24.04.1979
Sameinað þing: 82. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4136 í B-deild Alþingistíðinda. (3238)

205. mál, atvinnumál á Keflavíkurflugvelli

Menntmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Nafni mínu hefur nokkuð verið blandað inn í þessar umr. og okkur Alþb.-ráðh. vegna þess að Carter Bandaríkjaforseti sendi eilítið spaugilegt bréf hingað til lands með varaforseta sínum nú fyrir skemmstu, þar sem hann þakkar fyrir að við skulum hafa leyft dvöl bandarísks hers í landinu, þ. e. a. s. íslensk stjórnvöld. Ég held að þetta þakkarbréf þurfi ekki að koma neinum á óvart, því að vissulega má Bandaríkjaforseti þakka forustumönnum allra annarra flokka en Alþb. fyrir að hafa leyft hér hersetu. Það vita allir að bandaríski herinn er hér á landi eingöngu í þágu Bandaríkjamanna sjálfra. Hann má því sannarlega vera þakklátur fyrir þá rausn sem hernámsflokkarnir þrír hafa sýnt Bandaríkjamönnum.

En varðandi það atriði, að varaforsetinn hafi komið í heimsókn í Árnagarð, vil ég upplýsa vegna mjög spaugilegra vangaveltna sem hér hafa átt sér stað um orðræður okkar, að þegar við skoðuðum þar fornar bækur ræddum við um það eitt sem gerðist hér á landi fyrir árið 1400.