08.05.1979
Sameinað þing: 89. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4438 í B-deild Alþingistíðinda. (3514)

354. mál, símamál

Fyrirspyrjandi (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég spyr í fyrsta lagi hvað líði endurskoðun laga um Kennaraháskóla Íslands.

Í lögum um Kennaraháskólann frá 16. apríl 1971 segir að þau skuli endurskoðuð eftir tvö ár. Fyrrv. menntmrh., Magnús Torfi Ólafsson, skipaði 1972 nefnd til að annast þá endurskoðun. Ég held að óhætt sé að fullyrða að sú nefnd starfaði af mikilli kostgæfni og tók sér allrúman tíma. Ég var oft spurður á sínum tíma hvað liði endurskoðuninni, m. a. hér á Alþ. Þessi nefnd lauk störfum í júní 1976 og var frv. það, sem hún samdi, lagt fram á Alþ. lítið breytt á útmánuðum 1977 og endurflutt á síðasta þingi, en einnig nokkuð seint fram lagt.

Ég held að það fari varla milli mála að æskilegt er að ljúka þessari endurskoðun sem fyrst og þá með löggjöf, m. a. vegna þess að ýmsum atriðum laganna þarf af hagkvæmnisástæðum að breyta að fenginni reynslu. Það er hins vegar ofureðlilegt að nýr ráðh. þurfi tíma til að setja sig inn í mál sem þetta og gera sér grein fyrir efnisatriðum. En mig fýsir að vita hvað nefndri endurskoðun líður og hvort hæstv. ráðh. hefur t. d. sett af stað nýja skoðun málsins í heild og þá með hverjum hætti að því er unnið. Að þessu sinni lýtur fyrri liður fsp. minnar.

Annar liður fsp. hljóðar svo: „Eru í bígerð breytingar á högum Æfinga- og tilraunaskóla Kennaraháskólans? Ef svo er þá hverjar?“

Í lögum um Kennaraháskóla Íslands segir í 16. gr.: „Í sambandi við Kennaraháskóla Íslands starfar æfinga- og tilraunaskóli, sem er um leið skóli skyldunáms fyrir ákveðið hverfi Reykjavíkurborgar.“

Þá segir í 17. gr. sömu laga:

„Æfingaskólinn skal hafa með höndum uppeldisfræðilegar athuganir og tilraunir eftir því sem við verður komið.“

Ég tel að Æfinga- og tilraunaskólinn sé alveg ómissandi fyrir Kennaraháskóla Íslands sem stofnun og líka fyrir kennaramenntunina yfirleitt. Slík hefur og verið afdráttarlaus afstaða skólamanna lengi, enda gert ráð fyrir þessum skóla löngu áður en Kennaraháskólinn var settur á fót sem slíkur. Æfinga- og tilraunaskólinn er til orðinn nokkuð löngu fyrr, eins og kunnugt er.

Nú um sinn hefur verið eða var a. m. k. rætt töluvert um breytingar á s,tarfsemi Æfinga- og tilraunaskólans, m. a. í blöðum og á fundum með fulltrúum frá rn., borg og skólanum sjálfum. Hef ég heyrt að komið hafi til tals að leggja skólann niður í núverandi mynd, flytja hann kannske úr núverandi húsnæði, sem þá yrði breytt og tekið til afnota fyrir aðra starfsemi Kennaraháskólans, o. s. frv.

Mig fýsir mjög að vita sem gleggst um hvað hér er að gerast og hvað hér er verið að ráðgera, enda tel ég nauðsynlegt almennt að það verði gert heyrinkunnugt. Ber einkum tvennt til þess. Eitt megintilefni þessa umtals virðist vera fækkun barna í tilteknum skólahverfum höfuðstaðatins. Ég tel þetta mjög óeðlilegt. Ég tel að menntun kennara sé slíkt meginatriði, að breytingar á höfuðstöðvum kennaramenntunarinnar verði að ræða á þeim grundvelli og út frá þeim forsendum fyrst og fremst að bæta eigi stöðu þeirrar stofnunar, en að brjóta upp á breytingum á aðstöðu Kennaraháskóla Íslands af öðrum ástæðum sé nánast ekki sæmandi málefnisins vegna. Hitt er svo það, að ég tel þær breytingar, sem ég hef heyrt að hafi komið til greina, óráðlegar í sjálfu sér.

Æfinga- og tilraunaskólinn er byggður á lóð Kennaraháskóla Íslands, vegna þess að það er að allra dómi æskileg afstaða og þess vegna óráð að fjarlægja hann þaðan. Húsnæði þessa skóla er að nokkru leyti hannað með tilliti til þeirrar kennslu sem þar fer fram nú. Kennaraháskóli Íslands hefur búið við óskapleg þrengsli í áratugi, eins og kunnugt er. Nýtt húsnæði hefur verið hannað og mun verkið nú tilbúið til útboðs, að ég hygg. Það, sem byggja skal, er mjög sérhæft húsnæði. Það er vegna eðlisfræði- og líffræðikennslu, það er vegna bókasafns, smíðakennslu og annarra handmennta. Aðstaða fyrir lítið mötuneyti mun líka vera fyrirhuguð í hinni nýju byggingu o. s. frv. Það yrði verulegur kostnaður því samfara ef ætti að nýta hús Æfinga- og tilraunaskólans til slíkra hluta.

Í Æfinga- og tilraunaskólanum fara fram tilraunir sem bundnar eru við bekki og ákveðna hópa, bókstaflega við lifandi fólk. Flutningur mundi raska mjög þeirri starfsemi eins og hún er upp byggð og nú á vegi stödd. Kennaraháskóli Íslands hefur mjög takmarkaða aðstöðu til að sinna tilrauna- og rannsóknastarfsemi á vísindalegan hátt. Með verulegri röskun á stöðu og högum Æfinga- og tilraunaskólans tel ég að sú litla aðstaða, sem þó nú er fyrir hendi, yrði skert verulega.

Ég beitti mér á sínum tíma sérstaklega fyrir stofnkostnaðarfjárveitingu vegna kennaramenntunarinnar m. a. og alveg sérstaklega til nýbygginga við Kennaraháskóla Íslands. Og ég vil segja að það hvarflaði ekki að mér að víkja frá stefnu forvera minna um alhliða uppbyggingu Kennaraháskóla Íslands og Æfinga- og tilraunaskóla hans á þeim stað sem ætlaður hefur verið í skipulagi Reykjavíkurborgar fyrir þá starfsemi. Vegna umtals um þetta og vegna þess hve ég tel það mál í raun þýðingarmikið fýsir mig nú, eins og þriðji liður spurningarinnar ber með sér, að heyra frá hæstv. ráðh. hvað í bígerð er í þessu efni.