03.04.1979
Sameinað þing: 77. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3787 í B-deild Alþingistíðinda. (2977)

346. mál, niðurfelling afnotagjalds af síma fyrir ellilífeyrisþega

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Það er rétt, sem hefur komið fram hér, að þetta er nokkurt vandamál. Það er vandamál vegna þess, að enda þótt ellitryggingar- og örorkubætur væru hækkaðar um þá upphæð sem nemur kostnaði við síma, þá er engin trygging fyrir að þetta fólk mundi á sér síma, vegna þess að því fyndist örugglega það hafa nóg við peningana að gera. Þetta hefur verið reynt annars staðar. Síminn er hins vegar þessu fólki ekki einungis til þæginda, hann er mikið öryggisatriði. Það er eitt af vandamálum þessa aldurshóps að geta látið vita ef eitthvað ber út af. Þess vegna kemur fyrir alltaf öðru hvoru að fólk lætur ekki vita um sig, veikist eða jafnvel deyr án þess að hafa áður getað gert vart við hvað væri að ske. Síminn er nokkur leið til að bæta úr í þessu efni, og þess vegna er það þjóðfélagsins í raun og veru að reyna að sjá til þess, að þetta fólk hafi á einhvern hátt aðgang að síma. En það verður ekki gert, eins og ég sagði, með því að hækka tryggingabætur um nokkur þús. kr. á ári. Þar þarf annað og meira til.