01.11.1978
Neðri deild: 10. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í B-deild Alþingistíðinda. (274)

53. mál, verðjöfnunargjald af sauðfjárafurðum

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Á þskj. 59 legg ég fram fyrir hönd ríkisstj. frv. til. l. um greiðslu verðjöfnunargjalds af sauðfjárafurðum. Frv. þetta er flutt í samræmi við samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna, þar sem samkomulag náðist um, að endurgreiða verðjöfnunargjald sem Framleiðsluráð landbúnaðarins ákvað s.l. vor að taka af framleiðslu sauðfjárafurða 1977. Um það var jafnframt samið, að 1 milljarður af þessu gjaldi, sem er samtals 1300 millj. u.þ.b. yrði greiddur á þessu ári og kemur það fram í grg. með frv.

Mér þykir rétt í þessu sambandi að gera stuttlega grein fyrir nokkrum meginatriðum þessa máls.

Eins og hv. þm. er að sjálfsögðu kunnugt, er heimilt að greiða úr ríkissjóði 10% af framleiðsluverðmæti á verði landbúnaðarafurða til bænda ár hvert sem útflutningsbætur. Þessi 10% hafa á síðustu tveimur árum ekki nægt til þess að brúa þann verðmun, sem hefur verið á innanlandsmarkaði og á erlendu verði á landbúnaðarafurðum, en fram til ársins 1976 má segja hins vegar að þetta hafi nægt til þess. Á verðlagsárinu 1976–1977 varð heildarþörf fyrir útflutningsbætur 2.8 milljarðar. Þá voru 10% útflutningsbætur 2.3 milljarðar. Hins vegar varð þá samkomulag um það í lok ársins 1977 að bæta við 488 millj. kr. sem var talið uppsöfnuð heimild þriggja ára á undan. Á því verðlagsári, sem nýlokið er nú, þ.e.a.s. verðlagsárið 1977–1978 verða 10% 3 milljarðar 597 þús., en heildarþörfin um 5 milljarðar og 500 þús., þannig að útflutningsbætur hafa hvergi nærri náð því að fullnægja allri verðjöfnunarþörfinni. Af þessum mismun, sem þarna er, tæpum 2 milljörðum, eru um 1300 millj. vegna sauðfjárafurða, en um 600 millj. vegna mjólkurafurða.

Því tók Framleiðsluráð landbúnaðarins þann kostinn s.l. vor, eins og fyrr segir, að leggja verðjöfnunargjald á sauðfjárafurðir. Var talið að það gjald þyrfti að vera 90–100 kr. á hvert kg. Fyrir meðaldilk, sem er um 14 kg., yrði þetta því um 1400 kr., eða fyrir meðalbú, við skulum segja með 500 dilka, þýðir þetta 700 þús. kr. skatt. Má öllum vera ljóst að hér er um verulega skattlagningu að ræða.

Ég vil jafnframt geta þess strax, að því miður horfir ekki til bóta að þessu leyti. Lítur út fyrir, að á verðlagsárinu, sem nú er hafið muni enn aukast umframbirgðir af landbúnaðarafurðum umfram það sem 10% ná til að verðjafna. Bráðabirgðatölur í ár benda til þess, að sauðfjárafurðir muni aukast um 8.4% og mjólkurafurðir að öllum líkindum um 5%, ef ekki eitthvað meira. Í ár er áætlað að 10% gjaldið verði um 5.5 milljarðar kr.

Ég vil jafnframt við þetta tækifæri geta þess, að ítarlegar tilraunir hafa farið fram nú upp á síðkastið á vegum markaðsnefndar landbúnaðarins, — tilraunir sem beinast að því að finna hagkvæmari markað fyrir landbúnaðarafurðir. Þetta hefur töluvert verið rætt í fjölmiðlum. Ég vil til viðbótar því, sem þar hefur komið fram, geta þess, að því miður virðist ekki finnanlegur markaður fyrir landbúnaðarafurðir sem greiðir meira en í kringum 50% af óniðurgreiddu heildsöluverði innanlands. Skásta verðið fæst í Noregi að öllum líkindum, í kringum 50%, Færeyjum í kringum 47%, í Danmörku svipað, 47%, og í Svíþjóð 40%. Ekki liggja fyrir endanlegar tölur frá tilraunasendingum til Frakklands og Bandaríkjanna, en að öllum líkindum eru þær tölur nokkru lægri en þær sem ég hef nefnt, og stafar það t.d. hvað viðvíkur Frakklandi fyrst og fremst af mjög háum innflutningstollum, bæði inn í Efnahagsbandalagið og einnig inn í Frakkland. Af mjólkurafurðum fæst langsamlega besta verðið fyrir ost. Óðalsostur selst fyrir um það bil 48% heildsöluverðs, en annar ostur fyrir töluvert lægra verð. Það má segja að einu landbúnaðarafurðirnar, sem ná nokkurn veginn innanlandsheildsöluverði, eru nýru og hjörtu, sem eru nokkurn veginn í fullu verði, og lifur, sem er aðeins lægri, en það er að sjálfsögðu ákaflega lítið magn.

Engum er ljósara en bændum að þetta ástand getur ekki orðið svo til frambúðar, og hafa þegar starfað nefndir með fulltrúum bænda sem lagt hafa fram bráðabirgðatillögur um aðgerðir til að draga úr þessari umframframleiðslu. Fyrst vil ég nefna 7 manna nefndina svokölluðu, sem nýlega hefur skilað áliti. Álit 7 manna nefndarinnar er í allmörgum liðum og ætla ég hér aðeins að nefna þrjá. Eins og ég sagði áðan, leggur n. áherslu á að þar er um bráðabirgðatillögur að ræða þar til stefnumörkun til lengri tíma hefur átt sér stað í landbúnaðarmálum.

Nefndin leggur til að Framleiðsluráði landbúnaðarins verði veitt allvíðtæk heimild til þess að leggja bæði innvigtunargjald á sauðfjárafurðir og ákveða tolla af innfluttum fóðurbæti í því skyni að draga úr framleiðslunni þegar hún er of mikil. Kvótakerfi þessu, sem svo hefur gjarnan verið nefnt, er lýst í tillögum n. Er gert ráð fyrir því, að það verði því hærra sem búið er stærra, fari upp í 10% hjá framleiðendum sem eru utan lögbýla, verði 8% hjá býlum með yfir 800 ærgildi, 6% af grundvallarverði hjá býlum með 600–800 ærgildi, 4% hjá býlum með 400–600 ærgildi, en hjá býlum með 400 ærgildi eða minna verði gjaldið 2% af grundvallarverði. Í tillögum n. er gert ráð fyrir því, að þessu gjaldi verði varið til þess að aðstoða bændur við að minnka bú sín, m.ö.o. að halda tekjum þeirra uppi meðan þessi skerðing fer fram. Jafnframt, eins og ég sagði áðan, er lagt til að fóðurbætisskattur verði lagður á innfluttan fóðurbæti.

Athuganir hafa sýnt, að mjög mikil fylgni er á milli fóðurbætisnotkunar og mjólkurframleiðslu. Fóðurbætisnotkunin eykst markvisst með hagstæðu hlutfalli á milli mjólkur- og fóðurbætisverðs, enda má segja að slíkt sé ekki óeðlileg viðleitni bóndans til þess að bæta tekjur sínar. Fyrir um það bil 1 kg af fóðurbæti fást samkv. kenningunni a.m.k. 2 ef ekki 2.5 lítrar af mjólk. Hins vegar þarf nú aðeins um 0.5 lítra af mjólk til að greiða fyrir kg af fóðurbæli, enda hafa búreikningar nú sýnt að fóðurbætisnotkunin er svo mikil að mjólkurframleiðslan fyrir hvert kg er komin jafnvel töluvert niður fyrir 1 lítra. Ég tel því ljóst að þarna sé um ofnotkun á fóðurbæti að ræða og eðlilegt að draga úr þeirri notkun með einhverju móti. N., eins og ég sagði áðan, leggur til að tekin verði upp tollur á innfluttan fóðurbæti.

Í þessu sambandi er jafnframt rétt að hafa í huga samkeppni innflutts fóðurbætis við fóðurverksmiðjur þær sem hér eru starfræktar. Innfluttur fóðurbætir hefur sveiflast mjög í verði og verið mjög háður aðstöðu á meginlandi Evrópu og víðar, oft orðið verulegt verðfall vegna mikillar framleiðslu eða vegna opinberrar aðstoðar við landbúnaðarframleiðslu í þeim löndum. Ég hygg að flestir, sem þessum málum eru kunnugastir, telji útilokað að starfrækja hér fóðurbætisframleiðslu við þessar aðstæður, ef hún á að vera svo háð þeim sveiflum sem verða á þessum innflutningi, enda má geta þess, að aðrar þjóðir, eins og t.d. Norðmenn, hafa tekið þau mál föstum tökum og reynt að samræma á milli innflutts fóðurbætis og þess sem framleiddur er innanlands. Þetta er að mínu mati önnur ástæða til þess að skoða verður vandlega fóðurbætisinnflutninginn. En ástæðan, sem n. lítur að sjálfsögðu fyrst og fremst á, er sú mikla mjólkurframleiðsla sem fylgir þessari miklu fóðurbætisnotkun.

Ég hygg að menn geti flestir verið sammála um að það er vafasamt hagræði í því að flytja inn fóðurbæti og framleiða síðan smjör sem ekki selst úr landi nema fyrir kannske 15–18% af framleiðslukostnaði. Að vísu væri unnt að breyta meiru en nú er í osta, sérstaklega óðalsost, sem selst skást, eins og ég sagði áðan, en til þess þarf verulega fjárfestingu í vinnslustöðvum landbúnaðarins. Af öðrum tillögum 7 manna n. vil ég loks nefna þá tillögu hennar að gera úttekt á búskaparaðstöðu um land allt, og gerir n. ráð fyrir að slík úttekt yrði grundvöllur að langtímastefnu á sviði landbúnaðarins. Ég hef þegar falið svonefndri áætlunarnefnd að gera tillögur um það, hvernig slík úttekt gæti farið fram. En ég er 7 manna n. sammála um það, að þetta er mikilvægt skref til að afla nauðsynlegra upplýsinga sem eru að sjálfsögðu grundvöllur að skynsamlegri áætlun um framtíð íslensks landbúnaðar.

Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstj. eru ákvæði sem eru til leiðbeiningar við það starf sem þegar er hafið, stefnumörkun í landbúnaði. Fyrst og fremst vil ég lesa með leyfi forseta eftirfarandi kafla úr þeirri samstarfsyfirlýsingu. Þar segir: „Stefnt verði að sem hagkvæmustu rekstrarformi á rekstrarstærð búa og að framleiðsla landbúnaðarvara miðist fyrst og fremst við innanlandsmarkað.“ Sömuleiðis segir þar: „Endurskoðað verði styrkja- og útflutningskerfi landbúnaðarins með það að marki, að greiðslur komi bændum að betri notum en nú er.“ Og loks: „Lögum um framleiðsluráð landbúnaðarins verði breytt, m.a. á þann hátt, að teknir verði upp beinir samningar fulltrúa bænda og ríkisvaldsins um verðlagsframleiðslu- og önnur hagsmunamál landbúnaðarins. Jafnframt verði Framleiðsluráði veitt heimild til að hafa með verðlagningu áhrif á búvöruframleiðslu í samræmi við markaðsaðstæður.“

Með tilvísun til þess, sem ég las hér síðast, vil ég vekja athygli á því, að gert er ráð fyrir að Framleiðsluráði verði heimilt að hafa með verðlagningu áhrif á búvöruframleiðslu í samræmi við markaðsaðstæður. Ég tel tvímælalaust að tillögur 7 manna nefndar falli undir þennan lið.

Mér hefur borist bréf frá stjórn Stéttarsambands bænda, þar sem áhersla er lögð á að frv. um breytingar á framleiðsluráðslögum, sem fylgja tillögum 7 manna nefndar, verði flutt á hinu háa Alþingi sem fyrst og komi til framkvæmda svo fljótt sem unnt er. Er nú unnið að því að undirbúa þann málflutning.

Í öðru lagi vil ég geta þess, að starfandi er framleiðsluráðslaganefnd, sem fjallar um breytingar á framleiðsluráðslögunum í samræmi við það ákvæði samstarfsyfirlýsingarinnar, að teknir skuli upp beinir samningar.ríkisvalds við bændur um kjör bændastéttarinnar og markaðsverð. Ég hef óskað eftir því við þá n., að hún skili áliti ekki síðar en fyrir áramótin, þannig að tillögur hennar geti komið til umr. á Alþingi strax eftir áramót.

Með tilliti til þess ákvæðis, sem ég las áðan um endurskoðun á styrkja- og útflutningsbótakerfi landbúnaðarins, vil ég segja þetta:

Þetta er nú í skoðun í landbrn. Mér er ljóst að gera þarf verulegar breytingar á þessu styrkjakerfi, fyrst og fremst til þess að nota megi styrkina á samræmdan hátt með öðrum þáttum í landbúnaðarmálum til þess að ná því meginmarkmiði sem ég hef nefnt og mun ræða nánar.

Ég tel að meginmarkmið í langtímastefnu fyrir landbúnað hér á landi eigi fyrst og fremst að vera þrjú: Í fyrsta lagi að tryggja bændum tekjur sem eru sambærilegar við þau laun sem aðrar stéttir í þjóðfélaginu hafa eins og þeim er ætlað samkv. lögum og reglum þar um. Í öðru lagi ber að takmarka framleiðsluna sem næst við innanlandsmarkað, en leggja jafnframt áherslu á að gera hana fjölbreyttari eins og aðstæður leyfa. Í þriðja lagi verður ekki hjá því komist að taka tillit til byggðamála og byggðastefnunnar hverju sinni þegar landbúnaðarstefnan er ákveðin. Landbúnaður er einn meginhornsteinn byggðar víða um land og verður að taka tillit til þess.

Ég hef í huga og er undirbúningur reyndar hafinn að því, að á Alþ. verði flutt þáltill. um stefnumörkun í landbúnaði, þar sem þessi atriði og e.t.v. fleiri og nánar útfærð að sjálfsögðu verða rakin. En jafnvel áður en til þess kemur tel ég nauðsynlegt að vinna að samræmingu á fjölmörgum þáttum landbúnaðarmála til þess að nálgast megi þau markmið sem sett eru fram í samstarfsyfirlýsingunni. Ég hef nefnt styrki samkv. jarðræktarlögum og búfjárræktarlögum. Ég vil einnig nefna starfsemi Stofnlánadeildar landbúnaðarins, starfsemi Búnaðarfélags Íslands og leiðbeiningaþjónustu, sem að sjálfsögðu verður að falla að þeirri stefnu sem ákveðin er, starfsemi Framleiðsluráðs landbúnaðarins, Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, og fleira mætti nefna.

Herra forseti. Ég hef talið rétt að gera stuttlega grein fyrir nokkrum meginatriðum sem nú er unnið að á vegum landbrn. og nefnda sem á þess vegum starfa og starfa í samræmi við meginatriði samstarfsyfirlýsingar stjórnarflokkanna. Ég hef talið rétt að gera það, því að um landbúnaðarmálin hafa orðið nokkrar umr. Vona ég að það, sem ég hef hér sagt, varpi nokkru ljósi á það sem verið er að leitast við að gera. En ég vil leggja á það áherslu að lokum, að sú stefna, sem fylgt hefur verið, — stefna, getum við sagt, vaxandi framleiðslu, — hefur nánast verið nauðvörn bændastéttarinnar. Bændur eru viðurkenndir í lægsta flokki með laun og þeir hafa orðið að leita leiða eins og flestir launþegar til að útvega sér aukavinnu, viðbótarvinnu, og það hefur verið gert með því að stækka búin og auka framleiðsluna. Ég hygg að engum sé ljósara en bændum að þessari stefnu er ekki hægt að fylgja áfram, og bændur hafa sýnt það einmitt með því að taka virkan þátt í athugun á leiðum til þess að snúa þessari stefnu við, m.a. samþykkt verulegar álögur á sjálfa sig til að nálgast slík markmið.

Ég legg jafnframt áherslu á að mörkun stefnu í landbúnaði er ekki einfalt mál. Nokkurn tíma tekur að snúa við þeirri þróun sem hefur verið undanfarin ár. Sérstaka áherslu legg ég á að slíkt verður að gerast í samráði við bændastéttina, enda er það grundvallarsjónarmið þessarar ríkisstj., að hún vinnur að framkvæmd markmiða sinna í samráði við aðila vinnumarkaðarins eins og hvað eftir annað hefur komið fram.

Að lokinni þessari umr. leyfi ég mér að leggja til, herra forseti; að frv. verði vísað til hv. landbn. og 2. umr.