverju móti. Er sjálfsagt að athuga það nánar þegar aðalfrv. kemur til umfjöllunar hér í hv. deild.

Ég þarf ekki að svara miklu af því sem hv. 1. þm. Suðurl. gerði að umræðuefni. Mér skildist að hann hefði aldrei séð neina glætu, ekkert ljóst í till. þessum eða frv. Hann komst þannig að orði, að það væri bara að gera eitthvað, og það er sú einkunn sem hann gefur Stéttarsambandi bænda, Stéttarsambandsfundum og beiðni þeirra á undanförnum árum, að úrræði þeirra, ábendingar og óskir séu bara að gera eitthvað. Hann hafði það eftir forráðamönnum Stéttarsambandsins, að þær till., sem meiri hl. n. stendur að, væru ekki í framkvæmanlegar, — fékk þann dóm, eins og hann komst að orði. En hver er nú breytingin á úrræðunum í sjálfu sér, sem felast í þeim till., sem hv. þm. er aðili að, þó að það séu orðatagsbreytingar, og þegar sleppt er þessum kafla um beinar greiðslur til bænda? Ég held að hv. þm. ætti að reyna að athuga hver sé munurinn á þessu áður en hann slær slíku fram.

Hv. þm. kvartaði um að það hefði ekki verið getið um nafn hans í nál. Vegna hvers átti að nefna það? Ætli hann hefði orðið ánægður með það, ef staðið hefði í nál. að ekki hefði verið vitað hvort hv. þm. ætlaði að koma með sérálit eða hvort hann hefði nokkra skoðun á málinu? Það kom nefnilega aldrei fram.

Hv. 1. þm. Suðurl. talaði um það, hvers vegna allt málið hefði ekki verið tekið í einum pakka, þ. e. a. s. að þessar þrjár greinar, sem í frv. felast., hefðu verið teknar úr og fluttar fyrir jól, en ekki beðið eftir að heildarendurskoðun á framleiðsluráðslögunum kæmi fram og væri hægt að leggja frv. um það fyrir þingið. Nú hefur það komið fram margoft, bæði hér í umr. og annars staðar, að þetta er ósk bændasamtakanna vegna þess að þá var sýnilegt að framleiðslan á t. d. mjólkinni mundi aukast og það yrði að reyna með einhverjum ráðum að setja bremsu á þá framleiðslu til þess að vandinn yrði ekki enn meiri. Ég hélt satt að segja að þetta hefði ekki farið fram hjá neinum hv. þm. og því síður þm. sem er bóndi sjálfur og fulltrúi fyrir landbúnaðarhéruð.

Hv. þm. talaði um að raunhæfast;a leiðin, og það var það eina sem ég fékk raunar út úr máli hans, væri að borga fyrir að draga úr framleiðslunni. En til þess þarf peninga. Það er, að mér finnst, dálítið óeðlilegt ef á að taka gjald af bændum til þess að borga öðrum til þess að draga úr framleiðslu. Annars veit ég ekki hvort hv, þm. eða þingmenn vilja leysa þetta mál., en þetta er eitt af þeim atriðum sem verður að semja þá um við ríkið, ef hægt verður að fá samstöðu um að afgreiða frv. um Framleiðsluráð landbúnaðarins o. fl., sem hæstv. landbrh. stefnir að og að leggja fram á Alþ. mjög fljótlega.

Hv. þm. Kjartan Ólafsson kom inn á ýmis atriði og ég ætla ekki að ræða mikið um þau. En það kom fram í máli hans, sem kom fram hjá mörgum í landbn., að hann var hræddur við að gefa víðtækar heimildir. Hv. þm. lagði líka áherslu á að það væri lítið skert hjá minni búunum og þeim yrði lítið íþyngt, eins og hv. þm. komst að orði. Ég held að menn athugi það yfirleitt ekkí, að eins og þessi framleiðsla er orðin, miklu meiri en neysla þjóðarinnar er, er ekki sú leið framkvæmanleg að draga eingöngu úr framleiðslu stærstu búanna. Þau eru ekki það mörg. Ég veit ekki hvort menn gera sér það ljóst, að að mörgum þeirra búa, sem eru talin með 600 og upp í 1800 og jafnvel yfir 2000 ærgildi, standa margir aðilar í raun og veru, jafnvel þó að þau séu rekin að nafninu til á einni hendi. Ég þekki t. d. mörg bú sem eru þannig rekin. Kannske eru það menn sem búa með börnum sínum, sumum giftum, en eru sjálfir taldir fyrir búunum. Hvernig á með slíkt að fara? Það er ekki nokkur vafi á því, að þetta verður að meta og þá mun koma í ljós að hinum stóru búum mun fækka verulega, ekki síst ef á að taka upp slíkar ráðstafanir sem í raun og veru felast í till. hv. þm. Pálma Jónssonar og Eggerts Haukdal?

Áður en ég lýk máli mínu get ég tekið undir það, sem kom fram hjá hv. þm. Kjartani Ólafssyni, að það þarf að athuga mjög vel að minnka ekki niðurgreiðslurnar mjög mikið á næstunni a. m. k. Hitt er alveg rétt, að þegar er verið að þvæla með þessar niðurgreiðslur, auka þær í nokkra mánuði og minnka þær aftur, þá hefur það mjög neikvæð áhrif á neysluna. Menn verða líka að hafa annað í huga, að niðurgreiðslur á þessum vörum eru e. t. v. það tæki sem verkar meira en flest annað til launajöfnunar í þessu landi. Menn mega ekki sleppa sjónum af því. Þess vegna mundi ég vilja að það væri reynt að átta sig á einhverri stefnu í þessum málum. Það þýðir ekki fyrir einn eða tvo flokka, því þó að ein ríkisstj. sé í dag getur orðið önnur á morgun eða eftir ár eða tvö ár, og þegar stjórnarskipti verða og verður stórbreyting á niðurgreiðslunum, eins og hefur gerst á undanförnum árum og áratugum, leiðir það til mjög neikvæðra áhrifa á neyslu á þessum vörum.

Ef till. þeirra hv. þm. Pálma Jónssonar og Eggerts Haukdals verða teknar til 3. umr. mun landbn. auðvitað athuga þær eins og annað sem þarf að athuga á milli 2. og 3. umr.