09.05.1979
Efri deild: 93. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4499 í B-deild Alþingistíðinda. (3607)

280. mál, námslán og námsstyrkir

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Mér kom dálítið á óvart að hæstv. ráðh. æskti þess að frv. yrði afgreitt á þessu þingi. Hins vegar er sjálfsagt að athuga þann möguleika, ég vil segja það sem formaður menntmn., ég tel það sjálfsagt.

Ég er sammála hæstv. ráðh. um að þetta mál er ekkert flókið. Það er annars vegar stefnumarkandi atriði, ákvæði um brúun umframfjárþarfar, og það er venjan með slík mál að þm. eru yfirleitt ekki tregir til að afgreiða mál í þá stefnu ef ríkisstj. á hverjum tíma eru tilbúnar með fjárhagslegu hliðina. Aftur eru hin atriðin, sýnist mér við fljótlegan yfirlestur, fremur tæknilegs eðlis. Þar við bætist að verið hefur um þau samstaða hjá hópi sem er tilnefndur af svo mikilli breidd sem í stjórn Lánasjóðsins er, þar sem eru fulltrúar fjmrn. til og með fulltrúum námsmanna. Eins og hæstv. ráðh. minntist á eru það viss meðmæli með því að tæknilegu atriðin séu aðgengileg fyrir Alþ. til tiltölulega skjótrar afgreiðslu.

Ég er ekki alveg viss um það, hef ekki lesið þetta frv. nægilega, hvort því fylgir áætlun hagsýslunnar um hvaða kostnað breytingar þessar hafi í för með sér fyrir ríkissjóð, en talað hefur verið um að slíkt fylgdi jafnan stjfrv. og er náttúrlega æskilegt. Stundum hefur áætlun komið á eftir og þá til n. Ef hún er ekki í þskj. þessu væri æskilegt að fá hana senda nefndinni.

Ég skal ekki fjölyrða um mál þetta, en langar þó að minnast á örfá atriði. Mér sýnist, eins og fram kom í máli hæstv. ráðh., að þarna séu tvö meginatriði: annars vegar 100% brúun umframfjárþarfar sem komi til framkvæmda á þremur árum, en skort hefur 15% á þá reikningslegu brúun, eins og menn vita, og svo hin breyttu endurgreiðsluákvæði, sem ráðh. gerði í örstuttu máli grein fyrir, en þau þýða örari vöxt á endurgreiðslum til sjóðsins en núgildandi lög gera ráð fyrir. Þessar breytingar held ég að séu mjög til bóta. Eins og ráðh. benti á er stefnt að því að endurgreiðsla þeirra, sem hafa mjög stutt nám að baki eða eru með mjög háar tekjur, aukist. Slíkt er nokkuð hægt að stilla innan ramma þeirra laga sem nú gilda, þar sem endurgreiðslur eru að nokkru leyti miðaðar við tekjur manna.

Þetta helst skiljanlega í hendur við afgreiðslu málsins í stjórn Lánasjóðsins og einnig við meðferð og mat löggjafans á hversu þunga bagga menn vilja binda ríkissjóði. Ég vil taka það fram fyrir mína parta, að ef ríkisstj. er tilbúinn að taka á sig baggann af fullri brúun hinnar metnu umframfjárþarfar vil ég ekki tefja fyrir því máli. Þetta er, eins og segir í gildandi lögum, atriði sem hefur verið stefnt að lengi og er auðvitað æskilegt að geta stigið það spor til fulls fyrr en síðar.

Þegar talað er um umframfjárþörf er einfaldlega átt við það sem vantar á eigin tekjur námsmanns til þess að hann geti framfleytt sér yfir námstímann. Nú er það að vísu svo, að lagaákvæðin segja ekki alveg allt um þetta í framkvæmd vegna þess að nokkuð er komið undir mati þeirra sem um þessi mál fjalla. En auðvitað segja þau mikið samt sem áður.

Ég vil láta koma fram að ég tel eðlilegt að nú, þegar 3 ár eru liðin síðan seinast voru sett lög um þetta, komi til álita ýmsar breytingar varðandi endurgreiðslurnar og svo ýmsar tæknilegar breytingar, því að með þeim breytingum, sem gerðar voru á þessari löggjöf síðast, var farið að verulegu leyti inn á nýjar brautir. Það eru dálítið flóknar lausnir, sem í þeim nýju lögum felast. Eðlilegt er því að þau þurfi fyrr en síðar nýrrar skoðunar. Yfirleitt má segja að málefni eins og námshjálp eða námslán, séu þannig mál í eðli sínu að nauðsynlegt sé að hafa þau nokkuð á hreyfingu og í endurskoðun, þó festa í greiðslum, þannig að menn viti jafnan að hverju þeir ganga, sé nauðsynleg.

Það er t. d. alveg greinilegt að síðasta lagabreyting hafði dregist allt of lengi, því þá var satt að segja komið í töluvert mikið óefni málefnum Lánasjóðs ísl. námsmanna. Það sést nokkuð greinilega að þá voru menn of seint á ferðinni. Þegar lögin um Lánasjóð ísl. námsmanna voru sett var það stefna löggjafans að sjóðurinn byggði sig að verulegu leyti upp og gæti það að verulegu leyti þegar tímar liðu fram. g held að menn hafi verið svo bjartsýnir að gera ráð fyrir að það yrði á 10–15 árum. Ég man það þó ekki nákvæmlega. En það var reiknað með því að hann byggði sig að verulegu leyti upp sjálfur. En þegar breytingin var gerð á árabilinu 1975–1976, þegar unnið var að þessu taldist mönnum svo til að endurgreiðslurnar skiluðu ekki nema u. þ. b. 10% af raunvirði þess sem lánað var út. Þarna var því komið í hið mesta óefni. Það var fleira í þessa veru þá, sem ég skal ekki tefja tíma með að rifja upp. En fjármál sjóðsins voru þá komin í mikið óefni, sem m. a. lýsti sér í því, að mjög erfitt var um vik að afgreiða lán og styrki úr sjóðnum á réttum tíma vegna sífelldrar vöntunar á fjármagni til hans. Ég held að þá hafi líka verið verulegur skortur á eðlilegu aðhaldi í sambandi við útlán og eftirlit með framvindu náms.

Ég vil svo aðeins rifja það upp, að meginbreytingarnar, sem þá voru gerðar, álit ég að hafi verið í fyrsta lagi í þá veru að tryggja fjárhagslega stöðu sjóðsins til frambúðar og þar með reglulega og eðlilega afgreiðslu mála úr sjóðnum. Það var tekin upp verðtrygging, hún var veigamesti þátturinn í breytingunum þá, og svo endurgreiðslufyrirkomulag sem hér hefur aðeins verið vikið að. Svo var þá aukið aðhald og eftirlit. Það var ekki þá, eins og mér skilst að hafi verið þegar lög voru fyrst sett um þetta, gert ráð fyrir að sjóðurinn stæði algerlega á eigin fótum þegar tímar liðu fram, ég held að það sé kannske óraunhæft að gera ráð fyrir því, en að hann að verulegu leyti gæti byggt sig upp sjálfur.

Annað meginatriðið, sem þá kom til framkvæmda sem breyting, var að starfsemi sjóðsins var þá færð nokkuð út og náði til fleiri skóla eða skóladeilda. Tekið var ákvæði inn í lögin um að ráðh. væri heimilt með reglugerð að ákveða að nemendur tiltekinna skóla eða einstakir árgangar þeirra skyldu njóta námsaðstoðar. Í samræmi við þetta fengu nokkrir verknámsskólar og skólar listgreina, fyrst og fremst slíkir skólar, rétt til námslána, tilteknir árgangar þeirra og í sumum tilvikum allir nemendur skólanna. Áður hafði aðstoð Lánasjóðsins ekki náð út fyrir háskólastigið, nema að mig minnir til tveggja verknámsskóla: sjómannaskóla og vélskóla, en það var á sínum tíma gert til að örva aðsókn að þeim mjög nauðsynlegu skólum.

Eftir breytinguna var bætt inn deildum í Fiskvinnsluskóla, framhaldsdeildum Iðnskólans, raungreinadeildum Tækniskólans og Fóstur-, Hjúkrunar- og Þroskaþjálfaskólar voru teknir inn, efri bekkir þeirra, Íþróttakennaraskóli, Hússtjórnarkennaraskóli og svo leiklistar-, myndlistar- og tónmenntaskólar, tilteknar deildir. En auk þessa var þá, má ég segja, tekin upp hin svokallaða 20 ára regla. Henni er hér breytt lítils háttar og áreiðanlega til bóta í samræmi við fengna reynslu. Þetta kostaði aukna fjármuni, en að nokkru leyti vannst það upp með auknu almennu aðhaldi og með því sjálfvirka aðhaldi sem verðtryggingin veitir. Menn tóku þá ekki, eftir að hún var komin á, lán nema þeir teldu brýna nauðsyn bera til — sem menn eðlilega tóku áður þegar í boði var svo ódýrt fjármagn sem raun bar þá vitni. Alveg er sama þróun nú með þessu frv., að gert er ráð fyrir aukningu réttinda nú yfir allan hópinn með fullri brúun umframfjárþarfar. Og það er eins nú og þá, að það kemur nokkuð á móti. Hér er stuðlað að þróun í þá átt sem ég held að allir vilji styðja. Ég held að því hafi yfirleitt ekki verið andmælt á Alþ., þegar hámarksákvæðin voru til meðferðar, að stefnt skyldi að 100%. Og það er auðvitað þróun í þá átt, sem allir vilja tvímælalaust, að allir geti fengið aðgang að námi, sem hafa til þess vilja og getu að stunda nám.

Ég hef rifjað upp samhengið í þessum málefnum lánasjóðsins. En mig langar til að nefna að lokum tölur. Þær eru dálítið merkilegar, finnst mér. 1971 voru á fjárl. 90 millj. kr. til Lánasjóðs ísl. námsmanna, 1975 var sú fjárhæð 680 millj. og núna, að meðtöldum lánsheimildum, er fjárhæðin 2635 millj. kr. Þetta er mikil aukning. En það er erfitt að bera saman tölur án þess að þær séu umreiknaðar í eitthvert fast verðlag 1971 voru fjárl. 11 milljarðar, 1975 voru þau 48 milljarðar og 1979 eru þau 209 milljarðar kr. M. ö. o. hafa niðurstöðutölur fjárlaga tvítugfaldast á þessu tímabili, en framlögin til námslána þrítugfaldast. Þetta eru að vísu lagaðar tölur, en þó nærri réttu. En þá er vel að merkja, að þó okkur þyki feiknalegur munur á 8 árum á 90 millj. og 2635 millj. er alls ekki víst að þarna sé um svo stórfellda breytingu að ræða. — Fjárlög ríkisins hafa tvítugfaldast, námslánin hafa þrítugfaldast, en á þessu árabili hefur orðið ótrúlega mikil fjölgun námsmanna á mörgum stigum almennt. Og það hafa verið teknar upp, eins og ég nefndi áðan, reglur um að veita námsaðstoð fjölmörgum nýjum aðilum sem ekki fengu hana þá. Ég er því ekki viss um að þenslan sé mikil umfram hina almennu þenslu í þjóðfélaginu og umfram það sem leiðir af því hvað menn sækja fastar til mennta en fyrir fáum árum. Aftur á móti á árinu 1975, þegar verið var að breyta lögunum síðast, stefndi í hreint óefni. Þá voru uppi harðar kröfur um 2600 millj., ég man glöggt þá tölu. Það var mikið um það talað, námsmenn héldu því fast fram og leiddu, frá sínum sjónarmiðum, ýmis rök að því að þá þyrfti 2600 millj. kr. til að standa undir eðlilegum lánum eða nokkurn veginn sömu fjárhæð og nú nægir, eftir 4 ár.

Það er vissulega svo hér sem annars staðar að hætta er á ofþenslu ef menn gá ekki að sér. Menn vilja gjarnan aukin réttindi, og öll viljum við áreiðanlega að veittur sé stuðningur þeim sem þurfa. Menn verða þá auðvitað um leið að treysta aðhald og eftirlit og gera ráðstafanir til þess að endurgreiðslur séu með eðlilegum hætti.