21.03.1979
Neðri deild: 64. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3471 í B-deild Alþingistíðinda. (2721)

148. mál, orlof

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Eins og kom fram hjá hv. frsm. félmn. voru nm. sammála um að mæla með samþykkt frv., en í 1. efnismgr. þess segir að launagreiðanda sé skylt að veita innheimtuaðila orlofsfjár upplýsingar um greitt og vangreitt orlofsfé starfsmanna sinna. Við hv. 1. þm. Suðurl. lýstum því hins vegar yfir, að við vildum fella niður seinni efnismgr. Hún hljóðar svo:

„Í því skyni að staðreyna slíkar upplýsingar er innheimtuaðila orlofsfjár heimill aðgangur að bókum og bókhaldsgögnum launagreiðanda.“

Ástæðurnar fyrir því, að við erum þessari mgr. andvígir eru sumpart að við teljum þetta í rauninni óþarft, en hins vegar teljum við af „prinsip“-ástæðum varhugavert að veita slíka heimild. Það er varhugavert að okkar dómi að veita hvaða innheimtuaðila sem er beinan aðgang að bókum og bókhaldsgögnum. Hér er ekki aðeins um að ræða einn innheimtuaðila eða Póstgíróstofuna, það er ekki alls staðar sem hún fer með innheimtu orlofsfjár. Þetta teljum við varhugavert og leggjum til að það verði fellt niður úr frv.

Við 1. umr. þessa máls var vikið nokkuð almennt að orlofsmálum og m. a. þeirri skipan sem nú er á þeim málum. Það er vissulega mjög athugandi, sem fram hefur komið, og því var einnig hreyft í n., hvort ekki væri rétt að breyta núverandi skipan í þá átt, að vinnuveitendur greiddu jafnaðarlega orlofsféð með launum til launþega í stað þess að hafa þessa sérstöku stofnun eða þetta sérstaká fyrirkomulag sem orlofsféð greiðist til og safnar því saman og á svo að greiða það út í einu lagi til launþega að vori eða sumri, áður en orlof byrjar almennt. Það er vissulega athugandi, hvort er ástæða til að viðhalda því fyrirkomulagi, bákni eða hvað við viljum kalla það. Sumum virðist það óþarfur tilkostnaður og fyrirhöfn í þjóðfélaginu.

Þetta atriði ræddum við í félmn. Af hálfu eins nm., hv. 6. þm. Reykv., var skýrt frá því, að það væri eindregin krafa verkalýðssamtakanna að halda því skipulagi, sem nú væri í meginatriðum, en ekki að greiða launþegum orlofsféð jafnóðum með öðrum launum, og færði fram fyrir því ástæður. Hér er um mjög verulegan skoðanamun að ræða milli manna, en ég ætla að það sé fullkomin ástæða til að endurskoða fyrirkomulag þessara mála frá grunni.

Í öðru lagi var rætt um það í n., hvort hægt væri að finna leiðir til þess að verðtryggja orlofsféð, og er það vissulega annað atriði sem þarf að kanna gaumgæfilega.

Við hv. 1. þm. Suðurl. mælum því með frv., en leggjum til hins vegar að 2. mgr. verði felld niður.