08.05.1979
Efri deild: 91. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4477 í B-deild Alþingistíðinda. (3565)

147. mál, verðgildi íslensks gjaldmiðils

Frsm. minni hl. (Jón G. Sólnes):

Herra forseti. Eins og þegar hefur komið fram var fjh.- og viðskn. þessarar hv. d. ekki sammála um afgreiðslu frv. og höfum við, sem skipum minni hl. í n., kosið að skila sérnál. sem er á þskj. 626.

Eins og kom fram við 1. umr. um frv. þetta í þessari hv. d. er Sjálfstfl. út af fyrir sig fylgjandi því, að nákvæm athugun fari fram á hvort ekki væri æskilegt að auka verðgildi krónunnar. Nægir í því sambandi að benda á tillöguflutning þar að lútandi sem þm. Sjálfstfl. hafa ýmis verið flm. að eða stutt. En í sambandi við þessi mál hefur það ávallt verið svo, að lögð hefur verið mjög rík áhersla á það af hálfu Sjálfstfl., að til þess að hagstæður árangur náist af slíkri verðgildisbreytingu gjaldmiðilsins þurfi að vera fyrir hendi stöðugleiki í efnahagsmálum þjóðarinnar almennt eða þá að í sambandi við slíka breytingu yrðu gerðar ráðstafanir á meðferð efnahagsmála sem tryggðu að jákvæður árangur af gjaldmiðilsbreytingunni næðist.

Öllum er ljóst að sjaldan eða aldrei hefur ríkt meiri óvissa eða óstöðugleiki í efnahagsmálum þjóðarinnar en einmitt nú. Er því alveg óhætt að staðhæfa að eins og efnahagsmálum þjóðarinnar er nú háttað eru allar aðstæður mjög óhagstæðar, að meira sé ekki sagt, til þess að stiga jafnörlagaríkt skref og frv. það, er hér ræðir um, felur í sér. Við teljum því mjög hæpið, sjálfstæðismenn, að ákvörðun nú um jafnþýðingarmikið málefni og breytt verðgildi íslensks gjaldmiðils sé tímabær, og treystum okkur því ekki að mæla með samþykkt frv. að svo komnu máli.

Að vissu leyti höfum við orðið varir við að meiri hl. hv. fjh.- og viðskn. er okkur sammála um að nú séu örlaga. ríkir tímar, því að eins og kom fram í ræðu frsm., hv. 6. þm. Suðurl., fyrir áliti meiri hl. hefur orðið samkomulag um að breyta gildistöku þessa frv. frá því, sem upphaflega var ákveðið, um eitt ár, þannig að það á ekki að taka gildi fyrr en 1. jan. 1981, og með tilliti til þeirrar ráðstöfunar munum við sjálfstæðismenn ekki ganga gegn samþykkt frv., en munum sitja hjá við afgreiðslu þess.

Herra forseti. Þegar þetta frv. var hér fyrst til umr. 29. jan. s. l. má segja að hveitibrauðsdagar núverandi stjórnarsamstarfs hafi naumast verið að fullu liðnir. En þó held ég að flestir muni vera sammála um það, að sú bjartsýni, sem þá virtist ríkja í herbúðum stuðningsmanna núv. hæstv. ríkisstj. um að stjórnarflokkunum mundi takast að ráða við að gera þær miklu breytingar í efnahagsmálum þjóðarinnar sem mundu leiða af sér að þeim tækist að hefta vöxt verðbólgunnar og jafnvel koma svo fyrir málum að verðbólgan mundi fara verulega rýrnandi, sé naumast lengur fyrir hendi.

Allir megum við þm. þessarar virðulegu deildar vera minnugir þess, hve mikla áherslu stuðningsmenn stjórnarinnar lögðu á, um það leyti sem frv. var til 1. umr., að stefna núverandi stjórnvalda væri að ætla sér 16 mánuði til að koma á hinni nýju hugarfarsbreytingu, stefnubreytingu í efnahagsmálum og peningakerfi þjóðarinnar þannig að fullum jöfnuði, eins og það var orðað, og fullum árangri mundi vera hægt að ná við árslok yfirstandandi árs. Ég þarf ekki að tíunda það hér, hversu gersamlega þau mál öll eru nú komin úr reipunum hjá núverandi stjórnarflokkum. En einhvern veginn finnst mér að ástandið, eins og það er á vinnumarkaðinum, í efnahagslífinu, á öllum sviðum þjóðlífsins, veki hjá manni endurminninguna um hvernig var ástatt með þessari þjóð seint á árinu 1958 þegar þáv. forsrh., Hermann Jónasson, sem var forsrh. vinstri stjórnar, lýsti yfir að allt stefndi í ólæknandi óðaverðbólgu, en engin samstaða væri fyrir hendi í ríkisstj. hans um nauðsynlegar varnaraðgerðir til að takast á við þann vanda sem þá var við að etja. Þáv. forsrh., Hermann Jónasson, valdi því þann kostinn sem verður að telja mjög eðlilegan í lýðræðislandi. Hann sagði af sér. Stjórnin fór frá. Með þá staðreynd fyrir augum, að ástandið í dag mun síst betra, að því er snertir peninga- og efnahagsmál hjá þjóðinni og samstöðu þeirra flokka, sem standa að núv. hæstv. ríkisstj., um viðnámsaðgerðir í þessum málum, held ég að ekki sé of mikið sagt að útlitið er áreiðanlega ekki betra en það var þegar umræddur forsrh., Hermann Jónasson, viðhafði þau ummæli sem ég áðan lýsti.

Manni virðist ástandið nú vera þannig að aðeins eitt sameini núverandi stjórnarflokka, en það er að hanga í stjórnarstólunum hvað sem það kostar. Það er eina sameiningartáknið sem hægt er að hengja á núv. stjórnarflokka. En hver dagur sem núv. ríkisstj. situr að völdum kostar stórkostlega blóðtöku fyrir allt efnahagslíf þjóðarinnar og mun sýna sig að það bitnar á þjóðinni allri í sívaxandi öryggisleysi á vinnumarkaðinum, og hver dagur, sem lengir setu núverandi stjórnvalda, mun hafa í för með sér þegar frá líður stórversnandi lífskjör fyrir allan almenning í landinu. Því er alveg öruggt að ekki er mest aðkallandi núna að samþykkja lög frá Alþ. um myntbreytingu. Það er mest aðkallandi, og almenningur ætlast í sívaxandi mæli til þess af hv. Alþ., að losa þjóðina sem allra fyrst við þá óheillastjórn sem nú ræður í landinu.