07.11.1978
Sameinað þing: 15. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 422 í B-deild Alþingistíðinda. (354)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Út af ummælum hv. 8. þm. Reykv. vil ég taka það fram, að ég ætla ekki að fara að munnhöggvast við stjórnarandstöðuna út af þessu máli. Til þess gefast næg tækifæri síðar, enda hefur komið fram í blöðum að nú hafi sú mikla breyting verið gerð á starfsemi Sjálfstfl. hér í þinginu — væntanlega samkv. þingflokkssamþykkt — að þeir ætla að fara að taka þátt í umr. um mál strax á fyrsta stigi. Ég vænti þess því, að góð tækifæri gefist til þess að etja við þá kappi í þinginu síðar.

Ég vildi aðeins taka fram afstöðu mína í þessu máli, einfaldlega vegna þess að hér er ekki um að ræða ágreiningsefni milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Hér er um það að ræða að hafa í heiðri rétt og eðlileg vinnubrögð í sambandi við stjórnsýslu- og fjármálaráðstöfun — vinnubrögð sem allir fjvn.-menn t.a.m., án tillits til hvar í flokki þeir standa og án tillits til þess hver hefur setið í sæti fjmrh. eða forsrh. hverju sinni, hafa lagt mikla áherslu á að farið væri eftir. Þar sem ég er stuðningsmaður núv. ríkisstj, ætlast ég að sjálfsögðu til þess, að hún, frekar en þær stjórnir sem ég væri í andstöðu við, virði rétt og eðlileg vinnubrögð og hafi í heiðri þær leikreglur, sem til er ætlast af stjórnvöldum. Ég tel að þetta mál hafi verið ákaflega leiðinlegt og mistök og ætti að íhuga betur af þeim aðilum sem um það hafa fjallað.

Ég vil taka það sérstaklega fram, að við þm. Alþfl. höfum ekki verið leyndir einu eða neinu um þessi mál. Ég tel að við höfum fengið fréttir af þessari afgreiðslu jafnsnemma og flestir ráðh. í ríkisstjórn Íslands, þ.e.a.s. í kvöldfréttum í gærkvöld.