20.03.1979
Sameinað þing: 70. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3409 í B-deild Alþingistíðinda. (2647)

338. mál, brennsla svartolíu í fiskiskipum

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég tala stutt að þessu sinni af mörgum ástæðum. En vegna þess að menn hafa talað mikið um aukið slit á vélum hjá þeim sem brúka svartolíu eða réttara sagt hina rússnesku blöndu, sem er allt annað en hin venjulega svartolía, vil ég segja frá því, að Ólafur Eiríksson tæknifræðingur hefur mælt og látið mæla slit í vélum hinna japönsku togara sem lengst hafa notað þessa olíu, og keyrslutími þessara véla er á milli 35 og 40 þús. klukkustundir, og það voru slífarnar sem voru mældar. Þær eru þeir vélarhlutar sem helst ættu að láta undan vegna verri olíu, fyrir utan afgasventla, því að það eru auðvitað ekki nema hlutar vélanna sem gætu látið á sjá vegna þessarar olíunotkunar. Útkoman úr þessum mælingum sýndi það, að slitið á slífunum var 0.005 millímetrar fyrir hverjar 1000 klst. í notkun. Það þarf sem sagt ekkert að gera að slífunum eða skipta um þær samkv. þessum athugunum fyrr en búið er að nota þessar vélar í 400 þús. klst. í viðbót. Það þýðir það, að slífarnar í japönsku togurunum með svartolíunotkuninni gætu enst í 30–40 ár í viðbót, þ. e. a. s. til ársins 2020. Ég er ekki viss um að það sé nokkur maður hér inni sem heldur að þessir togarar verði í notkun þá. Það er sýnilegt á þessum upplýsingum og þessum rannsóknum, að vélarnar gera miklu meira en að endast í togarana þó að þeir séu keyrðir á þessari olíu. Allt fjas um annað er þess vegna hreinlega út í loftið.

Auðvitað væri hægt að — (Forseti: Tíminn er liðinn.) Það fór nú svo að tíminn dugði ekki til þess að veita hér upplýsingar. En herra forseti, ég skal ljúka máli mínu svo gott sem alveg strax. Ég vil leyfa mér að benda hv. alþm., sem vilja vita betur, ef einhverjir væru, á að mjög miklar upplýsingar í þessum efnum er að finna í tímaritinu Ægi, 11. tbl. frá árinu í fyrra, 1978. Þar geta þeir lesið sér til í þessum efnum, og ég er viss um að margir yrðu allmiklu fróðari eftir lesturinn.