25.04.1979
Efri deild: 83. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4170 í B-deild Alþingistíðinda. (3268)

159. mál, réttur verkafólks til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla

Frsm. meiri hl. (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Þetta frv. hefur verið afgreitt frá hv. Nd. og meiri hl. félmn. Ed. hefur orðið sammála um að mæla eindregið með samþykkt frv.

Hér er á ferðinni veigamikill áfangi í réttindaaukningu launafólks í landinu, einkum þess hluta launafólks sem lengst af hefur búið við minnst réttindi hvað snertir atvinnuöryggi og einnig tekjuóvissu þegar veikindi ber að höndum. Það er skoðun meiri hl. n., að það frv., sem hér er á ferðinni, sé veigamikið skref í þá átt að skapa á Íslandi það velferðar- og jafnréttisþjóðfélag sem meiri hl. núv. Alþingis, stuðningsflokkar hæstv. ríkisstj., hefur einsett sér að stuðla að því að koma á í náinni samvinnu við samtök launafólks.

Það frv., sem hér er á ferðinni, nýtur víðtæks stuðnings hjá fjölmennustu samtökum launafólks í landinu. Það hefði verið hv. Alþ. til sóma og félmn. þessarar d. einnig, ef allir nm. og allir þm. hefðu getað orðið sammála um að stiga þetta skref til að auka jafnrétti í landinu og skapa hinum lægst launuðu atvinnuöryggi og tekjuöryggi þegar veikindi ber að höndum. Mér finnst þó rétt að geta þess, að það frv., sem hér er á ferðinni, er aðeins skref í áttina að því marki sem við margir hverjir viljum stefna að. Lengra þyrfti að ganga ef fullt jafnrétti ætti að nást, því að margvíslegir hópar í þjóðfélaginu — m. á. ýmsir hópar innan launastéttanna — búa við meiri réttindi en hér er áformað að launafólk almennt geti notið. En þrátt fyrir að betur hefði mátt gera teljum við hér á ferðinni eitthvert veigamesta skrefið, sem stigið hefur verið til þess á undanförnum árum að skapa almenna velferð og jafnrétti meðal launafólksins í landinu, og væntum þess eindregið að þetta frv. fái fljóta og góða afgreiðslu hjá hv. deild.