28.03.1979
Efri deild: 73. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3677 í B-deild Alþingistíðinda. (2858)

240. mál, náttúruvernd

Menntmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég flyt frv. til l. um breyt. á l. nr. 47 16. apríl 1971, um náttúruvernd.

Frv. það, sem hér er um að ræða, er samið að tilhlutan Náttúruverndarráðs og er efnislega í samræmi við till. þess, en orðalagi frv. hefur lítillega verið breytt. Í grg., sem fylgdi frv. þegar það kom frá Náttúruverndarráði, er á það bent, að Náttúruverndarráð hafi með höndum afskipti af byggingu sumarbústaða, en nauðsynlegt sé að breyta lögum um náttúruvernd í samræmi við aðrar þær breytingar sem orðið hafa á lögum og þá einkum skipulagslögum nr. 19/1964.

Í náttúruverndarlögum eru afskipti Náttúruverndarráðs af sumarbústaðabyggð fyrst og fremst miðuð við sveitarfélög sem ekki eru skipulagsskyld. Hér virðist því það hefðbundna sjónarmið ríkjandi, að skipulagsstarf sé einskorðað við þéttbýli, og svo hefur líka verið í raun. Skipulagslögin frá 1964 gera þó ráð fyrir að sveitarfélög í strjálbýli geti orðið skipulagsskyld. Allmargar sveitarstjórnir í strjálbýli hafa óskað eftir skipulagsskyldu, og á hana hefur verið fallist. Sú skoðun er líka viðurkennd, að síst minni þörf sé á skipulagningu í strjálbýli en þéttbýli, þótt með öðrum hætti sé að vissu marki. Löggjafinn hefur viðurkennt þetta í reynd með setningu laga nr. 31/1978, en þar var skrefið stigið til fulls og ákveðið að frá og með seinustu áramótum skyldu öll sveitarfélög landsins skipulagsskyld. Það er í ljósi þessarar breytingar, sem tók gildi um seinustu áramót, sem talið er óhjákvæmilegt að breyta núverandi ákvæðum náttúruverndarlaga um þetta efni, þar sem þau séu í raun orðin óvirk og óljóst hver réttarstaða Náttúruverndarráðs sé gagnvart sumarbústaðabyggð.

Í frv. er gert að aðalreglu að í skipulagi verði sýnt hvar sumarbústaði megi reisa, en þar sem skipulag sé ekki fyrir hendi verði ákvörðunarvaldið um staðfestingu hjá yfirvöldum náttúruverndarmála, eins og nánar er lýst í greininni.

Það er vitað að náttúruverndarnefndir eru misjafnlega áhugasamar og því er hér stungið upp á því, að Náttúruverndarráð geti tilnefnt trúnaðarmann til þess að fara með umboð sitt í þessum málum. Með því ynnist það, ef umdæmi trúnaðarmanns væri nokkuð víðáttumikið, að samræmi væri í afgreiðslum mála.

Þetta er ekki neitt stórmál, herra forseti, en mikilvægt mál engu að síður vegna þess að veiðihúsum, fjallaskálum og ýmsum vistarverum út í guðs grænni náttúrunni fer ört fjölgandi og óhjákvæmilegt að fylgst sé með því af einum aðila, hvernig staðið sé að málum, hvort verið sé að eyðileggja umhverfi og landslag með slíkum ráðstöfunum. Núgildandi lög tryggja þetta ekki vegna þeirrar breytingar sem orðið hefur á skipulagslögum. Því er óhjákvæmilegt að gera þessa breytingu og fela þetta vald í hendur Náttúruverndarráði með ótvíræðum hætti.

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að leggja til að að lokinni þessari umr. verði þessu máli vísað til hv. menntmn.