03.04.1979
Sameinað þing: 77. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3780 í B-deild Alþingistíðinda. (2967)

178. mál, stefnumörkun í menningarmálum

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Oft hefur verið rætt um nauðsyn þess að móta svokallaða menningarstefnu. Þegar ég starfaði í menntmrn. gerði ég tilraun til að láta kanna og taka saman fjárhagslegan stuðning við hinnar ýmsu listgreinar og einstaka þætti menningarmála, annað en skólamál, en því miður fór sú hópvinna algerlega út um þúfur. Var það miður; því að það hefði getað orðið grundvöllur að nánari skoðun á þessum málum.

Fjvn. hefur skipt sér í starfshópa að nokkru leyti á meðan fjárlög eru undirbúin og sérstakir hópar unnið t. d. að hafnarmálum, skólamálum o. s. frv. Ég átti einu sinni sæti í fjvn. fá ár, og þá var því hreyft stundum að fjvn. setti sérstaka undirnefnd í menntamálin, en ekki varð af því þá. Ég held að nú hafi það verið gert og er það mjög til bóta, að ég tel.

Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að það er venja að við gerð fjárlagafrv. eru yfirleitt ekki teknar inn breytingar á smærri liðum, Hvort sem er til menningarmála eða annarra mála, ýmsum styrkjaliðum og ýmsum slíkum smærri liðum, þar sem ekki er um að ræða beint fyrirtæki sem rekin eru af ríkissjóði, heldur er ætlast til að þær breytingar séu gerðar á Alþingi. Síðan er venjan að það er leitast við af hálfu stjórnvalda að setja fjvn. þröngar skorður hverju sinni, svo að mjög er erfitt að hreyfa þetta þegar þar að kemur. Þetta kannast ég við bæði sem fjvn.-maður og við starf í menntmrn. Ég held að það væri mjög æskilegt að breyta þessu. Fjvn. metur að sjálfsögðu þarfir ríkisfyrirtækjanna, í menningarmálum sem annars staðar, Þjóðleikhúss, Sinfóníuhljómsveitar o. s. frv.

Hv. síðasti ræðumaður varð að minnast á að það væri lítils góðs að vænta af núv. stjórn í þessum málum. Ég gat ekki annað en brosað að því. Mér fannst ekki létt undir fæti með þetta meðan ég sat í menntmrn., og þannig held ég að þetta hafi verið allar götur, því að þegar ég lét gera lista yfir fjárveitingar til hinna ýmsu svokölluðu menningarmála, margs konar styrktarstarfsemi nokkuð mörg ár, þá kom í ljós að það var ákaflega mikið um að fjárveitingar stæðu óbreyttar árum saman, jafnvel í krónutölu og jafnvel upp í áratug. Slíkt er ekki nýtt. Hins vegar held ég að það sé alltaf smátt og smátt verið að auka fjárhagslegan stuðningi við ýmsa slíka starfsemi.

Ég hef stundum sagt það, bæði í gamni og alvöru, að ekki væri brýn þörf á því fyrir okkur að móta þarna sérstaka stefnu — við hefðum stefnu. Stefnan væri sú að ríkisvaldið vildi styðja og styrkja hina frjálsu menningarstarfsemi og iðkun fagurra lista, en ekki stjórna henni. Það væri stefna okkar Íslendinga að styrkja þess háttar störf en ekki að taka þar upp harða stjórn. Ég held að það sé nú meginstefnan. Ég held að það væri mjög æskilegt, að það væri skipulagður betur en nú er og auðvitað aukinn, en fyrst og fremst skipulagður betur en nú er sá takmarkaði stuðningur sem hið opinbera veitir hinum ýmsu listgreinum og ýmsum þáttum menningarmála og ekki síst áhugastarfi margs konar sem unnið er í þessum efnum víðs vegar um landið. Þannig held ég að þessi fsp. sé þörf og veki athygli á máli sem nauðsynlegt er að taka á, og ég veit raunar að allir hv. alþm. vilja styðja sér hverja hæstv. ríkisstj. til góðra verka á þessu sviði.