21.03.1979
Efri deild: 71. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3448 í B-deild Alþingistíðinda. (2698)

56. mál, Hæstiréttur Íslands

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. 3. landsk. þm. fyrir að reifa þessar spurningar. Mér þykir betra að hafa rökstuðninginn, þó hann sé kannske styttur, en spurningarnar einar. Skal ég leitast við að svara þeim.

Ég vil reyndar koma að því síðasta fyrst, um aðrar leiðir til þess að hraða meðferð dómsmála. Ég vil fullvissa hv. þd. um það, að unnið er ötullega að því að athuga fjölmargar aðrar leiðir. M. a. er verið að athuga tæknilegar endurbætur á meðferð dómsmála hjá embættum, þar sem mjög hefur á því borið að hin mörgu og viðamiklu dómsmál valda erfiðleikum í skjótri meðferð, eins og t. d. hjá saksóknara. Verið er að athuga tæknilegar leiðir, eins og að endurbæta aðgang að öllum skrám, sem er ákaflega mikið verk að fletta upp í og skoða aftur í tímann, og meðferð á gífurlegu magni af skjölum sem fylgir í vaxandi mæli öllum slíkum málum, m. a. vegna þess að allar rannsóknir hafa mjög verið bættar og miklu ítarlegar og skipulegar að slíku unnið en áður var unnt. Var það fyrst og fremst að þakka tilkomu Rannsóknarlögreglu ríkisins, en að þessu leyti kannske getum við sagt „að kenna“. Þar þarf vitanlega ýmislegt til að setja hluti inn á míkrófilmu eða tölvu og þess háttar sem í fljótu bragði má fletta upp í. Jafnvel um slíka hluti, sem kunna að hljóma eins og smámunir, niðurröðun skjala fyrir undirrétt og fyrir Hæstarétt, gilda tvennar reglur, sem þýðir að þegar mál koma frá undirrétti þarf oft að verja verulegum tíma í það að raða skjölum á annan máta. Þetta er allt í gangi og verið að leita að leiðum sem gætu orðið til að flýta meðferð og jafnvel til að spara, þó að allt slíkt kosti verulegt fjármagn í upphafi, og ég stefni að því að leggja fyrir Alþ. með næstu fjárlagagerð hugmyndir og óskir um fjárveitingar til þess að gera ýmsar slíkar breytingar á dómkerfinu.

Um Hæstarétt sjálfan vil ég segja það, að ítarlega var rætt áður en þetta frv. var fram lagt, og reyndar var það rætt í fyrra á vegum fyrrv. dómsmrh. einnig, um aðrar leiðir til þess að auðvelda Hæstarétti störf sín. Staðreyndin er sú, að Hæstiréttur hefur sjálfur farið fram á hvort tveggja, fjölgun dómara, og þar er samstaða um að þetta sé lágmarksfjölgun dómara, en einnig meiri starfskrafta, t. d. lögfræðilega aðstoð. Um það atriði hafa hins vegar verið skiptar skoðanir, og ég leyfi mér að segja jafnvel á meðal dómara, og ýmsir lögfróðir menn, eins og t. d. síðasti hæstv. dómsmrh. hafa vissar efasemdir um það, hve þetta mundi flýta meðferð mála. Allir eru sammála um að lögfróður aðstoðarmaður mótar aldrei skoðun dómarans, m. ö. o.: dómarinn verður að fara í gegnum öll skjöl. Hins vegar, eins og hv. þm. sagði, er þarna um ýmis tæknileg atriði að ræða, sem ég hef rætt ítarlega við forseta Hæstaréttar, og ég mun fara fram á það við fjárlagagerð að veitt verði heimild til þess að ráða skrifstofustjóra til Hæstaréttar — það höfum við rætt um — þannig að hæstaréttarritari geti sinnt einmitt þessum málum. Og ég leyfi mér að segja að þetta er af forseta Hæstaréttar talin mjög viðunandi lausn á þessu tæknilega atriði.

Ég vil leggja áherslu á það, sem ég sagði áðan, að út af fyrir sig telja margir að þetta stytti lítið þann tíma sem dómarar þurfa sjálfir að ráðstafa til að setja sig sem vandlegast inn í mál, því að það gerir enginn fyrir þá, þeir verða að gera það sjálfir. Þess vegna er það einróma skoðun manna að mikilvægara sé, — þegar ég segi einróma skoðun, þá á ég við þá ráðunauta, sem ég hef stuðst við, — að fjölga hæstaréttardómurum. Hitt er svo alveg rétt, að við fjárlagagerðina hefur verið tregða að leyfa ráðningu aðstoðarmanna, en ég leyfi mér að segja að það sé fyrst og fremst vegna þess að komið hafa fram þær efasemdir sem ég nefndi áðan. Menn hafa ekki verið á einu máli um hve mikið þetta leysti, þannig að við höfum fremur kosið að leggja áherslu á fjölgun dómara.

Ég hygg að tvímætalaust muni fjölgun dómara auðvelda og hraða meðferð mála fyrir Hæstarétti. Eins og hv. þd. veit er með þessu gert ráð fyrir að dómurinn geti skipt sér og fjallað þar með, eins og liggur í hlutarins eðli, um fleiri mál á sama tíma. Þetta er sett dómnum sjálfum í vald. Maður minnist þess, að við 1. umr. þessa máls komu einmitt fram efasemdir hjá hv. þm. um þessa leið. Þetta er hins vegar háttur sem tíðkast í öllum nágrannalöndum okkar, að dómar skipta sér, og ég tel fullkomlega óhætt að treysta Hæstarétti — við getum hygg ég ekki treyst öðrum betur — til þess að ákveða í hvaða málum óhætt sé að rétturinn skipti sér. En þau munu vera allmörg þar sem Hæstiréttur telur að slíkt komi vel til greina. Með þessu móti verður allverulega aukinn hraði á meðferð mála fyrir Hæstarétti.

Hv. þm. minntist á að stytta mætti dómhlé o. s. frv. Þetta kemur að sjálfsögðu til greina, en ég vil vekja athygli á því, að dómhlé er mjög notað af dómurum til alls konar undirbúningsstarfa fyrir dómaraembætti. Þeir fara ekki upp í sveit og sitja þar, því fer víðs fjarri. Þessir menn eru starfandi, m. a. að kynna sér mál, vinna að rannsókn mála. Talið hefur verið nauðsynlegt að veita mönnum slíkt hlé, t. d. kennurum og mörgum fleiri, til þess að fylgjast vel með því sem gerist. Dómarar þurfa að kynna sér m. a. lög, sem Alþ. samþ., og margt þess háttar. Það er ekki síst af þeirri ástæðu sem kann að vera eðlilegt að dómarar fái nokkurt hlé frá dómstörfum, sem eru mjög knýjandi og krefjandi þann tíma sem dómurinn situr.

Að lokum minntist hv. þm. á svokallað lögréttumál, sem ég gerði stuttlega grein fyrir í framsöguræðu minni með þessu máli. Í örfáum orðum felst í því, eins og hv. þm., sem hafa setið fyrri þing, þekkja, að uppi er sú hugmynd að setja upp sérstakt dómstig. — Við getum kallað það mitt á milli undirréttar og Hæstaréttar — og þá er hugmyndin sú, að það dómstig geti létt verulega álagi af bæði undirrétti og Hæstarétti, þ. e. a. s. sum meiri háttar mál fari beint til lögréttunnar og síðan til Hæstaréttar, en önnur minni háttar mál byrji í undirrétti og endi í lögréttunni. Hins vegar verður að segjast eins og er, að um þetta eru ákaflega skiptar skoðanir með lögfróðum mönnum. T. d. hjá Lögmannafélagi, Dómarafélagi, innan Hæstaréttar, innan réttarfarsnefndar og eiginlega hvar sem ég hef borið niður.

Ég hef að sjálfsögðu farið ítarlega í gegnum þetta frv. Ég hef einnig mínar efasemdir um sumt, eins og t. d. þann kostnað sem upp var gefinn í sambandi við lögréttuna. Ég held að hann fái alls ekki staðist. Ég held að hann verði miklu meiri — án þess að ég ætli að nefna hér tölu um það, því þetta er í endurskoðun. Ég taldi mér skylt gagnvart hinu háa Alþingi að hafa nokkuð öruggar tölur um kostnað. Niðurstaðan varð því sú, að ég óskaði eftir því við réttarfarsnefnd, að hún tæki það frv. til endurskoðunar að nýju. Ég fór að vísu fram á, að hún hraðaði þeirri endurskoðun og kannaði þá m. a. aths., sem komu fram á hinu háa Alþingi í umr. um þetta mál á síðasta vetri. Í ljós kom hins vegar, að réttarfarsnefnd var alls ekki reiðubúin að afgreiða málið jafnvel að nýju með stuttum fyrirvara. Nokkrar breytingar urðu á réttarfarsnefnd. Ég skipaði í nefndina nýja menn, m. a. menn sem hafa opinberlega lýst efasemdum um þetta mál. Niðurstaðan í nefndinni varð sú, að fela tveimur mönnum í nefndinni, m. a. einum nýjum manni sem þangað kom, Friðgeiri Björnssyni lögfræðingi, að taka þetta mál alveg sérstaklega til meðferðar. Síðan hefur verið ítarlega að því unnið, en það verður ekki hægt að leggja málið fyrir það þing sem nú situr. Ég stefni hins vegar að því að endanlega verði upp gert, eins langt og það nær að vísu, hvort ég legg mál þetta fyrir Alþ. í haust. Réttarfarsnefnd fullvissar mig um það, að ekkert eigi að vera því til fyrirstöðu að allar umbeðnar upplýsingar og endurskoðun liggi þá fyrir.