03.04.1979
Sameinað þing: 77. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3779 í B-deild Alþingistíðinda. (2965)

178. mál, stefnumörkun í menningarmálum

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. þessi svör. Ég geri mér ljósa þá annmarka sem á þessu kunna að vera, og ég get tekið undir það með hæstv. ráðh., að vitanlega er til lítils að koma á fót slíkri opinberri stefnumörkun ef það viðgengst, sem hefur verið á undanförnum árum, að þau framlög, sem menntmrn. hefur lagt til, eru fyrir fram skorin niður af þeirri stofnun sem fæst við þessar fjárveitingar áður en fjvn. sjálf fær þetta til meðferðar. Mín hugsun varðandi fjárveitingar í sambandi við þessa stefnumörkun var einmitt að snúa þeirri þróun við, að það væri ekki lengur kleift eða a. m. k. ekki eins auðvelt fyrir þessa annars ágætu stofnun að skera þessi framlög jafnharkalega niður og raun ber vitni og láta okkur svo um það í fjvn., sem þar störfum hverju sinni, að reyna að tosa þessum upphæðum eitthvað upp, eins og hefur þó verið reynt að gera með misjöfnum árangri.

Ég veit að það er vissulega þungt undir fæti í sambandi við allar breytingar á fjárlagafrv., og þetta viðgengst ár eftir ár, að þessar upphæðir eru hafðar óbreyttar frá síðasta ári. Hér er auðvitað um miklu erfiðari og þyngri róður að ræða varðandi þennan málaflokk en ýmsa aðra málaflokka sem koma frá fjárlaga- og hagsýslustofnun með eðlilegri hækkun, og í því liggur einmitt vandi okkar, sem störfum í fjvn., að ná þessu þar upp. Sá vandi er vissulega mikill og ég dreg ekkert úr að þar hefur oft orðið að berjast harðri baráttu af mjög eðlilegum ástæðum. Ef um viss forgangsverkefni væri að ræða, t. d. í þessu efni varðandi frjálsa félagastarfsemi, þar sem lögð væri viss áhersla á hana í slíkri stefnumörkun, þá lít ég að róður okkar gæti t. d. í þessum efnum orðið léttari. Ég veit að við eigum ýmis lagafyrirmæli hér um, en þau eru enn þá skýrari varðandi hin opinberu menningarsvið, og þar er fjárlaga- og hagsýslustofnun ekki heldur með þennan niðurskurð. Hún er ekki að skera niður Þjóðleikhúsið og láta það hafa óbreytt framlag frá síðasta ári þegar fjárlagafrv. er lagt fram, svo að ég nefni eitt dæmi, eða Sinfóníuhljómsveit eða eitthvað því um líkt, sem ég er síst að gera lítið úr, á meðan hún sker niður t. d. alla frjálsa félagastarfsemi. Ekki er síður nauðsynlegt að gera sér glögga grein fyrir ástandi hinna ýmsu þátta í þessu máli og hverjir það eru í hinni frjálsu félagastarfsemi sem eru verst á vegi staddir og þurfa á mestum stuðningi að halda og gætu þá komið inn í þessa stefnumörkun.

Ég vona að sá starfshópur, sem hæstv. ráðh. gat um, komist að jákvæðri niðurstöðu í þessu efni. Ég hef hér sérstaklega í huga, eins og ég sagði áðan, hina ýmsu áhugastarfsemi í menningarmálum, hin á sér sterkari lagaaðstoð,að við reynum að fá þar sem mesta viðspyrnu til þess að efla þessa starfsemi alveg sérstaklega úti um land.