27.04.1979
Efri deild: 84. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4250 í B-deild Alþingistíðinda. (3352)

271. mál, heilbrigðisþjónusta

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Ég er alveg sammála hv. þm. Alexander Stefánssyni um að þessi breyting á síðasta þingi á kostnaðarskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga í sambandi við viðhald sjúkrahúsa hafi verið hreint slys, þegar breytt var úr 85/15%, eins og öllum öðrum rekstri sjúkrahúsanna, í 50/50%. Víð tökum t. d. sjúkrahús Akranes. Einhvers staðar milli 50 og 60% sjúklinganna koma úr öðrum sveitarfélögum. Eigi að síður verður Akraneskaupstaður einn að standa undir helmingi af viðhaldskostnaði hússins. Þetta er auðvitað með öllu ófært. Ég hefði satt að segja viljað, og óska þess mjög eindregið, að leiðrétting hefði náð fram að ganga nú, en það reyndist ekki hægt. Ég mun beita mér fyrir því, að í fjárlög næsta árs verði tekin fjárhæð til þess að koma þessum málum í fyrra horf.

Hv. þm. minntist á endurskoðun sjúkrasamlaganna. Ég er honum sammála um það líka að við þyrftum að taka þau mál öll upp. Sjúkrasamlögin sem slík eru að mínu mati orðin óþörf. Það ætti að breyta sjúkrasamlögunum, sem nú eru víðs vegar um landið, í umboðsskrifstofur fyrir Tryggingastofnunina og leggja af að sýslumenn eða bæjarfógetar séu þar umboðsaðilar. Er það að mínu mati óþarfakostnaður.

Um þá brtt. að Grundarfjörður verði H 1 í stað H 2 stöð var, og sama er að segja um Eskifjörð, vil ég ekki tjá mig núna. Það yrði auðvitað nokkur kostnaðarauki. Ég hef ekki kynnt mér þau mál nægilega vel til að geta tjáð mig um þau.

Það er rétt, eins og kom fram hjá hv. þm. Braga Níelssyni, að frv. nær stutt. Það er nánast eingöngu leiðrétting á því sem í reynd er viðurkennt. Það er líka rétt, að vafasamt er að til þurfi lagabreytingu. Svona breyting má samkv. lögum gera með ákvörðun ráðh. Frá því að þessi lög voru sett og þau sem á undan giltu hefur heilbr.- og trmrh. á hverjum tíma talið réttara að ákveða slíkar breytingar á Alþ., þó að hann í reynd hafi vald til þess að gera það sjálfur. En lög eins og þessi þurfa að sjálfsögðu alltaf að vera í endurnýjun og endurskoðun. Það er ýmislegt sem breytist, ýmsar forsendur sem breytast, og finnst mér eðlilegt að fram komi margar till. um breytingar á lögunum.