26.03.1979
Neðri deild: 67. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3570 í B-deild Alþingistíðinda. (2782)

171. mál, vernd barna og ungmenna

Flm. (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja frv. til 1. um breyt. á l. um vernd barna og ungmenna, nr. 53 frá 1966. Í grg. með þessu frv. segir m. a.:

„Fá mál eru viðkvæmari og vandmeðfarnari en barnavernd og afskipti af heimilum eða einstaklingum af þeim sökum. Það verður að teljast neyðarráðstöfun, þegar samfélagið þarf að grípa inn í fjölskyldumál og leysa úr vandamálum, sem stafa af sálrænum, tilfinningalegum eða persónulegum ástæðum, ekki síst þegar börn eða ungmenni eiga í hlut. Barnaverndarnefndir, barnaverndarráð, félagsfræðingar og aðrir, sem afskipti hafa af slíkum málum, bera að þessu leyti mikla og vandasama ábyrgð.

Allajafna fara störf þessara aðila fram í kyrrþey, og ljóst er, að hversu margar lagagreinar og reglur sem settar eru um framkvæmd og meðferð barnaverndarmála reynir fyrst og fremst á þroska, skilning og lipurð þeirra, sem til slíkra ábyrgðarstarfa veljast, að dæma um velferð barns eða ungmennis. Óhætt er að fullyrða, að við allan meginþorra barnaverndarmála gætir slíkra sjónarmiða.

Á hinn bóginn er nauðsynlegt að löggjöf móti meginstefnu, sem taki tillit til mannúðlegra viðhorfa og beri hag einstaklinganna, sem í hlut eiga, fyrir brjósti.

Lög um vernd barna og ungmenna, nr. 53/1966, hafa verið í endurskoðun um nokkurt skeið, en lítið virðist miða og hljótt er um þá endurskoðun.“

Af því tilefni hef ég leyft mér að flytja þetta frv., en það felur í sér nokkrar breyt. á nefndum lögum sem hníga allar í þá átt að tryggja betur en nú er rétt foreldra eða forráðamanna barna með hagsmuni barnsins fyrir augum. — „Er þá gengið út frá þeirri meginforsendu, að barnið sé hluti fjölskyldu, sem umfram allt megi ekki stía í sundur nema til þess liggi óumdeilanleg rök og ríkar ástæður. Í íslenskri löggjöf er allsráðandi sú meginregla, að fjölskyldan búi og lifi saman, og aldrei má til þess koma, að barni sé ráðstafað og það tekið úr umsjá foreldra vegna rangra upplýsinga eða á röngum forsendum.“

Þær breyt., sem þetta frv. felur í sér, hníga allar að því að auka nokkuð það tillit sem tekið skal til forráðamanna eða foreldra barna, þannig að komið sé í veg fyrir að börn séu tekin úr umsjá foreldra og frá fjölskyldum án þess að fyllsta tillit sé tekið til hagsmuna fjölskyldunnar sem heildar og sjónarmiða foreldranna. Það felur sem sagt í sér að gögn og upplýsingar skuli liggja fyrir og sé ekki farið með sem trúnaðarmál á þann veg að forráðamenn barna fái ekki að kynna sér þau gögn.

Ég sé ekki ástæðu til að útskýra í smáatriðum eða ítarlegar einstakar greinar þessa frv. Þetta er meginkjarni frv., sem ég hef nú verið að lýsa, og allar ættu þessar breytingar að mínu mati að vera til mikilla bóta og tryggja rétt barnanna og foreldranna frá því sem nú er.

Ég held að það fari vel á því, að hv. Alþ. taki þetta mál til meðferðar og afgreiði málið frá sér á þessu þingi, þar sem nú stendur yfir barnaár og flestir gera sér far um að reyna að taka tillit til hagsmuna barnanna og rétta hlut þeirra í þjóðfélaginu.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv, vísað til menntmn.