09.05.1979
Efri deild: 93. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4505 í B-deild Alþingistíðinda. (3612)

289. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Ég hlýt að láta í ljós ánægju mína yfir því, að þetta frv. er hér fram komið. Það er áreiðanlega ekki vanþörf á að setja lög um Sinfóníuhljómsveit Íslands og gera hana þar með að sjálfstæðri stofnun.

Það var töluvert erfið fæðing á því frv. sem flutt var á Alþ. síðast. Meðferð þess á Alþ. bar líka vott um að menn voru ekki á einu máli.

Eitthvert þýðingarmesta atriðið og það erfiðasta í frv., eins og það var lagt fram í fyrra, var ákvæðið um hámarkstölu þeirra sem í hljómsveitinni skyldu spila. Þetta ákvæði var tvímælalaust óeðlilegt. Við getum litið á lög um aðrar menningarstofnanir, t. d. Þjóðleikhúsið. Hefur mönnum sennilega aldrei komið til hugar að setja slíkt ákvæði inn í lög um þjóðleikhús, að þar skyldi starfa tiltekið hámark leikara.

Þó svona miklir erfiðleikar væru við að setja saman frv. um Sinfóníuhljómsveit Íslands, eins og vissulega voru þá fyrir hendi á þeim slóðum sem að því var unnið, taldi ég samt rétt að sýna frumsmíðina á Alþ., þó raunar væri fyrir fram vitað að það frv. næði ekki fram að ganga á því þingi. Það vafðist nokkuð fyrir mér, satt að segja, hvernig standa skyldi að framhaldinu á þessu verki, en ég tók þá ákvörðun, eins og hæstv. ráðh. réttilega skýrði frá, að skipa, áður en ég færi frá, nefnd til að vinna að málinu áfram. Hún var öðruvísi samsett en sú nefnd sem vann að fyrra frv.

Þetta er eitt af þeim málum sem kannske er ekki þægilegt að afgreiða mjög fljótt á þingi, nema þá Alþ. sé allt öðruvísi skipað en það var og þar séu komin upp allt önnur viðhorf en voru á síðasta þingi. Þá er margt hægt að gera, því ekki er þetta mál svo sem flókið í sjálfu sér. En menn munu, ef að vanda lætur, hafa mismunandi skoðanir á því.

Ég skal ekki hafa þessi orð öllu fleiri, en ég vil aðeins segja það að lokum, að aldrei er nógsamlega undirstrikað hve nauðsynlegt er að stofnun af stærð Sinfóníuhljómsveitarinnar og með það menningarlega gildi, sem hún vissulega hefur, fái fast land undir fótum, fái lög til að starfa eftir, ekki aðeins frá tónsnillingum, heldur líka lög frá Alþingi!