28.03.1979
Efri deild: 73. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3671 í B-deild Alþingistíðinda. (2850)

239. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Hér er hreyft ágætu máli sem ég er sammála frsm. um að þurfi að skoða vel og vandlega. En ég vil líka taka undir það, að þetta er aðeins einn þátturinn af mörgum fleiri sem heyra undir sömu meðferð.

Það hefur verið lengi stefna og draumur þeirra, sem hafa verið að vinna að sveitarstjórnarmálum almennt í landinu á undanförnum árum, að þetta mál ásamt fleiri fengi framgang. Þeir, sem eru nú í forustu fyrir samtökum sveitarfélaga í landinu, hafa verið undanfarið að undirbúa það, að sett yrði samræmd löggjöf sem sameinaði vissa þjónustuþætti úti um landsbyggðina. Það eru, eins og hv. frsm. kom inn á, í athugun ýmis ný lög, endurbætt lög, eins og nýju byggingarlögin t. d., lögin um fasteignamat ríkisins o. s. frv. Þetta eru allt saman þættir sem koma mjög við landsbyggðina og það skipulag sem þar er í sambandi við þessi mál.

Við höfum látið okkur dreyma um það, að hægt yrði að koma nýrri skipan á þessi mál og setja upp stofnanir í hverjum landshluta sem sameinuðu t. d. verkfræðiþjónustu, skipulagsmálin almennt, húsnæðismálin og Fasteignamat ríkisins, svo að eitthvað sé nefnt. Þetta er eitt af því sem hefur verið talað mjög sterklega um undanfarið að væri eðlilegt að sé hlutverk landshlutasamtaka sveitarfélaga, að þau hefðu forustu um að móta þessa þjónustu undir sama þaki.

Það dregur enginn í efa nauðsyn þess, að þessi þjónusta komi úti um land. Ég get vel tekið undir það, sem kom fram hjá hv. frsm., t. d. um húsnæðismálin almennt. Það er erfitt oft og tíðum að þurfa að leita með alla hluti til einnar skrifstofu í Reykjavík. En það er ekki þessi þáttur sem er erfiðastur, því að satt að segja hefur skipulag Húsnæðismálastofnunarinnar mjög farið batnandi á undanförnum árum, þannig að lántökumálin út af fyrir sig eru ekki eins mikið vandamál núna og áður var. Það, sem er stærra vandamál, er tæknilegi undirbúningurinn og allt sem því fylgir, sem margir, sem standa að þessum málum úti um landið, eiga í miklum erfiðleikum með, því að sá þáttur í starfsemi Húsnæðismálastofnunar ríkisins hefur farið minnkandi. Hún ætlaði sér það hlutverk og hafði það hlutverk í raun og veru að gera átak í því að hægt væri að framleiða og byggja ódýr hús og þar væri greiður aðgangur allra byggjenda á því sviði. Við fórum myndarlega af stað með þetta, en þessum þjónustuþætti hefur hnignað að mínu mati. Hins vegar hefur verið tekinn upp nýr þáttur í starfsemi Húsnæðismálastofnunarinnar, sem hv. frsm. kom inn á, að hún hefur gert meira að því að taka þátt í fundarhöldum og ráðstefnum á vegum sveitarstjórná víðs vegar um landið. Þessi þáttur starfseminnar hefur farið vaxandi og skilað góðum árangri, verið upplýsandi og orðið til þess að bæði verktakar, byggingarmenn, sveitarstjórnarmenn og aðrir hafa fengið betri yfirsýn yfir hlutverk stofnunarinnár og hvers sé hægt að vænta af starfi hennar, og er það vel.

Yfirleitt er sú stefnan hjá sveitarfélögum nú að efla hlutverk byggingarfulltrúanna, og í nýju byggingarlöggjöfinni, þegar hún verður endanlega sett, er hlutverk byggingarfulltrúa mjög aukið. Hafa stærri sveitarfélögin á síðari árum ráðið til sín tæknimenntaða menn, tæknifræðinga, til þess að starfa á þessu sviði mála í hverju sveitarfélagi um sig. Þessi þróun eykur m. a. raunverulega þörfina á því að setja upp samræmda þjónustustofnun í hverjum landshluta þar sem, eins og ég tók fram áður, væri hægt að sameina í eitt þessa höfuðþætti sem eru ákaflega mikilvægir fyrir uppbyggingu landsbyggðarinnar í heild.

Ég held þess vegna að það sé mjög nauðsynlegt að þegar till. þessi kemur til n. verði skoðað vandlega hvort ekki sé möguleiki á því að taka inn í þetta frv. eða a. m. k. í framhaldi af því það sem ég nefndi að sveitarfélögin eru að vinna að: að samræma þessa þjónustustarfsemi miðað við það að færa hana út á land í auknum mæli. Og þó hv. frsm. hafi ekki verið með þá grg. eða þær hugmyndir bæjarstjórans á Neskaupstað, sem hann vitnar til, er þetta mál sem hefur verið til umr. í stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga um langt skeið. Einmitt í sambandi við byggingarlöggjöfina höfum við verið að undirbúa að koma af stað hugmyndum um að setja löggjöf um þessi efni.

Ég er samþykkur efni þessa frv., en ég bendi á að það fjallar aðeins um einn þáttinn af mörgum sem þarf að taka til ítarlegrar skoðunar til þess að auka og efla þá alhliða þjónustu sem við þurfum að fá úti um landið.