09.05.1979
Efri deild: 93. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4514 í B-deild Alþingistíðinda. (3624)

270. mál, aðstoð við þroskahefta

Frsm. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. E. t. v. væri ástæða til að þakka fyrir hönd n. fyrir það sem hér hefur komið fram um góð vinnubrögð hennar.

Ég vil aðeins í sambandi við það, sem kom fram hjá hv. þm. Oddi Ólafssyni, segja, því að ég tók það sjálfsagt ekki fram í framsögu, að n. ræddi talsvert um 2. gr. frv., þ. e. a. s. skilgreininguna á orðinu þroskaheftur, og var vissulega á því að málið væri vandmeðfarið. En að athuguðu máli töldum við rétt að fallast á það sem kemur fram í rökstuðningi í aths. um einstakar greinar, að hér væri sú leið valin að skýra orðið rúmri merkingu þar sem reynt væri að tryggja í grundvallaratriðum þroskaheftum sömu réttindi og öðrum þegnum í þjóðfélaginu og þar af leiðandi ekki vandalítið að fara að fjalla um þennan þátt til breytinga, enda er þetta að nokkru leyti sama skilgreining og fram kemur í reglugerð um sérkennslu. Ég taldi rétt að láta þetta koma fram vegna þess að n. ræddi einmitt þetta atriði talsvert mikið. Hér er um ákaflega viðkvæmt og vandasamt mál að ræða, en að vandlega athuguðu máli töldum við að best væri að hrófla ekki við því eins og það er í frv.

Ég þakka svo undirtektir og vonast til þess að málið gangi greiðlega á Alþingi.