25.04.1979
Neðri deild: 77. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4190 í B-deild Alþingistíðinda. (3290)

Umræður utan dagskrár

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Ég vil mjög taka undir orð hv. 1. þm. Vestf. sem hann hefur látið falla varðandi afgreiðslu á lánsfjáráætlun og frv. um heimild til erlendrar lántöku og ábyrgðarheimildir sem er til meðferðar og er nú til afgreiðslu eða umsagnar hjá hv. fjh.- og viðskn. Ég held að allir séu um það sammála, að slík vinnubrögð geta ekki gengið ef við viljum á annað borð haga málum með þeim hætti sem skynsamleg og góð fjármálastjórn kallar á. Ég vil líka taka fram, að ekki er við formann hv. fjh.- og viðskn. né þann, sem gegnir nú formennsku, að sakast í þessum efnum, enda kom það strax fram við 1. umr., eins og hv. 1. þm. Vestf. gat um og reyndar núv. formaður fjh.- og viðskn. staðfesti, að innan stjórnarráðsins er ágreiningur um málið. Það kom strax fram á fundi í fjh.- og viðskn. að ágreiningur væri enn, og það liggur ekki fyrir, a. m. k. ekki svo að ég viti til, að búið sé að jafna þann ágreining. Til þess að hægt sé að afgreiða mál úr n. hlýtur meiri hl. að sjálfsögðu að verða að vera samstæður. Það geta auðvitað verið margir minni hlutar, en í málum sem þessu sýndust það ekki góð vinnubrögð. Ég tel því skiljanlegt að formaður fjh.- og viðskn. treysti sér ekki til að afgreiða málið út úr n. fyrr en það liggur alveg ljóst fyrir.

Auk þessa hefur komið fram, síðan lánsfjáráætlun var lögð fram og það frv. sem henni fylgir, að forsendur hennar hafa gerbreyst. Það skortir að mínum dómi marga milljarða — ef ekki á annan tug milljarða — til að framfylgja lánsfjáráætlun og því frv. sem henni fylgir, ef hún á að vera samkv. orðanna hljóðan. Ég á þar við framkvæmdir Landsvirkjunar og það fjármagn sem til þeirra framkvæmda er ætlað. Auk þess höfum við heyrt hér á Alþ. að hugsuð sé lántaka fyrir Framleiðsluráð landbúnaðarins upp á marga milljarða, 3.5 milljarða, ef ég man rétt, og talað um að hér verði um að ræða erlenda lántöku. Ég hef að vísu heyrt seinustu dagana að mönnum finnist ekki rétt að taka slíka lántöku inn í lánsfjáráætlun, það mun reynast of erfitt og sjálfsagt betra að leggja málið fram á síðara stigi.

Þá erum við komnir út fyrir þann ramma sem þessari lánsfjár- og fjárfestingaráætlun var ætlaður og verður hún þá ekki sú heildaráætlun sem verið hefur undanfarin ár. Þess vegna skortir mikið á að fjh.- og viðskn. hafi fengið upplýsingar. Ekki skortir á vilja formanns n. að afla þeirra upplýsinga. Hins vegar er ljóst að fyrir páskafríið var fjh.- og viðskn. önnum kafin við afgreiðslu á öðru stórmáli, sem hæstv. ríkisstj. hafði ekki komið sér saman um og tók margar vikur og mánuði hjá stjórnarflokkunum að koma sér saman um, þ. e. a. s. frv. til l. um stjórn efnahagsmála. Fjh.- og viðskn. beggja d. voru uppteknar við að kynna sér það mál og vinna að því, þannig að fyrir páskana vannst ekki tími til að koma þessu máli áfram í n. En ég undirstrika að þar var ekki við formann fjh.- og viðskn. að sakast.

Hv. 3. þm. Vestf., núv. formaður fjh.- og viðskn., sagði að hér væri ekki um einsdæmi að ræða. Rétt er að fram komi að hér er um einsdæmi að ræða eftir að lánsfjáráætlun komst í það horf sem hún er í núna. Hún var fyrst flutt á þinginu 1975, þá að vísu seint í des. og það gagnrýnt mjög af þáv. stjórnarandstöðu. Ég reyndi mjög að flýta þessu verki og það tókst á s. l. ári. Það er hins vegar rétt, að þegar um var að ræða eingöngu framkvæmdaáætlanir, sem fjármagnaðar voru með lánsfé, dróst afgreiðsla þeirra oft fram á árið, en allir voru sammála um að slíkt væri mjög slæmt. Þess vegna voru breytt vinnubrögð tekin upp af fyrrv. hæstv. ríkisstj. Ég held að það séu í raun og veru allir sammála um að þann háttinn eigi á að hafa. Það, sem hér er að, er það sama og búið er að vera að í allan vetur: ósamkomulag stjórnarflokkanna um öll höfuðmálin. Þess vegna komast þau ekki áfram til afgreiðslu á Alþingi.