03.05.1979
Neðri deild: 81. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4336 í B-deild Alþingistíðinda. (3461)

190. mál, ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1979

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég vil vegna fram kominnar brtt. á þskj. 571, frá hv. þm. Pálma Jónssyni, segja fáein orð og vegna ræðu hans áðan.

Brtt. hans felur það í sér að ríkissjóður standi að fullu undir afborgunum, vöxtum og öðrum kostnaði við 600 millj. kr. lántöku vegna skuldagreiðslna Rafmagnsveitna ríkisins. Í lánsfjáráætlun kemur fram að Rafmagnsveitur ríkisins skuli hafa heimild til að taka 600 millj. kr. lán og lánsfjáröflunin sé ætluð til þess að fyrirtækið geti m. a. endurgreitt 200 millj. kr. lán frá árinu 1977 og að ríkissjóður muni á næstu árum leggja Rafmagnsveitunum til árlega 120 millj. kr. til endurgreiðslu lánsins, en að öðru leyti annist fyrirtækið greiðslur vaxta og afborgana. — Þetta er efnislega það sem fram kemur í texta fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar um þetta atriði.

Hv. flm. brtt. á þskj. 571 rifjaði upp að ég hefði við umr. á Alþ. um frv. til l. um verðjöfnunargjald í desembermánuði s. l. greint frá því, að iðnrn. hefði flutt um það till. í ríkisstj. að Rafmagnsveitunum væri heimiluð þessi lántaka og þar væri um að ræða óendurkræft framlag til Rafmagnsveitnanna, þ. e. a. s. að ríkissjóður mundi standa undir vöxtum og afborgunum af lántökunni. Ég vil staðfesta hér að þannig var staðið að málum í rn. mínu og ég fylgdi þessu máli eftir í ríkisstj., en það hlaut ekki aðrar undirtektir þar hjá meiri hl. en fram kemur í texta lánsfjáráætlunar, og lagði ég þó mjög ríka áherslu á að fyrirtækinu væri ekki ætlað að standa undir kostnaði vegna þessarar lántökuheimildar. Ég tel það mjög miður að ekki skuli hafa verið orðið við till. mínum hér að lútandi, en vil algerlega bera til baka það sem mátti skilja á máli hv. tillögumanns áðan, Pálma Jónssonar, að þarna hafi verið um einhver brigð að ræða frá minni hálfu. Ég barðist fyrir framgangi þessa máls eins og hægt var, en það hlaut ekki jákvæðar undirtektir, og reyndi sérstaklega á fjmrn. í þessu sambandi eins og varðandi fleiri þætti. Ég tel mjög miður að svona skuli hafa farið, því að ég tel að sú stefna, sem iðnrn. bar fram og voru undirtektir við tillögu stjórnar Rafmagnsveitna ríkisins að þessu leyti, þ. e. a. s. að ríkissjóður sjái fyrirtækinu fyrir beinum framlögum til óarðbærra framkvæmda, sé rétt stefna og það hefði verið fyllilega eðlilegt að stiga það skref til fulls, en ekki að parta þetta niður eins og gert er ráð fyrir með þeirri afgreiðslu sem niðurstaða varð um í ríkisstj., að ríkissjóður yfirtaki þetta lán á 5 árum og þannig sé á mjög óverulegan hátt létt þeirri skuldabyrði sem á fyrirtækinu hvílir vegna þessa máls og margra óhagstæðra lána sem fyrir eru hjá Rafmagnsveitunum og eiga drjúgan þátt í þeim fjárhagsvanda sem þær eiga við að líma.

Ég mun áfram berjast fyrir því, að tekin verði upp sú stefna í sambandi við framkvæmdir og fjármögnun til Rafmagnsveitna ríkisins að greint verði á milli framkvæmda, sem eru arðbærar — eða þar sem greiðslur koma á móti til fyrirtækisins, og hins vegar framkvæmda, sem eru í eðli sínu félagslegar eða óarðbærar, mætt á slíka stiku sem algengt er. Ég vænti þess, að ríkari skilningur verði á slíkri málsmeðferð þegar kemur til afgreiðslu á næsta ári á fjárhagsvanda fyrirtækisins. Ég hefði sannarlega kosið að unnt væri við afgreiðslu lánsfjáráætlunar að fá fram breytingu, því að mikil þörf er á að bæta fjárhagsstöðu Rafmagnsveitnanna þannig að unnt sé að draga úr þeim mikla mun sem er á verðlagi til notenda og viðskiptavina Rafmagnsveitnanna og þess meiri hluta landsmanna sem býr við mun hagstæðara raforkuverð.

Ég vil geta þess í þessu samhengi, að sú hækkun, sem samþykkt var á verðjöfnunargjaldi í des. s. l., hefur þó orðið til þess að nokkuð — þó allt of lítið — hefur dregið úr þeim verðmismun sem er á almennum töxtum hjá Rafmagnsveitunum og öðrum rafveitum. Þannig var verðmunurinn á heimilistaxta fyrir síðustu gjaldskrárbreytingu um 73% í staðinn fyrir 88% áður, en þetta bil hefur eitthvað minnkað, þó að í litlu sé, við verðákvörðun á rafmagni um síðustu mánaðamót þó að ég hafi þá tölu ekki handbæra.

Varðandi fjárveitingar til orkumálanna að öðru leyti hefur það komið fram í máli mínu fyrr í þessari hv. d., að ég hef gert um það till. innan ríkisstj. í sambandi við þá miklu verðbreytingu sem orðið hefur á olíu og olíuafurðum, að gert verði sérstakt átak í sparnaðarskyni til þess að draga úr tilkostnaði þegar á þessu ári og horft til næstu ára. Þessar till. verða til meðferðar innan tíðar og sem fyrst, að ég vænti, hjá ríkisstj. og þá tekin afstaða til fjáröflunar í þessu skyni, en þarna er þörf á verulegum fjárhæðum sem munu skila sér þegar á þessu ári í olíusparnaði og þar með létta af áfallandi kostnaði mjög fljótlega og bæta stöðuna síðan í enn frekari mæli horft til næstu ára. Þetta vil ég að liggi hér ljóst fyrir. Þessar till. varða hitaveitur víða á landinu, þær varða raflínulagnir, sem ástæða er til að hraða til að draga úr olíunotkun, og fleiri þætti í tengslum við orkuiðnaðinn, þ. á m. rannsóknir og undirbúning vegna framkvæmda sem þörf er á að hraða og koma þurfa á dagskrá fyrr en síðar.