21.03.1979
Neðri deild: 64. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3472 í B-deild Alþingistíðinda. (2723)

148. mál, orlof

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Um leið og ég leyfi mér að lýsa yfir stuðningi við álit minni hl. félmn. kemst ég ekki hjá því að ítreka þau sjónarmið, sem komu fram við 1. umr. í þessu máli og ég tel að ekki hafi verið nægilegur gaumur gefinn í nefndinni.

Þannig er, að á árinu 1971 voru gerðar breytingar á orlofslögunum. Þær breytingar, auk þess að lengja orlofið eða hækka orlofsgreiðslur úr 7% í 81/3%, eins og nú er, gengu út á að leggja niður orlofsmerki, en í stað þeirra var tekið upp það kerfi sem nú er notað og var örugglega til bóta tæknilega séð. En ég er hræddur um að þá hafi gleymst að spyrja réttra spurninga, hvort ekki væri kominn tími til þess að lausráðið starfsfólk í þessu landi ætti að fá orlofsfé öðruvísi greitt en hingað til hefur tíðkast. Það er ljóst að þegar þessir peningar voru í merkjum gengu þau kaupum og sölum manna á milli. Þetta hefur breyst. En það hefur ekki breyst að þetta fé liggur óverðbætt. Sá sem fær útborgað í sumarfríi, fastur starfsmaður, fær útborgað í kaupi sem gildir þegar hann tekur sumarfrí. Sá, sem hins vegar fær orlofsgreiðslur, fær þær þannig greiddar, að þær eru lagðar til hliðar og hafa hingað til verið á 5% vöxtum, en nú er gert ráð fyrir að þeir fari upp í 10%. Eigi að síður hlýtur sá maður, sem er lausráðinn, hvergi að ná fullum verðbótum eða því sem nemur launum á þeim tíma þegar hann tekur frí. Þetta skulum við hafa í huga.

Það er afturhaldssemi — ég skal ítreka það orð: það er afturhaldssemi hjá verkalýðshreyfingunni þegar hún neitar að horfast í augu við slíkar staðreyndir. Það er líka afturhaldssemi þegar því er haldið fram, að fólkinu sjálfu í þessu landi sé ekki treystandi fyrir eigin peningum og sé ekki treystandi til þess að taka sér frí. Nýjustu samningar í þessu efni eru hjá íslenska álfélaginu. Þótt ég þekki þá samninga reyndar ekki út í hörgul veit ég að í þeim eru ákvæði þess efnis, að menn geta farið með reikninga úr sumarfrú sínu á skrifstofu álfélagsins og fengið þá greidda að einhverju marki. Þetta er auðvitað gert til að sýna fram á að menn hafi verið í fríi, en ekki verið að vinna hjá einhverju öðru fyrirtæki, en það er einmitt slík hugsun sem alltaf kemur fram hjá löggjafanum. Mér finnst vera kominn tími til að þeir, sem þarna eiga hagsmuna að gæta, og þ. á. m. eru einmitt forustumenn verkalýðshreyfingarinnar og þeir sem starfa í verkalýðshreyfingunni sérstaklega fyrir þá sem eru lausráðnir, kanni gaumgæfilega hvort lífeyrissjóðakerfið getur ekki komið þarna til skjalanna, þ. e. a. s. þeir sjóðir sem þessir lausráðnu starfsmenn eiga eða hafa með að gera, hvort það geti ekki gripið inn í og verðbætt féð fyrir þá sem vilja.

Það, sem hefur gerst í þessu máli, er að frá því að talið var að þetta væri viðbót við laun er það orðinn eins konar skyldusparnaður án verðtryggingarskyldusparnaður með 10% vöxtum. Og ég spyr hv. þm. að því, hvort þeir teldu að unga fólkið, sem þarf að borga skyldusparnað í dag, mundi una því að teknir væru af því þessir peningar, sem eru teknir af því, og það fengi 5% vexti eða 10% vexti í þessu verðbólguþjóðfélagi. Ég er hræddur um að svarið við þeirri spurningu yrði eindrægt nei. Það var um þetta atriði sem ég vildi enn og aftur ítreka skoðun mína. Mér er kunnugt um að þetta hafði komið upp í n., en að sjálfsögðu bráðliggur á að koma þessum pakka frá ríkisstj. og gegnum þingið. Það er nú þannig með stjórn landsmálanna að bráðliggur á sumu, en annað má aftur á móti dankast eins lengi og einhverjum og einhverjum dettur í hug. Þetta er hin nýja stjórnunaraðferð, sem er uppi hjá þeirri hæstv. ríkisstj. sem situr að völdum hér á landi. Ég skal ekki hafa mörg orð um það að sinni. (Gripið fram í: Það skiptir meira máli að koma bögglapósti en ábyrgðarbréfi.) Það er vel orðað með þessum hætti. Ég vona að það hafi komst inn á bandið.

Ég ætla að nota tækifærið samt til þess að segja frá því, að ég hef í hyggju að undirbúa að flytja þáltill. um þetta mál og ef einhverjir hv. þm., sem eru hér á þingi, kæra sig um samstarf í þeim efnum vil ég gjarnan eiga samstarf við þá í þessu máli. Ég beini máli mínu ekki síst til þeirra, sem eru umboðsmenn í stórum verkalýðssamtökum, og vænti þess að við getum náð um það samkomulagi að bæta hag þeirra sem verst eru settir í þessum efnum.