18.10.1978
Efri deild: 3. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í B-deild Alþingistíðinda. (36)

7. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar umr. Ég hef ekki hugsað mér að gera þennan fund að kosningafundi og halda hér kosningarræðu, eins og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson gerði hér áðan. Ég mun eftirláta honum þá ánægju. Ég mun ekki heldur hirða að fara að svara einstökum fullyrðingum hv. þm. Ég hygg að flestir taki ekki alvarlega köpuryrði hans í garð fyrrv. ríkisstj. og sérstaklega Sjálfstfl., og þó að við getum verið sammála um að fyrrv. ríkisstj. hafi ekki tekist að gera allt svo vel sem hún kaus, þá hljótum við að vera sammála um það, að fyrrv, ríkisstj. er ein merkasta ríkisstj. sem setið hefur síðan lýðveldið var stofnað, ef meta á það sem hefur gerst undir forustu fyrrv. ríkisstj. Það væri langur listi fyrir mig að fara að rifja það hér upp, en ég læt nægja að minna á sigurinn í landhelgismálinu.

Ég skal svo aðeins víkja að því sem hæstv. sjútvrh. var að ræða um, þ.e.a.s. efni 3. gr. frv.

Ég vil aðeins leggja áherslu á það, að ég er sammála um mikilvægi þeirra verkefna sem gert er ráð fyrir að vinna að með ráðstöfun fjár úr gengismunarsjóði. Mér fannst hæstv. ráðh. leggja sérstaka áherslu á þann þátt sem veit að hagræðingu í fiskiðnaðinum, og vil ég ekki draga úr mikilvægi þess. En ég vil aðeins láta það koma hér fram, að það fer ekki alfarið eftir landshlutum hvar þarf að vinna að hagræðingu í fiskiðnaðinum og það verður að gera hvar sem er á landinu þar sem þörf er á. Enn fremur er í framkvæmdinni ákaflega þýðingarmikið að því fé, sem varið er í þessu skyni, sé raunverulega varið til þess að ýta undir tæknilegar framfarir í fiskiðnaðinum, en ekki til þess að ráða fram úr greiðsluvandræðum einstakra fyrirtækja.

Þá er sá þáttur sem víkur að því að auðvelda útvegsmönnum að hætta rekstri úreltra fiskiskipa. Gert er ráð fyrir að verja fé í þessu skyni og stofna sérstakan sjóð í þessu skyni, hafi ég skilið rétt. En ég vil spyrja hvort í þessu sambandi hafi ekki eitthvert mið verið tekið af því sem gert var á síðasta Alþ. þegar samþ. voru ný lög um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum, en II. kafli þeirra laga Aldurslagasjóð fiskiskipa. Þar er gert ráð fyrir að stofnaður sé sjóður í þeim tilgangi aðallega að greiða fyrir því með bótagreiðslum, að gömul og óhentug fiskiskip verði tekin úr notkun og eyðilögð. Ég spyr: Telur hæstv. sjútvrh. ekki nóg að gert í þessum efnum með því sem gert var á síðasta Alþ.? Og getur hæstv. ráðh. gefið eitthvað nánari upplýsingar um það, hvert sé sambandið á milli þeirra ráðstafana, sem nú eru fyrirhugaðar í þessu efni, og þess, sem ætlað var þegar lögin um Samábyrgð Íslands voru samþ. á síðasta þingi?