02.11.1978
Sameinað þing: 13. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 328 í B-deild Alþingistíðinda. (300)

32. mál, lífríki Breiðafjarðar

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég get tekið undir með síðasta ræðumanni, að vissulega hefði verið æskilegt að flm. að þessari till. hefðu verið allir þm. Vestfirðinga og Vesturlands. Málið var undirbúið af áhugamönnum á þessu svæði, eins og best kom fram á fundinum í Búðardal. Hins vegar vil ég lýsa fullum stuðningi við þessa till. hv. 2, þm. Vesturl. og tel að hún eigi örugglega stuðning allra sem á þessu svæði búa.

Ég vil einnig vekja athygli á grg. sem fylgir till. Hún er mjög vel uppbyggð og lýsir í stuttu máli því sem um er að ræða í þessari till. og hversu Breiðafjarðarsvæðið er mikilvægt fyrir það fólk, sem þar býr, og ekki síður fyrir landið í heild.

Sjómenn og útvegsmenn við Breiðafjörð hafa á síðari árum haft miklar áhyggjur af minnkandi fiskigengd á Breiðafjarðarmiðum og miðum við Snæfellsnes. Þeir hafa haft þá skoðun lengi, að í Breiðafirði væru hrygningarstöðvar þorskfisksins. Því miður voru fiskifræðingar okkar á öðru máli og eru raunar enn. En barátta heimamanna, eins og kom fram hjá hv. flm., sem mun sjálfsagt vera eitt af fáum dæmum í okkar landi um að sjómenn óskuðu sjálfir eftir lokun vissra veiðisvæða, bar þann árangur að mikilvæg svæði í Breiðafirði voru friðuð fyrir vissum veiðitækjum og eru enn. Sjómenn okkar telja á því engan vafa, að þetta hefur þegar skilað árangri þrátt fyrir það að mikill samdráttur er í fiskigengd á þessum slóðum, sem er eitt stærsta vandamálið í verstöðvum a.m.k. á Snæfellsnesi.

Fyrir nokkrum árum var ákveðið í lögum frá hv. Alþ. að stofna útibú frá Hafrannsóknastofnuninni á Snæfellsnesi, nánar tiltekið í Ólafsvík. Heimamenn brugðust það vel við þessu máli, sem þeir raunar áður höfðu barist fyrir, að í Ólafsvík var byggt sérstakt húsnæði fyrir útibú Hafrannsóknastofnunarinnar 1976. Það kostaði sveitarfélagið 10 millj. kr. og bíður enn fullbúið fyrir stofnunina. Það bíður eftir stofnuninni, en hún hefur ekki enn þá fengið til þess fjármagn í fjárl. að hefja þarna starfsemi þrátt fyrir ákveðnar óskir um það bæði frá sjútvrn. og stofnuninni sjálfri á hverju ári síðan 1976. Ég vona að tækifærið sem hér gefst í sambandi við þessa þáltill., opni augu hv. þm. fyrir nauðsyn þess, að þetta verði gert. Stofnunin sem slík, Hafrannsóknastofnunin, hefur vissulega mjög þýðingarmiklu hlutverki að gegna fyrir íslenskan sjávarútveg, og rannsóknaraðstaða á þessu sviði næst því svæði, sem um er að ræða, hefur gífurlega þýðingu.

Ég tel ástæðu til að undirstrika nauðsyn þess, sem raunar kom fram hjá hv. flm, till., að rækilega verði fylgst með þeim áhrifum sem þörungavinnslan á Reykhólum kann að hafa á lífríki Breiðafjarðar. Það hefur a.m.k. verið útbreidd skoðun meðal fólks, sem býr við sjávarströndina, að fiskseiði eru mjög gjarnan á þaraslóðum eða þörungaslóðum við strendur landsins. Og því hefur verið haldið fram af sumum aðilum, að það gæti verið viss hætta á ferðum ef farið verði mjög mikið í að uppræta þennan sjávargróður. Allavega vil ég í þessu tilfelli leggja áherslu á að þarna verði farið með gát og lögð verði mikil áhersla á þennan rannsóknarþátt. Það mundi ekki skaða í sambandi við þá miklu fjölbreytni sem er á þessu svæði, að sú stofnun, sem við berum allir mikið traust til, fái aðstöðu á svæðinu til þess að fylgjast með þessu og öðru slíku.