26.04.1979
Sameinað þing: 84. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4215 í B-deild Alþingistíðinda. (3321)

227. mál, tolltekjur af sjónvarpstækjum og sjónvarp á sveitabæi

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. þm. Vilhjálmur Hjálmarsson, fyrrv. menntmrh., sat í fyrri ríkisstj., þeirri stjórn sem tók við af „hrollvekju“, eins og hann tók til orða. (VH: Ég var að tala um hina hrollvekjuna, frá viðreisninni.) Frá viðreisninni? Þar kom að því. Ég vona að það sé þá skýrt okkar á milli.

Ég held að hv. þm. hafi misskilið þetta um viðreisnartímabilið. Það var ekki sú hrollvekja sem oft hefur verið talað um manna á milli sem hann tók við. Hrollvekjan á þeim tíma var sú hugsun sem á lokadögum viðreisnarstjórnar hvarflaði að mönnum, að vinstri stjórn kæmist e. t. v. til valda að loknum þeim kosningum sem voru í vændum. Það var sú hrollvekja sem fólk talaði um. En hrollvekja vinstri stjórnar er vandamálið sem Alþ. á við að glíma, og mér er næst að halda að ef viðreisnartímabil það, sem við höfum í huga þegar um viðreisn er talað, hefði haldið áfram væri enn þá farsælt tímabil í stjórn þessa lands og líklega væru flest, ef ekki öll sveitabýli þegar komin í sjónvarpssamband við aðalstöðvarnar, en ekki í „kasettu“-samband, eins og hér var rætt áðan.

Varðandi tolltekjur af innfluttum sjónvarpstækjum tel ég að sá tekjustofn eigi að ganga óskertur til uppbyggingar starfsemi Ríkisútvarps og sjónvarps. Ég lít á þá tolla sem markaða tekjustofna eða sjálfsagðan stofnsjóð fyrir fjölmiðlavæðingu landsins alls. Ef fjmrh. hefur haft heimild til þess samkv. reglugerðum og lögum að skerða þennan tekjustofn Ríkisútvarps-sjónvarps á Alþ. að breyta þeim lögum og hafa þau þannig úr garði gerð að embættismenn geti ekki breytt tilgangi laganna (Gripið fram í.) Eða ráðh.! Ráðh. er embættismaður ríkisins.

Ég hef ekki meira um þetta mál að segja. En ég vona að alþm., sem nú vilja styðja sjónvarps- og fjölmiðlavæðingu landsins, taki til höndum og breyti lögum þannig að rn., ráðh. eða embættismannakerfið geti ekki beitt þeim í öðrum tilgangi en þeim er ætlaður af Alþingi sjálfu.