08.05.1979
Efri deild: 90. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4465 í B-deild Alþingistíðinda. (3551)

290. mál, lyfjadreifing

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Stjfrv. það til l. um lyfjadreifingu, sem hér er til umr., er samið af nefnd átta manna sem ég skipaði með bréfi dagsettu 25. sept. s. l. Nefndinni var ætlað að semja frv. um tilhögun lyfjadreifingar í landinu á grundvelli ákvæðis í samstarfsyfirlýsingu ríkisstj., þar sem segir, með leyfi forseta:

„Athugað verði að tengja lyfjaverslun heilbrigðisþjónustu og setja hana undir félagslega stjórn.“

Í nefndinni áttu sæti fulltrúar tilnefndir af helstu hagsmunaaðilum, þ. e. Apótekarafélagi Íslands, Lyfjafræðingafélagi Íslands og lyfjavöruhópi Félags ísl. stórkaupmanna, en auk þess áttu þar sæti fulltrúi úr lyfjamáladeild heilbrrn., úr hópi sveitarstjórnarmanna, frá Háskóla Íslands og landlæknisembættinu. Formaður nefndarinnar var Almar Grímsson deildarstjóri í heilbrrn.

Í grg. um störf nefndarinnar kemur fram, að hún hefur aflað sér upplýsinga umfram sérþekkingu einstakra nm. m. a. frá borgarlækni, yfirdýralækni, forstöðumanni Lyfjaverslunar ríkisins og Tilraunastöðvar Háskólans í meinafræði að Keldum svo og frá þeim lyfjafræðingum sem bera ábyrgð á vörslu og dreifingu lyfja á stærstu sjúkrahúsum landsins.

Í örstuttu máli má segja að þróun lyfjaverslunar hér á landi hafi verið þessi: Skipuleg lyfjasala hófst hér á landi um leið og embætti landlæknis var stofnað árið 1760, og annaðist Bjarni Pálsson landlæknir lyfjasöluna um 12 ára skeið eða þar til Björn Jónsson, fyrsti íslenski lyfsalinn, var skipaður með konungsúrskurði 18. mars 1772. Lyfjabúð hans, Reykjavíkur Apótek, var flutt frá Nesi við Seltjörn til Reykjavíkur með konungsúrskurði 13. mars 1833. Á 19. öldinni bættust svo við fjórar lyfjabúðir utan Reykjavíkur, þ. e. á Akureyri, í Stykkishólmi, á Seyðisfirði og Ísafirði. Um 1930 voru lyfjabúðir á landinu orðnar 14 alls, þar af 4 í Reykjavík, 1970 voru þær 29 alls, þar af 11 í Reykjavík, og nú eru þær 38, þar af 13 í Reykjavík. Staðarval og fjölgun lyfjabúða utan Reykjavíkur hefur fyrst og fremst þróast með læknaskipun og myndun þéttbýlla staða.

Opinber fyrirmæli um lyfjasölu voru frá 1760 í konunglegri tilskipun frá 4. des. 1672 um lækna og lyfsala. Segja má að sú tilskipun hafi að grundvelli til verið í gildi þar til lyfsölulögin öðluðust gildi 1. júlí 1963. Landlæknir gaf út ýmsar auglýsingar varðandi framkvæmd lyfja- og lyfsölumála fram til lýðveldisstofnunar, en eftir það gaf viðkomandi rn. út hvers konar opinber fyrirmæli í þeim málaflokki.

Þegar sérstakt heilbr.- og trmrn. var stofnað árið 1970 voru lyfja- og lyfsölumál eins og aðrir heilbrigðisflokkar færð til þess rn. Sérstök lyfjamáladeild tók til starfa 1. des. 1971.

Þróun lyfjaheildsölu var lengst af samstiga rekstri lyfjabúða sem önnuðust sjálfar eigin innflutning á lyfjum. Síðan tóku þó einstakar lyfjabúðir að mynda heildsölu og hélst sú skipan mála allt til loka fjórða áratugs þessarar aldar. Komu þá til sögunnar sérstök innflutnings- og heildsölufyrirtæki sem síðan hafa starfað samhliða þeim fyrirtækjum sem lyfjabúðirnar hafa myndað með sér. Alls annast nú 11 fyrirtæki þessa starfsemi.

Með þessu frv. er lokið endurskoðun gömlu lyfsölulaganna, nr. 30 frá 1963. Ný lög um lyfjafræðinga tóku gildi árið 1978 — lög nr. 35 frá 1978 — og lyfjalögin nýju, nr. 49 frá 1978 öðluðust gildi hinn 1. jan. s. l. Taka þau til allra faglegra atriða sem varða skráningu og framleiðslu lyfja. Auk þessara laga má svo minna á lög um ávana- og fíkniefni, nr. 65 frá 1974, og lög um eiturefni og hættuleg efni, nr. 85 frá 1968, sem bæði tengjast þessu sviði. Virðist mér sú spurning ein vakna nú, hvort æskilegt sé að setja ítarlegri ákvæði um innlenda lyfjaframleiðslu en nú er að finna í V. kafla lyfjalaganna. Kann að vera heppilegra að leyfa innlendu lyfjaframleiðslunni að þróast og vaxa meira en orðið er áður en í slíka lagasetningu verður ráðist.

Sú víðtæka endurskoðun lyfjamála, sem ég hef nú rakið, hefur ekki gengið árekstralaust fyrir sig, enda hér í húfi margvíslegir og miklir hagsmunir, ekki síst fjárhagslegir. Má í því sambandi minna á að frv. til l. um Lyfjastofnun ríkisins, sem lagt var fyrir Alþ. á 93. löggjafarþingi 1972–1973, og frv. til l. um lyfjaframleiðslu, sem lagt var fyrir Alþ. árið 1974, á 95. löggjafarþingi, mættu bæði verulegum mótbyr í þinginu, einkum hið fyrrnefnda, og dagaði þau bæði uppi.

Markmið þeirrar endurskoðunar á lyfjadreifingunni, sem núverandi stjórnarflokkar urðu ásáttir um í samstarfsyfirlýsingu sinni, eru, eins og áður er fram komið, tvíþætt: annars vegar að tengja lyfjadreifinguna betur heilbrigðisþjónustunni og hins vegar að setja hana undir fétagslega stjórn. Að baki þessari stefnumörkun liggja þau sjónarmið, að verslun með lyf og meðferð lyfja almennt eru veigamikill þáttur í almennri heilsugæslu. Lyf eru auk þess vandmeðfarinn og hættulegur varningur og ber heilbrigðisyfirvöldum því skylda til að vaka yfir meðferð þeirra.

Til að koma á nánari tengslum milli heilbrigðisþjónustu og lyfjaverslunar er sú leið farin í frv. að skipta landinu í sérstök lyfsöluhéruð sem samsvara og tengjast læknishéruðunum í lögum nr. 57 frá 1978, um heilbrigðisþjónustu. Innan þeirra héraða er gert ráð fyrir lyfsöluumdæmum sem svara til og tengjast heilsugæsluumdæmum í heilbrigðisþjónustulögunum. Er raunar gert ráð fyrir að í hvert skipti sem byggð er ný heilsugæslustöð í umdæmi þar sem lyfjabúð er fyrir eða á að koma sé athugað sérstaklega hvort staðsetja skuli lyfjabúð í viðkomandi heilsugæslustöð. Verður tæpast komið við öllu rækilegri tengingu milli heilbrigðisþjónustu og lyfjaverslunar.

Hvað varðar hitt atriðið í samstarfsyfirlýsingunni, að lyfjaverslunina skuli setja undir félagslega stjórn, hefur það ekki verið skilið sem bein þjóðnýtingarfyrirætlun, heldur á þann veg að opinbert eftirlit og aðhald með lyfjadreifingunni skuli vera öflugt og virkt. Hér kemur auðvitað það til m. a. að ríkið er langstærsti lyfjagreiðandi landsins og að lyf kosta samfélagið verulegar fjárupphæðir, bæði í gegnum tryggingakerfið og lyfjanotkun í sjúkrahúsum.

Í fjárlögum þessa árs eru greiðslur Tryggingastofnunar ríkisins vegna lyfjakaupa áætlaðar 2 milljarðar og 370 millj, kr., og bendir raunar flest til að sú fjárhæð sé stórlega vanáætluð. Því er nauðsynlegt að allir þættir lyfjadreifingarinnar séu undir öflugu eftirliti heilbrigðisyfirvalda, jafnt af fjárhags- og öryggissjónarmiðum.

Í raun hefur slíku eftirliti þegar verið komið á í veigamiklum atriðum þótt rekstur lyfjabúða og lyfjaheildsala sé að mestu í einkaeign. Engin erlend sérlyf má selja hér á landi nema sérstök opinber nefnd — lyfjanefnd — fallist á skráningu þeirra og ráðh. staðfesti þá ákvörðun. Innkaupsverð lyfjanna er staðfest við skráningu þeirra og má engar breytingar gera á því nema heilbr.- og trmrn. samþ. það að fengnum till. Lyfjaeftirlits ríkisins. Lyfjaverðlagsnefnd hefur eftirlit með framleiðsluverði innlendra lyfja og gerir til ráðh. till. um vinnugjaldskrá. Hún ákveður því grundvöll heildsölu- og smásöluálagningar svo og grundvöll vinnu- og afhendingargjalds lyfja. Loks annast Lyfjaeftirlit ríkisins, sem er sjálfstæð stofnun undir yfirstjórn heilbr.- og trmrn., eftirlit með verðlagi lyfja bæði í heildsölu og smásölu. Má því ljóst vera að opinbert eftirlit með verðlagi á lyfjum er fjölþætt og virkt. Lyfjaeftirlitið hefur auk þess með höndum faglegt eftirlit með lyfjabúðum, lyfjaheildsölum og öðrum stofnunum sem geyma lyf eða dreifa þeim. Loks er þess að geta, að rekstur lyfjabúða og innflutningsfyrirtækja er háður opinberum starfsleyfum.

Í þessu efni hefur því ekki þótt ástæða til enn frekara aðhalds og eftirlits. Hins vegar skiptir það máli að Lyfjaverslun ríkisins, sem er bæði lyfjagerð og lyfjaheildsala í ríkiseign og hefur fyrst og fremst það hlutverk að þjóna sjúkrahúsunum, er með frv. tryggður réttur til innkaupa á öllum erlendum sérlyfjum beint frá framleiðendum á skráðu innkaupsverði. Í einhverjum tilvikum hefur gætt þeirrar tilhneigingar af hálfu einkaumboðsaðila að takmarka eða torvelda þennan milliliðalausa innflutning Lyfjaverslunar ríkisins. Rík ástæða er til að taka af allan vafa í því efni að tryggja óheftan rétt Lyfjaverslunarinnar til innflutnings á sem bestum kjörum.

Ekki skal um það fjölyrt, hvort öllum hv. þm. stjórnarflokkanna er að skapi að fallið skuli frá, þeirri stefnu um ríkisrekstur á lyfjainnflutningi og lyfjaheildsölu sem mörkuð var með frv. um Lyfjastofnun ríkisins árið 1973. Margt mátti gott um það frv. segja, og staðreynd er að reynsla Norðmanna af slíkum ríkisrekstri virðist vera góð, en þeir hafa einir nágrannaþjóða okkar áskilið ríkisfyrirtæki einkarétt á inn- og útflutningi og heildsölu lyfja, þ. e. Norsk Medicinal Depot. Hins er að gæta, að ýmsir þeir agnúar, sem frv. um Lyfjastofnun ríkisins var ætlað að bæta úr og snertu m. a. birgðahald, verðlaginu, ábyrgð og eftirlit, eru nú ekki lengur fyrir hendi í þeim mæli sem þá var. Eru því engan veginn til staðar nú ýmsar þær forsendur sem byggt var á í því frv. Hvort til staðar er nú í þinginu sá pólitíski meiri hl., sem á skorti árið 1973, skal ósagt látið. Heldur þykir mér það þó ósennilegt.

Ég ætla þessu næst að gera grein fyrir helstu breytingum sem í frv. þessu felast frá gildandi lögum:

Ég nefni þá í fyrsta lagi umdæmisskiptinguna sem áður er vikið að og er algert nýmæli. Í öðru lagi eru ákvæðin um lyfjadreifingu á sjúkrahúsum nýmæli í lögunum. Í þriðja lagi eru það nýmæli, að lyfjasala færist alfarið úr höndum lækna og skipan á sölu dýralyfja er breytt. Í fjórða lagi má nefna heimild þá sem Háskóla Íslands er veitt til að starfrækja lyfjabúð og kaflann um undirstofnanir lyfjabúða, þ. e. lyfjaútibú, og lyfjaforða, sem telja má til nýmæla þótt heimild til stofnunar útibús væri raunar til í eldri lögunum. Í fimmta lagi má nefna heimild lyfsölusjóðs til að kaupa og reka lyfjaverslanir samkv. samkomulagi við starfandi lyfsala. Loks vil ég svo í sjötta lagi nefna ákvæðin um Lyfjaverslun ríkisins. Það er nýmæli að sú stofnun heyri undir heilbr.- og trmrn., en ekki fjmrn. eins og verið hefur. Einnig nefni ég ákvæðin um stjórnun stofnunarinnar og loks ákvæði það um óheftan rétt hennar til innflutnings allra erlendra sérlyfja á kostnaðarverði, sem ég áður vék að. Auk þessa eru fjölmörg ákvæði laganna skýrari og ítarlegri en var í gömlu lyfjalögunum.

Svo vikið sé að einstökum köflum frv. er í I. kafla fjallað um yfirstjórn lyfjadreifingarinnar. Er gert ráð fyrir að hún verði áfram hjá heilbr.- og trmrn. eins og verið hefur og sjálfsagt er, en að deildarstjóri í lyfjamáladeild rn. fái starfsheitið lyfjamálastjóri, sem þykir skýra betur verksvið hans.

Í II. kafla er fjallað um stofnun lyfjabúða og lyfsöluleyfi. Þar er kveðið á um héraðaskipan og lyfsöluumdæmi. Hef ég áður gert nokkra grein fyrir þeim þætti. Með þessari skipan verður staðarval lyfjabúða lögbundið að mestu, nema í Reykjavíkurhéraði þar sem hafa skal hliðsjón af ákvörðun borgarstjórnar um staðarval heilsugæslustöðva. Auk þess er gert ráð fyrir að lyfjadreifing á Seltjarnarnesi verði samræmd skipulagi heilbrigðisþjónustunnar í Reykjavík.

Við ákvörðun staðsetningar lyfjabúðanna er við það miðað að íbúar á því svæði, sem þær þjóna, séu helst ekki undir 3 þús. talsins. Er talið vonlítið að viðunandi rekstrargrundvöllur geti ella verið fyrir hendi. Fjöldi lyfjabúða utan Reykjavíkur er samkv. frv. 25, eða jafnmargar og nú er. Við bætist ný lyfjabúð í Laugarási, en sjálfstæð lyfjabúð fellur hins vegar niður á Seyðisfirði. Fjöldi lyfjabúða í Reykjavík er ekki fastákveðinn, eins og áður segir, en þær eru nú 13 talsins.

Gert er ráð fyrir að lyfjaútibú verði 20 talsins og þjóni svæðum þar sem íbúafjöldi er um eða yfir 1000 manns. Rétt er að undirstrika það rækilega, að þótt lyfjaútibúin séu ekki sjálfstæðar rekstrareiningar, heldur lúti þau faglegri stjórn frá þeirri lyfjabúð sem þau tilheyra, munu lyfjaútibúin geta í öllum meginatriðum veitt sömu þjónustu og lyfjabúðirnar sjálfar. Þar verður skylt að hafa til sölu öll algeng lausasölulyf auk lyfjagagna, hjúkrunar- og sjúkragagna. Þar verður auk þess heimilt að afgreiða öll lyfseðilsskyld lyf.

Loks er í þessu sambandi rétt að geta svonefnds lyfjaforða, sem gert er ráð fyrir að staðsetja í strjálbýli þar sem langt eða erfitt er að komast til næstu lyfjaverslunar, sbr. 32. gr.

Aðlögunartími þessa landsskipulags er í frv. ákveðinn 3. ár.

Í II. kafla frv. er auk þessa ákvæði um veitingu lyfsöluleyfa og niðurfellingu þeirra. Ekki eru í þessu efni gerðar neinar veigamiklar breytingar frá eldri lyfsölulögum. Þó er það nýmæli að lyfsölustjóri skuli taka sæti í þeirri nefnd, sem fjallar um hæfni umsækjanda um lyfsöluleyfi, til viðbótar þeim tveim fulltrúum sem skipa þá nefnd samkv. gildandi lögum og eru tilnefndir af félögum lyfjafræðinga og apótekara. Þykir þessi breyting gefa nefndinni aukið vægi.

Í 3. gr. er ákvæði sem veitir Háskóla Íslands heimild til að kaupa og reka eina af starfandi lyfjabúðum landsins. Mikil áhersla hefur verið lögð á nauðsyn þessa af forráðamönnum Háskólans, sem telja sig með þessu móti geta tryggt skólanum nauðsynlega aðstöðu fyrir rannsóknastarfsemi og kennslu. Er vissulega vel ef svo tekst til því að enn í dag þurfa lyfjafræðingar að fara úr landi til að ljúka námi sínu. Er vonandi að hin nýja tilhögun skapi aðstöðu til að breyting gæti hér orðið á og ánægjulegt ef afrakstur af starfrækslu slíkrar lyfjabúðar gæti stuðlað að eflingu nauðsynlegrar rannsóknastarfsemi Háskóla Íslands á sviði lyfjamála.

Í aths. Apótekarafélags Íslands er á það bent að félagið telji óheppilegt að rekstrarform lyfjabúða séu mörg og ólík. Á sú aths. ekki síður við um samvinnurekstur á lyfjabúðum. Það kann að vera rétt að m. a. vegna mismunandi skattlagningar hinna ólíku rekstrarforma sé þessi tilhögun ekki gallalaus. Staðreynd er það hins vegar að verslunarstarfsemi í landinu er á öllum sviðum rekin undir margvíslegu rekstrarformi. Sama gildir yfir höfuð um alla atvinnustarfsemi landsmanna. Virðist mér sú tilhögun hafa reynst vel, þegar á heildina er lítið, og engra sérstakra sambúðarerfiðleika hefur gætt með hinum margvíslegu rekstrarformum sem heimiluð eru í löggjöf þessa lands. Fæ ég ekki séð að verslunarrekstur lyfjabúða hafi slíka sérstöðu að þar þurfi að gilda önnur lögmál.

Í 3. gr. er ákvæði sem ætlað er að tryggja að rekstur lyfjabúða geti haldið áfram með eðlilegum hætti þótt enginn hæfur umsækjandi fáist um hlutaðeigandi lyfsöluleyfi. Skal lyfsölusjóður þá kaupa og annast um rekstur lyfjabúðarinnar. Ákvæði um lyfsölusjóð er í X. kafla lyfjalaganna nr. 49 frá 1978, en helsti tekjustofn hans er 1% gjald af cif-verði innfluttra lyfja og lyfjaefna svo og árgjald af öllum starfandi lyfjabúðum. Er áætlað að þær tekjur nemi um 20 millj. kr. á þessu ári.

Loks er í 3. gr. ákvæði sem gæti reynst áhugavert nýmæli, en það heimilar lyfsölusjóði kaup á lyfjabúðum, sem eru í fullri starfrækslu, ef hlutaðeigandi lyfsali óskar þess sjálfur. Á lyfsalinn þá rétt á að starfa við lyfjabúðina áfram sem forstöðumaður hennar út starfstíma sinn. Eins og málum er nú háttað verður sá lyfjafræðingur, sem vill taka að sér faglega forstöðu fyrir lyfjabúð, jafnframt að taka að sér rekstrarlega ábyrgð á henni. Það er hins vegar alveg ljóst að með menntun og hæfni á tiltölulega þröngu fagsviði, eins og lyfjafræðin er, þurfi alls ekki að fara saman vilji til að taka að sér rekstrarlega stjórnun fyrirtækis eða kunnátta til slíkra verka. Fjármálavafstur með tilheyrandi ábyrgð og áhættu, bókhald og reikningsskil, skýrslugerðir og önnur slík störf viðskiptalegs eðlis geta vafalaust oft orðið lyfjafræðingi beinlínis fjötur um fót, tekið upp drjúgan hluta af tíma hans og jafnvel yfirskyggt hinn faglega þátt í rekstrinum sem hann er þó sérstaklega menntaður til að gegna. Sá lyfsali, sem nú vill losna frá hinum rekstrarlega þætti í starfrækslu lyfjabúðar, verður að segja lyfsöluleyfi sínu lausu og glata þar með öllu tilkalli til faglegrar forstöðu eða yfirleitt allra faglegra starfa hjá lyfjabúðinni. Hefur því þótt rétt að opna lyfsölum með þessu ákvæði nýja leið til að losna frá rekstraramstrinu án þess að þjóðfélagið missi um leið af þeirri faglegu þjónustu sem sérmenntun þeirra gerir fært að veita. Lyfsölusjóður tekur þá við rekstrinum og síðan er það ákvörðun ráðh. hvort leyfið skuli auglýsa á nýjan leik með venjulegum hætti eða verslunin vera áfram rekin af lyfsölusjóði þegar starfstíma forstöðumannsins lýkur.

Um þetta ákvæði varð ágreiningur í nefndinni. Þeir fimm fulltrúar, sem skipaðir eru af ráðh. án tilnefningar, styðja það allir, en fulltrúar tilnefningaraðila skiluðu séráliti sem fylgir með aths. frv. Vel má vera að einhverjum þyki þetta ákvæði ríkisrekstrarlegt og auðvitað gæti það leitt til þess með tímanum að rekstur smásöluverslunar með lyf færðist að einhverju leyti á hendur hins opinbera. Væri vissulega áhugavert að láta á það reyna hvernig slíkt fyrirkomulag gæfist sérstaklega á þessu sviði þar sem hagsmunir og skyldur ríkisins eru með svo sérstökum hætti sem áður er lýst. Gæfi þessi tilhögun hins vegar ekki góða raun er alltaf opin leið til að fela reksturinn aftur einkaaðilum með venjulegum hætti.

Að síðustu skal þess getið um efni II. kafla frv., að með 4. gr. er lagt í vald ráðh. að ákveða hvort þau samvinnufélög, sem nú reka lyfjabúðir, skuli áfram halda þeim rétti eftir að liðin eru þau 25 ár sem starfsleyfi þeirra samkv. lyfsölulögunum frá 1963 var takmarkað við. Tvær lyfjabúðir eru nú reknar af samvinnufélögum, þ. e. á Akureyri og Selfossi. Eins og fram kemur í aths. með frv. gera þrír nm. þá till. að þessi starfsleyfi verði ekki framlengd eftir að gildistíma þeirra lýkur árið 1988. Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni, að ekkert sé við það að athuga að verslun með lyf sé að einhverju leyti rekin hér á landi samkv. samvinnufyrirkomulagi, eins og gildir um aðra verslunar- og atvinnustarfsemi í landinu. Reynslan af rekstri þeirra tveggja lyfjabúða, sem nú eru í eigu samvinnuhreyfingarinnar, benda alls ekki til þess að hagsmunum neytenda sé á nokkurn hátt verr borgið með þeirri tilhögun.

III. kafli frv. fjallar um rekstur lyfjabúða og er hann að miklu leyti í samræmi við núgildandi skipan. Ég vek þó athygli á 8. gr., þar sem ákveðnar skorður eru reistar við því, hvaða varning lyfjabúðirnar megi hafa á boðstólum. Hefur ýmsum þótt að nokkuð mikill krambúðarsvipur væri stundum á lyfjabúðunum og það ekki beinlínis heilsugæslulegt að þær versluðu m. a. með byssur og skotfæri, svo sem dæmi munu vera til um. Í frv. er gert ráð fyrir að takmarka vöruval lyfjabúðanna við lyf, lyfjagögn og þess háttar vörur, auk þess sem þar sé heimilt að selja snyrti- og barnavörur, svo sem tíðkast hefur um langan aldur.

Ég vek athygli á ákvæðum 12. gr. sem heimila lyfsala að fá keyptan búnað og áhöld þeirrar lyfjabúðar sem hann tekur við rekstri á, ef þau teljast nauðsynleg við rekstur hennar. Sömu ákvæði gilda áfram um skyldu hins nýja leyfishafa til að kaupa húseign og vörubirgðir lyfjabúðar.

IV. kafli frv. fjallar um starfsmenn lyfjabúða. Eru þar ítarlegri ákvæði en í gildandi lögum um þagnarskyldu þeirra og missi starfsréttinda, auk nýmæla er varða starfsmannafjölda í lyfjabúðum og menntun aðstoðarfólks við lyfjagerð og lyfjaafgreiðslu. Þarfnast þessi ákvæði ekki nánari skýringa.

Í V. kafla er fjallað um afgreiðslu lyfja. Eru þar að mestu farnar troðnar slóðir, nema í 25. og 26. gr. þar sem skýr og ítarleg ákvæði eru sett um afgreiðslurétt á lyfjum og eiturefnum og eftirlit með allri meðferð slíkra efna. Er ábyrgð og eftirlitsskylda lyfjafræðinga og aðstoðarlyfjafræðinga gerð tvímælalaus. Er vissulega þörf á að í þessu efni ríki engin óvissa.

Í VI. kafla er fjallað um undirstofnanir lyfjabúða. Hef ég þegar gert nokkra grein fyrir þeim. Með þessum ákvæðum er leitast við að þétta þjónustunet lyfjaverslunarinnar og tryggja, eftir því sem föng eru á, að allir landsmenn geti átt tiltölulega greiðan aðgang að þeim þætti heilsugæslunnar. Ég vek athygli á 34. gr., sem mótar ákveðna stefnu í þá átt að nær öll lyfjasmásala í landinu færist til lyfjabúða og undirstofnana þeirra. Heimildir lækna til þess að versla með lyf verði hins vegar mjög þrengdar og takmarkaðar alfarið við aðsetur á þeim stöðum þar sem engar lyfjaverslanir eru. Til grundvallar liggur það sjónarmið, að forðast beri, þar sem þess er kostur, að saman fari ráðgjöf og fyrirmæli um val og notkun lyfja og hagsmunir af sölu þeirra. Önnur ákvæði þessa kafla þarfnast ekki sérstakra skýringa.

Um innflutning og heildsölu lyfja er fjallað í VII. kafla. Hef ég þegar gert grein fyrir þeirri skipan í öllum aðalatriðum. Að meginefni til er gert ráð fyrir óbreyttri skipan á innflutningi og heildsölu lyfja frá því sem nú er. Þó koma nú inn ýmis ný ákvæði, svo sem um faglega stjórnun heildsölufyrirtækja, um skyldu einkaumboðsmanna til birgðahalds og um stöðu Lyfjaverslunar ríkisins.

Í 40. gr. er þó ákvæði sem miklum ágreiningi hefur valdið og nauðsynlegt er að gera nánari grein fyrir. Þar er mælt fyrir um að starfandi læknar, þar með taldir dýralæknar og tannlæknar, lyfsalar og aðrir starfsmenn lyfjabúða og sjúkrahúsapóteka megi ekki gegna starfi umboðsmanna fyrir erlenda sérlyfjaframleiðendur. Sams konar ákvæði var í gömlu lyfsölulögunum frá 1963. Hér liggur til grundvallar sama hugsun og ég skýrði frá varðandi lyfjasölu lækna, að forðast beri og girða eftir föngum fyrir að saman fari ábati eða hagsmunir af sölu einhverra ákveðinna lyfja annars vegar og fagleg ráðgjöf um lyfjanotkun eða lyfjaval hins vegar, að einstaklingurinn verði að geta treyst því fullkomlega, er hann í þessu efni felur trúnað sinn lækni eða lyfjafræðingi, að ráðgjöf eða fyrirmæli um val eða notkun lyfja sé óumdeilanlega óháð öllum hagsmunum eða fjárhagstengslum. Um þetta atriði voru nm. allir sammála. Í séráliti Apótekarafélags Íslands segir orðrétt:

„Apótekarafélag Íslands álitur sjálfsagt að lyfsölum og starfsmönnum lyfjabúða sé óheimilt að vera persónulegir umboðsmenn erlendra sérlyfjaframleiðenda.“

Í 40. gr. frv. er hins vegar gengið nokkru lengra, reyndar á alveg sömu braut að mínu mati, með því að leggja bann við því að til umræddra hagsmunatengsla sé stofnað með þeim hætti að sömu aðilar, þ. e. læknar, lyfsalar og starfsmenn lyfjabúða, séu eignaraðilar að fyrirtækjum sem gegna umboðsmennsku fyrir erlenda sérlyfjaframleiðendur og flytja inn og dreifa lyfjum í heildsölu. Það er skoðun mín, að á þessu tvennu sé aðeins stigsmunur, en ekki eðlis. Fallist menn á annað borð á það grundvallaratriði að þessir aðilar skuli ekki vera persónulega umboðsmenn erlendra sérlyfjaframleiðenda, þá leiðir af sjálfu sér að girða verður á sama hátt fyrir að þeir geti verið einir sér eða í félagi við aðra eigendur fyrirtækja sem stunda slíka umboðsmennsku. Á því er ekki eðlismunur hvort hugsanlegur ábati rennur beint eða milliliðalaust óskiptur í vasa hlutaðeigandi fagmanns, en með viðkomu í einkafyrirtæki, eða skiptist milli fleiri fyrir milligöngu sameignarfyrirtækis.

Það er alveg ljóst að fram hjá banni við persónulegri umboðsmennsku má skjóta sér fyrirhafnarlaust og fara í kringum það að vild ef það bann tekur ekki jafnframt til eignaraðildar að umboðsfyrirtækjum. Það er þetta viðbótarákvæði 40. gr. sem ágreiningi hefur valdið, og er ástæðan sú að það heggur nærri hagsmunum eins ákveðins fyrirtækis sem er í eigu lyfsala og fæst jöfnum höndum við lyfjaframleiðslu og innflutning erlendra lyfja. Fyrirtæki þetta mun nú framleiða um 220 tegundir eigin lyfja, en fer jafnframt með umboð fyrir um 20 erlenda sérlyfjaframleiðendur. Er ljóst að verði ákvæði 40. gr. óbreytt að lögum mun þetta fyrirtæki í framtíðinni þurfa að helga sig innlendu framleiðslunni einni, en láta af umboðsmennsku fyrir erlenda framleiðendur. Þar sem fyrirtæki þetta hefur á ýmsan hátt nokkra sérstöðu, sem er ítarlega skýrð í aths. Apótekarafélags Íslands, hefur meiri hl. nefndarinnar lagt til að ráðh. sé með sérstöku ákvæði til bráðabirgða heimilað að víkja frá ákvæðum 40. gr. með ákveðnum skilyrðum, sem eru reyndar beinlínis sniðin að hinu tiltekna fyrirtæki. Þessi undanþáguheimild er óskilyrt og ótímabundin, en öðrum fyrirtækjum er með bráðabirgðaákvæði þessu settur fjögurra ára aðlögunartími án frekari undanþáguheimilda.

Þrír nm. hafa skilað séráliti varðandi bráðabirgðaákvæðið, þar sem skipan þess er breytt á þann veg að ráðh. geti framlengt aðlögunarfrestinn við tilteknar aðstæður sem eiga við þetta fyrirtæki, en ekki fallið almennt frá skilyrðum 40. gr., enda sé þar um grundvallaratriði að ræða. Læt ég þeirri hv. n., sem fær frv. til umfjöllunar, eftir að velja á milli þessara kosta. Ég hlýt þó að vara við því almennt að mjög langt sé gengið í þá átt að sníða ákvæði í löggjöf að hagsmunum einstakra fyrirtækja.

Í VIII. kafla frv. er fjallað um Lyfjaverslun ríkisins. Hef ég áður vikið að ýmsum ákvæðum þess kafla. Hin stefnumótandi ákvæði í 43. gr. um starfsemi og skyldur Lyfjaverslunarinnar eru efnislega shlj. 9. gr. laga um verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf, nr. 63 frá 1968.

Sú skylda hvílir á Lyfjaverslun ríkisins að útvega sjúkrahúsum og dvalarheimilum aldraðra, sem rekin eru af ríki og sveitarfélögum, hvers konar lyf, lyfjagögn og sjúkragögn. Þá er Lyfjaverslun ríkisins skylt að útvega sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum bóluefni til ónæmisaðgerða, sbr. 16. gr. laga nr. 36 frá 1950, um ónæmisaðgerðir.

Að því er varðar skýringu á hugtakinu „sjúkrahús“ samkv. frv. tel ég vafalaust að styðjast þar við 24. gr. laga nr. 57 frá 1978, um heilbrigðisþjónustu, þar sem ákveðin er flokkun sjúkrahúsa í svæðissjúkrahús, deildasjúkrahús, almenn sjúkrahús, hjúkrunar- og endurhæfingarheimili, sjúkraskýli, vinnu- og dvalarheimili og gistiheimili. Tel ég tvímælalaust að réttindi og skyldur lyfjaverslunar taki til allra þessara flokka sjúkrahúsa. Er rétt að geta þess sérstaklega, þar sem sjúkrahúshugtakið virðist vera mun þrengra í 42. gr. almannatryggingalaga þar sem greint er á milli sjúkrahúsa annars vegar og hæla og stofnana hins vegar.

Lyfjaverslunin annast einnig framleiðslu lyfja og birgðahald fyrir Almannavarnir ríkisins. Starfsemi fyrirtækisins verður því samkv. frv. áfram tvíþætt, þ. e. lyfjainnflutningur eða lyfjaheildverslun, sbr. 39. gr. frv. um óheftan rétt Lyfjaverslunarinnar til innflutnings eða kaupa,af lager umboðsmanna á kostnaðarverði, sem ég hef áður rakið, og lyfjaframleiðsla sem nú fer fram í þremur deildum, sterildeild sem framleiðir dreypi- og stungulyf, töfludeild sem blandar efnið til töflugerðar og mótar það og laboratorium sem framleiðir margar gerðir lyfja, svo sem smyrsl, duftblöndur, stikkpillur, saftir o. fl.

Má ætla að Lyfjaverslun ríkisins verði mjög vel í stakk búin til að rækja þetta mikilsverða hlutverk sitt eftir þær gagngerðu endurbætur sem staðið hafa yfir á allri aðstöðu hennar að undanförnu.

Hlutur Lyfjaverslunarinnar í lyfjakaupum sjúkrahúsa hefur vaxið jafnt og þétt á síðustu árum og er það vel. Þanrúg var hlutdeild hennar í heildarlyfjakaupum ríkisspítalanna 40.96% árið 1973, 43.57% árið 1974, 53,7% árið 1975, 61.24% árið 1976 og fór upp í 82.24% árið 1977.

Ég hef áður gert grein fyrir þeim breytingum á yfirstjórn stofnunarinnar, sem í frv. eru fólgnar, og skal ekki endurtaka það hér.

Er þá komið að IX. kafla, sem fjallar um lyfjaþjónustu á sjúkrahúsum. Þessi kafli er að mestum hluta nýmæli í löggjöf, þó að heimild til stofnunar sérstakra sjúkrahúsapóteka í deildaskiptum sjúkrahúsum hafi raunar verið í lyfsölulögum frá 1963. Í meginatriðum er gert ráð fyrir vali á milli tveggja aðferða við dreifingu lyfja á sjúkrahús. Annars vegar er sú tilhögun að stofna á deildaskiptum sjúkrahúsum sérstök sjúkrahúsapótek samkv. 49. gr., en slíkar stofnanir eru nú í raun starfræktar á stærstu sjúkrahúsunum þótt sums staðar sé það við þröngan kost. Hins vegar er sú skipan að Lyfjaverslun ríkisins sjái um afgreiðslu beint til hinna einstöku deilda sjúkrahússins á öllum algengum lyfjum, en ýmis önnur lyf, sem nauðsynlegt er að hafa við höndina af öryggisástæðum, séu þá afgreidd til sjúkrahúsapóteks sem þá mundi nánast gegna hlutverki aðallyfjaskáps. Eru ákvæði um þessa skipun í 54. gr. Einhverjar viðræður munu hafa farið fram um slíka skipan milli stjórnarnefndar ríkisspítalanna og Lyfjaverslunar ríkisins með það fyrir augum að draga með þeim hætti úr kostnaði við birgðahald, skráningar og reikningsskil, innpökkun o. fl. Gerir frv. ráð fyrir að val milli þessara leiða sé lagt í hendur stjórnar sjúkrahússins að höfðu samráði við viðkomandi yfirlyfjafræðing. Samfara báðum þessum leiðum er svo gert ráð fyrir virku eftirliti lyfjafræðinga með allri meðferð og notkun lyfja innan sjúkrahússins. Er slíkt ákaflega mikilsvert, hvort heldur litið er á málið frá faglegu eða hagrænu sjónarmiði. Eru því í þessum kafla ákveðin fyrirmæli um störf lyfjafræðinga á sjúkrahúsum almennt svo og sérákvæði er varða deildaskiptingu sjúkrahússins.

Mikilvæg heimildarákvæði eru í kaflanum sem varða afhendingu sérstakra lyfja, sem aðeins eru skráð til notkunar á sjúkrahúsum, til sjúklinga sem þangað leita til lækninga, en þurfa ekki að leggjast inn. Heimildin nær og til þeirra almennu lyfja sem sjúklingar þurfa að hafa með sér í leyfum um helgar eða hátíðar. Eru þetta öryggis- og hagkvæmnisatriði fyrir viðkomandi sjúklinga auk þess að skipta máli fjárhagslega fyrir sjúkrahúsin, sem nú hafa enga heimild til gjaldtöku fyrir þau lyf sem afhent eru sjúklingum sem dveljast utan sjúkrahússins. Skiptir þetta t. d. miklu máli í sambandi við þá aukningu sem orðin er á göngudeildarþjónustu sjúkrahúsanna.

Þá vek ég athygli á lyfjanefndum sem gert er ráð fyrir að starfi ólaunaðar á sérhverju sjúkrahúsi, marki stefnuna varðandi lyfjagjöf á sjúkrahúsinu og ákveði sérstaka lyfjalista fyrir það.

Loks vil ég geta stefnumarkandi ákvæðis í 52. gr., sem mælir fyrir um að þegar val er á milli fleiri jafngildra lyfja skuli fremur nota það sem ódýrara er og innlend lyf fremur en erlend.

X. kafli frv. fjallar um dreifingu dýralyfja. Þar er mælt fyrir um óbreyttar heimildir til handa Tilraunastöð Háskólans í meinafræði á Keldum til innflutnings, framleiðslu og dreifingar á dýralyfjum. Hins vegar er lagt til að brott falli heimildir til almennra verslana til sölu á dýralyfjum þannig að hún einskorðist við lyfjaverslanir og dýralækna. Jafnframt er sú kvöð lögð á lyfjabúðirnar að hafa jafnan á boðstólum öll þau dýralyf sem almennt eru notuð í umdæmi þeirra. Standa engin gild rök til þess að dýralyf séu fremur en mannalyf undanþegin því faglega eftirliti sem lyfjaverslunum og læknum er einum fært að annast svo að öruggt sé.

Ég tel ekki þörf á að skýra umfram það sem fram hefur komið í aths. með frv. ákvæði XI. kafla, um eftirlit, málarekstur og refsingar, né niðurlagsákvæði XII. kafla.

Ég vænti þess, að hv. þm. geti orðið mér sammála um að hér sé lögð til sú skipan ð tengslum lyfjadreifingarinnar við heilbrigðisþjónustu landsins og félagslega stjórnun hennar sem best samrýmist ríkjandi aðstæðum í þjóðfélagi okkar.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. heilbr.- og trn. og 2. umr. Vegna þess, hversu langt er liðið á þann tíma sem þingið mun sitja, geri ég ekki ráð fyrir að það hljóti afgreiðslu á þessu þingi.