23.04.1979
Efri deild: 82. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4092 í B-deild Alþingistíðinda. (3193)

263. mál, eftirlaun aldraðra

Bragi Sigurjónsson:

Herra forseti. Eins og hæstv. félmrh. tók fram í framsögu fyrir þessu frv. er hér verið að leitast við að leiðrétta misræmi í eftirlaunum til aldraðra og bæta að nokkru leyti úr galla, sem hefur verið á því kerfi undanfarið. Höfuðmálið er náttúrlega eftir, að allt þetta mikla eftirlaunakerfi sé samræmt og gert að einum allsherjareftirlaunasjóði. Þá og þá fyrst verður þessum málum komið í gott lag. Gallinn við þetta frv., eins og önnur sem á undan hafa komið í þessa áttina, er sá, að þetta kerfi er gert allt of marghrotið, allt of þungt í vöfum til þess að við getum kallað þetta góða löggjöf á heildina litið, en að sjálfsögðu fagnar maður því skrefi sem hér er tekið að því lokamarki sem hæstv. ráðh. var að tjá okkur áðan að hér væri stefnt að. Að því leyti endurtek ég það, að ég lýsi ánægju minni með að þetta frv. sé komið fram.

Ég þykist sjá af ræðum bæði ráðh. og annarra þdm., sem hér hafa talað, að nokkur átök kunni að verða um hvernig eigi að fjármagna þá grein eftirlauna sem hér er verið að leggja til. En ég vona fastlega að sá ágreiningur jafnist og, eins og ráðh. tók fram, frv. geti verið orðið að lögum þegar þing fer heim í vor.

Ég get ekki fallist á að það sé ranglátt að sveitarfélög taki að einhverju leyti þátt í fjármögnun eða kostnaði eftirlauna, því að að sjálfsögðu hlýtur margt af því fólki, sem kemur til með að njóta þessara eftirlauna, að koma úr hinum ýmsu sveitarfélögum landsins. Spyrja má að vísu, hvort Jöfnunarsjóður sé hinn rétti aðili þarna, því að á hans baki eru mörg útgjöld og dettur mér þá í hug að við höfum verið að velta því fyrir okkur í tryggingaráði, hvernig eigi að ná inn vanskilafé hjá sjúkrasamlögum vítt um land til almannatrygginga, því að þar er víða pottur brotinn almannatryggingum til mikils tjóns og erfiðleika. En ég endurtek það, að mér þykir ekki óeðlilegt að sveitarfélögin séu á einhvern hátt látin bera hluta af þeim útgjöldum sem hér er farið fram á.

Ein ástæðan fyrir því, að ég kvaddi mér hljóðs, er í sambandi við það, að fullyrt var í mín eyru nýverið að t. d. hjón, sem ynnu hjá hinu opinbera, þ. e. a. s. hjá ríkinu, og greiddu bæði iðgjöld í eftirlaunasjóð þar, nytu ekki eftirlauna nema annað þeirra þegar að eftirlaunaaldri kæmi. Ég vildi í fyrstu ekkí trúa þessu, en það var fullyrt svo ákveðið í mín eyru að mér datt í hug að hér þyrfti með tilliti til þess jafnaðar, sem við erum að reyna að koma á milli kynjanna og milli allra í þjóðfélaginu, að skoða málin hvort það gæti verið að einstaklingar séu að greiða iðgjöld í hina ýmsu lífeyrissjóði án þess að kaupa sér réttindi, eins og þarna virðist vera, sé þetta rétt. Það er kannske ekki sanngjarnt að ætlast til þess að því sé svarað hér, hvort þetta sé í raun og veru. Ég hef ekki leitað mér upplýsinga um það á þeim stutta tíma síðan þetta var fullyrt í mín eyru, en ég vildi koma þessu á framfæri. Þetta tel ég mikinn ljóð á lagagerð, ef svo væri að kannske svo og svo margir einstaklingar í þjóðfélaginu væru látnir greiða iðgjöld í hina ýmsu lífeyrissjóði, en nytu ekki þar nema takmarkaðra réttinda, nytu þeirra ekki sem einstaklingar og væru afskrifaðir — ef um hjón er að ræða annað þeirra — þegar til lífeyristöku kemur.

Ég hef þessi orð ekki fleiri, en endurtek það, að ég styð þetta frv. mjög ákveðið og vona að þd. takist að finna sæmilega leið í sambandi við kostnaðinn sem allir geta þokkalega við unað, þó það tefji ekki fyrir framgangi málsins.